Margrét og Ólöf enduðu í 6. sæti á EM

Handbolti
Margrét og Ólöf enduðu í 6. sæti á EM
Ólöf og Margrét geta verið sáttar eftir EM

U17 ára stúlknalandslið Íslands lauk þátttöku á EM í Makedóníu í dag þegar liðið lék um 5. sætið á mótinu. Leikurinn í dag tapaðist og endaði liðið því í 6. sætinu en tveir leikmenn KA/Þórs voru í liðinu en það eru þær Ólöf Marín Hlynsdóttir og Margrét Einarsdóttir.

Í riðlakeppninni mættu stelpurnar liðum Kósóvó, Búlgaríu, Slóveníu og Ísrael. Íslenska liðið tapaði 25-26 fyrir Kósóvó eftir mikla baráttu í fyrsta leik þar sem að Margrét varði 7 skot í markinu. Næsti leikur var gegn liði Búlgara en sá leikur tapaðist 24-19. Margrét varði 5 skot í leiknum og Ólöf Marín gerði 1 mark.

Slóvenía var næsti andstæðingur og eru þær með gríðarlega sterkt lið og endaði leikurinn með 28-15 tapi en Margrét varði 6 skot í markinu. En íslenska liðið átti frábæran leik í lokaleik sínum í riðlinum þegar 29-18 sigur vannst á Ísrael en Ísrael hafði unnið Kósóvó. Íslenska liðið náði því 3. sætinu í riðlinum með þessum stóra sigri og lék því um 5. sætið.

Sá leikur fór fram í dag og var gegn Svisslendingum. Fyrri hálfleikur var gríðarlega spennandi og jafn en Sviss leiddi 13-14 að honum loknum. Því miður var byrjunin á þeim síðari ekki nægilega góð og Svisslendingar unnu að lokum 27-35 stórsigur. Ólöf Marín gerði 2 mörk í leiknum og Margrét varði 3 skot.

Niðurstaðan 6. sætið sem verður að teljast bara frekar gott. Bæði Ólöf og Margrét spiluðu þó nokkuð og er ljóst að þetta er flott reynsla fyrir átökin í vetur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is