Þróttarar sóttir heim á morgun

Fótbolti
Þróttarar sóttir heim á morgun
Mynd/Þórir Tryggva.

Á morgun fer liðið suður yfir heiðar og sækir Þróttara heim í 10. umferð 1.deildar karla. Leikurinn verður flautaður á kl. 19.15. Um er að ræða fyrsta heimaleik Þróttara undir stjórn Zoran Miljkovic sem tók við stjórnartaumunum hjá liðinu á dögunum. Liðin eru á svipuðum stað í deildinni. Þróttarar sitja í 11. sæti með 8 stig en KA er í því áttunda með 11 stig.

Þróttarar enduðu á síðustu leiktíð í 3.sæti deildarinnar með jafn mörg stig á KA liðið en voru með betri markatölu. Á þessu tímabili hefur hinsvegar ekki alveg það sama verið upp á teningnum. Liðið hóf tímabilið afar illa og voru stigalausir eftir fyrstu þrjár umferðirnar. En fyrsti og eini sigur liðsins undir stjórn Páls Einarssonar fyrrum þjálfara Þróttara kom gegn Völsungum á Húsavík í fjórðu umferð. Í kjölfarið fylgdu tveir tapleikir gegn Leikni og Grindavík og tvö jafntefli gegn Selfyssingum og Fjölnismönnum. Það var svo 1.júlí sem leiðir Páls Einarsonar og Þróttara skyldu og við tók Zoran nokkur Miljkovic. 

Zoran er enginn nýgræðingur þegar að kemur að íslenskum fótbolta en hann lék á árum áður með ÍA og ÍBV hér á landi við góðan orðstír. Árið 2007 tók hann síðan við Selfyssingum og kom þeim upp í 1.deild eftir ára langa fjarveru. Næsti viðkomustaður Zoran var síðan hjá Leiknismönnum á síðustu leiktíð þegar að hann tók við þeim í vægast sagt slæmum málum en tókst að bjarga þeim frá falli á ótrúlegan hátt. Fyrsti leikur Zoran með Þróttarana var um síðustu helgi þar sem liðið lagði lið KF á Ólafsfirði 1-0.

Markahæstur Þróttara á þessu tímabili er Sveinbjörn Jónason með þrjú mörk en hann gékk til liðs við sitt gamla félag fyrir þetta tímabil eftir eins árs dvöl hjá Fram. Hjá Þrótturum leikur síðan fyrrum leikmaður KA, Haukur Hinriksson en hann á að baki 52 leiki fyrir KA. Hjá KA liðinu verður síðan fyrirliðin Atli Sveinn Þórarinsson í banni vegna fjögurra gula spjalda sem hann hefur fengið í sumar.

Eins og ævinlega höfum við síðan fengið vaska KA menn til að spá fyrir um komandi leik og reyna að geta fyrir um rétt úrslit.

Spámenn umferðarinnar:

Óskar Þór Halldórsson, KA-maður: 

Þróttarar skiptu nýverið um þjálfara og þeir lönduðu í kjölfarið mikilvægum útisigri á KF í Ólafsfirði, nokkuð sem fáum liðum hefur tekist. Þessi sigur hefur án nokkurs vafa aukið sjálfstraust þeirra rauðröndóttu, sem þýðir að þeir koma með kassann út á móti okkar strákum á Valbjarnarvelli og vilja alveg örugglega sýna hvað í þeim býr fyrir framan sýna dyggu stuðningsmenn, Köttarana.

KA-liðið verður að vera búið undir mjög erfiðan leik á Valbjarnarvelli og að mínu mati er lykillinn að því að komast vel frá honum að berjast af fullum krafti fyrir hverjum einasta bolta. Og það þarf að gerast frá fyrstu sekúndu leiksins. Forsendur fyrir sambabolta á Valbjarnarvelli verða ekki til staðar í þessum leik, þetta hlýtur fyrst og fremst að verða baráttuleikur, bæði lið ætla sér sigur. KA-menn þurfa meira en einn punkt ætli þeir sér af alvöru að þokast nær toppliðunum og að sama skapi er þetta tækifæri Þróttara til þess að slíta sig betur frá botninum og fylgja eftir góðum sigri í Ólafsfirði.

