Umfjöllun: Góður sigur í Laugardalnum

Fótbolti
Umfjöllun: Góður sigur í Laugardalnum
Guðmann var öflugur í kvöld (mynd: Hafliði Br.)

KA gerði góða ferð í Laugardalinn í kvöld þar sem liðið lagði Framara að velli 1-3 í 12. umferð Inkasso deildarinnar. Leikurinn var sýndur á Stöð 2 Sport og má sjá mörkin hér:

Fram 1 - 3 KA
0-1 Guðmann Þórisson ('24) Stoðsending: Juraj
0-2 Almarr Ormarsson ('45) Stoðsending: Juraj
1-2 Indriði Áki Þorláksson ('61, víti)
1-3 Elfar Árni Aðalsteinsson ('83, víti)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Callum, Ívar Örn, Aleksandar, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni

Bekkur:

Fannar, Baldvin, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Davíð Rúnar, Pétur Heiðar og Orri.

Skiptingar:

Ívar Örn út - Davíð Rúnar inn (’72)
Archie Nkumu út - Halldór Hermann inn (’78)
Juraj út - Pétur Heiðar inn (’84)

KA menn mættu vel á leikinn og yfirgnæfðu stuðningsmenn Framara frá fyrstu mínútu, hvort það hafi gefið liðinu aukakraft skal ekki segja en KA liðið var mikið mun sterkara í fyrri hálfleiknum á meðan Framarar áttu í erfiðleikum með að koma boltanum nálægt vítateig okkar manna.

Guðmann Þórisson skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu frá Juraj Grizelj í netið. Guðmann lúrði á nærstönginni og átti ekki í vandræðum með að klára færið og skoraði þarna sitt annað mark í sumar.

Stuttu síðar átti KA frábæra sókn þar sem boltinn gekk hratt manna á milli sem endaði með því að Hallgrímur Mar fékk fínasta færi þó þröngt væri en Sigurður Hrannar varði vel frá honum.

Á 40. mínútu fékk svo Almarr Ormarsson algjört dauðafæri, Elfar Árni gerði vel í að koma sér að markteignum af kantinum og renndi boltanum fyrir markið þar sem Almarr kom aleinn en á ótrúlegan hátt tókst honum að setja boltann framhjá.

Almarr hinsvegar bætti upp fyrir þessi mistök skömmu fyrir hálfleik þegar hann stangaði fyrirgjöf frá Juraj Grizelj í netið og staðan góð, 0-2, þegar flautað var til leikhlés.

Eitthvað voru menn fullrólegir í síðari hálfleik og leit út fyrir að okkar menn vildu hreinlega sigla sigrinum heim án mikillar fyrirhafnar. Það gekk hinsvegar ekki eftir þegar Framarar fengu vítaspyrnu er 30 mínútur lifðu enn leiks. Boltinn fór í magann á Callum Williams í vörninni en dómari leiksins mat það svo að hann hefði farið í hönd kappans og dæmdi vítaspyrnu. Indriði Áki Þorláksson skoraði af öryggi og allt í einu var komin spenna í leikinn.

Við þetta mark fór KA liðið að reyna að halda forskotinu en sama hvað heimamenn reyndu þá fundust fáar opnanir. En við gátum svo andað léttar á 83. mínútu þegar Elfar Árni Aðalsteinsson var felldur á klaufalegan hátt og Elfar Árni skoraði sjálfur úr vítinu. Sigurður Hrannar var í boltanum en spyrnan var það föst að boltinn fór rakleiðis í netið.

1-3 sigur staðreynd og KA heldur áfram að safna stigum. Eftir þessa fyrstu umferð í seinni hluta Inkasso deildarinnar er KA með 5 stig á Grindavík sem er í 2. sætinu og 6 stig á Leikni R. sem er í 3. sætinu. Staðan er því góð en enn eru 10 leikir eftir og því ljóst að sigurgangan þarf að halda áfram ef markmiðið á að nást.

KA-maður leiksins: Guðmann Þórisson (Guðmann er búinn að vera frábær í sumar og það var engin breyting á því í kvöld. Skoraði fyrsta markið og átti nokkrar flottar tæklingar og hreinsanir. Framararnir komust lítt ávegis gegn Guðmanni sem einnig hélt okkar mönnum á tánum, magnaður!)

Næsti leikur KA er gegn Haukum á miðvikudaginn (27. júlí) en leikurinn fer fram á Akureyrarvelli klukkan 19:15. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta og sjá til þess að liðið haldi áfram að safna stigum og færast nær efstu deild, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband