Ungmennalið KA með góðan sigur á ÍR-U

Handbolti

Í gærkvöldi voru augu flestra handboltaunnenda væntanlega á leik Svía og Króata á Evrópumeistaramóti karla. Fyrir vikið týndist eiginlega leikur Ungmennaliða KA og ÍR í 2. deild karla sem fór fram í KA heimilinu í gærkvöldi. Fyrir leikinn sat ÍR á toppi deildarinnar með 10 stig eftir 9 leiki þannig að búist var við erfiðum leik.

Ungmennalið KA mætti ákveðið til leiks eftir frábært afmælishóf laugardagsins og skemmst frá því að segja að liðið lék sinn allra besta leik á tímabilinu. Eftir fimmtán mínútna leik voru þeir komnir með fimm marka forskot, 13-8 sem var orðið sjö mörk þegar flautað var til hálfleiks, 22-15.

Sami kraftur einkenndi liðið í seinni hálfleik og munaði mest níu mörkum á liðunum, staðan 37-28 þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Heldur var slakað á klónni þessar lokamínútur og klóruðu ÍR-ingar nokkuð í bakkann og náðu að minnka muninn, en frábær fimm marka sigur þegar upp var staðið, lokatölur 38-35.

Einar Logi Friðjónsson minnti heldur betur á sig með sannkölluðu stórleik, auk þess sem Heimir Pálsson og Sigþór Gunnar Jónsson röðuðu inn mörkum.

Mörk KA: Einar Logi Friðjónsson 9, Heimir Pálsson 7 (4 úr vítum), Sigþór Gunnar Jónsson 7, Einar Birgir Stefánsson 4, Jón Heiðar Sigurðsson (yngri) 4 (1 úr víti), Jóhann Einarsson 2, Ragnar Hólm Sigurbjörnsson 2, Elvar Reykjalín 1, Kristján Garðarsson 1 og Óli Birgir Birgisson 1 mark.

Í markinu stóðu Svavar Ingi Sigmundsson með 9 varin skot og Bruno Bernat með 3 varin.

Næsti leikur strákanna er heimaleikur gegn Ungmennaliði Víkings og er hann á föstudagskvöldið 19. janúar, klukkan 20:15 í KA heimilinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is