Mér finnst hafa verið mikil batamerki á KA-liðinu í undanförnum leikjum og það hefur glatt mig að sjá að strákarnir eru farnir að berjast miklu meira inni á vellinum. Þessu verða þeir að halda áfram, það er algjört lykilatriði á Valbjarnarvelli. Takist það hef ég trú á því að við löndum sterkum 0-1 sigri. Carsten er vís til þess að skora markið, eftir að hafa brotið ísinn með frábæru marki á Akureyrarvelli færist hann í aukana upp við mark andstæðinganna og setur eitt mark á Valbjarnarvelli. Grímsi hefur verið frábær í síðustu leikjum og mun verða það áfram. Hætt er við því að fókus andstæðinganna fari í auknum mæli á varnartilburði gegn Grímsa, en við það losnar um aðra sóknarþenkjandi leikmenn KA - Carsten, Bessa og Ævar Inga. Ég sé fyrir mér að snilli Grímsa muni eins og oft áður skapa það mark sem skilur liðin að á Valbjarnarvelli. 

Ég hef trú á ykkur strákar, löndum þremur stigum syðra áður en við tökum á móti toppliði Grindvíkinga á Akureyrarvelli í næstu viku!

Kristján Sturluson, KA-maður: 

Leikurinn gegn Þrótti leggst vel í mig. Liðið hefur verið að sýna sitt rétta andlit í undanförnum leikjum eftir erfiða byrjun á mótinu. Í raun er allt annað að sjá liðið núna en í upphafi móts. Liðið er komið með sjálfstraust og nú liggur leiðin bara upp á við! Carsten er kominn á blað og ég er þess fullviss að fleiri mörk muni núna koma í kjölfarið frá honum. 

Þetta verður án efa hörkuleikur, eflaust mikil barátta þar sem ekkert verður gefið eftir. Þróttarar eru búnir að skipta um þjálfara og komnir með mann sem að eigin sögn veit allt um fótbolta. Alltaf erfitt að eiga við lið sem er nýbúið að skipta um þjálfara. Þróttur vann KF í Ólafsfirði um seinustu helgi og því má alls ekki vanmeta þá.

Ég spái okkar mönnum 3-1 sigri þar sem Carsten, Bessi og Fannar skora mörkin. Það kæmi ekki á óvart ef Hallgrímur Mar ætti a.m.k. eina stoðsendingu eða setti hann einfaldlega beint úr aukaspyrnu. Vörnin verður þétt með Gunna í fararbroddi og Sandor á eftir að eiga nokkrar frábærar vörslur, eins og honum einum er lagið.

Hvet svo KA menn á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna á leikinn! Verð sjálfur sunnan heiða og mæti sjálfsögðu á leikinn. 

Áfram KA!

Aðalbjörn Hannesson, KA-maður: 

Sagan segir að allar æfingar hjá Zoran hafa verið 2 klst taktík æfingar þannig það má búast við skipulögðu Þróttaraliði á föstudaginn. Við þjálfaraskiptin misstu þeir þó ágæta leikmenn sem gæti haft eitthvað að segja. 

Ég reikna með erfiðum leik hjá okkar mönnum en hallast þó á að við tökum stigin þrjú með okkur norður. Davíð Rúnar mun skora fyrsta markið með 30m skoti og munu því Þróttarar þurfa að koma framar á völlinn. Það þýðir að það opnast pláss til að sækja í og mun Carsten skora sitt annað mark í tveimur leikjum og tryggja okkur 2-0 sigur.


Við viljum svo vekja athygli á því að hægt er að horfa á leikinn hjá SportTV og hefst hann sem áður segir kl. 19.15 en við viljum hvetja alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu að fjölmenna á völlinn og hvetja strákana til sigurs. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is