Jóna Margrét til liðs við Cartagena

Blak
Jóna Margrét til liðs við Cartagena
Virkilega spennandi skref hjá Jónu!

Jóna Margrét Arnarsdóttir skrifaði í dag undir hjá spænska liðinu FC Cartagena. Þetta er afar spennandi skref hjá okkar frábæra leikmanni en Jóna sem er enn aðeins 19 ára gömul fór fyrir liði KA sem hampaði öllum titlunum í vetur og stóð því uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera meistari meistaranna.

Jóna sem er uppalin í KA hefur æft með meistaraflokk frá árinu 2016, þá aðeins 12 ára gömul, var kjörin íþróttakona KA fyrir árið 2022 og var í lok núverandi tímabils kjörin besti leikmaður liðsins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jóna blómstrað í uppspilarastöðunni hjá KA liðinu undanfarin ár og orðin fastamaður í A-landsliði Íslands. 


Jóna og Gígja voru kvaddar með merktum KA treyjum á lokahófi blakdeildar á dögunum

Þetta er eins og segir afar spennandi skref hjá Jónu en lið Cartagena spilar í 1. deild á Spáni og var hársbreidd frá sæti í efstu deild í vetur en liðið endaði í 3. sæti deildarinnar. Boginn er spenntur hátt á næstu leiktíð og er Jóna hugsuð sem aðaluppspilari liðsins en þjálfari Cartagena er enginn annar en André Collin dos Santos sem þjálfaði og lék með karlaliði KA tímabilin 2020-2021 og 2021-2022.

Við óskum Jónu innilega til hamingju með samninginn og hlökkum svo sannarlega til að fylgjast áfram með framgöngu þessa magnaða leikmanns okkar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is