Sigur á Esso mótinu 1988

Strákarnir í 5. flokki KA unnu það mikla afrek að standa uppi sem sigurvegarar á Esso-móti KA sumarið 1988 en þetta var í annað skiptið sem mótið fór fram. Árið 1988 tóku alls 20 lið þátt og komu þau víðsvegar að frá landinu. Keppt var í A og B liða keppni, mótið stóð yfir í 3 daga og var ávallt leikið á tveimur völlum samtímis.

KA fór í úrslitariðil í A liðakeppninni og mætti þar Þór, Stjörnunni og Aftureldingu. KA liðið vann 2-1 sigur á Þór og svo 7-0 stórsigur á Aftureldingu. Í lokaleiknum mætti liðið Stjörnunni og dugði jafntefli til að tryggja sigur á mótinu. Garðbæingar komust yfir snemma leiks en KA strákarnir jöfnuðu fyrir hálfleik. Það gekk svo á ýmsu í þeim síðari en strákarnir héldu út og tryggðu sér sigur á mótinu.


Sigurlið KA 1988

Efri röð frá vinstri: Gauti Laxdal þjálfari, Heimir Haraldsson, Gauti Reynisson og Matthías Stefánsson.
Neðri frá vinstri: Óli Björn Ólafsson, Orri Einarsson, Sigurður Bjarni Jónsson, Bjarni Bjarnason, Óskar Bragason og Ragnar Þorgrímsson.

Að móti loknu var Matthías Stefánsson fyrirliði KA liðsins gripinn í viðtal, "Ég átti ekki von á að við myndum vinna þetta mót og því kom sigurinn skemmtilega á óvart og ég er ánægður".

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is