Íslands- og Bikarmeistarar 1991

KA hampaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í blaki karla árið 1989 en gerði svo gott betur árið 1991 þegar liðið varð bæði Íslands- og Bikarmeistari. Mikil bikarhefð hefur ríkt hjá KA í kjölfarið en karlalið KA hefur alls orðið níu sinnum Bikarmeistari í blaki karla.


Íslands- og Bikarmeistaralið KA 1991

Aftari röð frá vinstri: Sigmundur Þórisson formaður KA, Bjarni Þórhallsson, Hafsteinn Jakobsson, Þröstur Friðfinnsson, Stefán Magnússon, Sigurður Arnar Ólafsson, Arngrímur Arngrímsson og Hou Xiao Fei þjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Magnús Aðalsteinsson, Oddur Ólafsson, Haukur Valtýsson fyrirliði, Kristján Sigurðsson og Pétur Ólafsson.

Rétt eins og árið 1989 var KA liðið með mikla yfirburði, liðið vann 18 leiki af 20 og hafði tryggt Íslandsmeistaratitilinn þegar enn voru þrjár umferðir eftir af deildarkeppninni. KA liðið lék síðustu tvo leiki sína fyrir sunnan og fékk að þeim loknum bikarinn í hendurnar.

Í fyrri leik helgarinnar mætti liðið HK en þau áttu svo einmitt eftir að mætast viku síðar í bikarúrslitaleiknum. Það má heldur betur segja að um maraþonviðureign hafi verið um að ræða en leiknum lauk ekki fyrr en klukkan 00:45. Þá voru rétt rúmir níu tímar í næsta leik en KA átti leik gegn Fram klukkan 10 um morguninn!


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir frá vetrinum 1990-1991

HK vann fyrstu hrinuna 15-9 en KA liðið náði að snúa leiknum sér ívil og vann hann að lokum 1-3 eftir 10-15, 12-15 og 14-16 sigra í næstu hrinum. Oft á tíðum mátti sjá skemmtileg tilþrif í leik liðanna og þá einkum í varnarleiknum. Það var því búist við spennandi og skemmtilegum leik í úrslitum Bikarkeppninnar.

"Þeir áttu góðan leik, vörðu vel aftur á vellinum og börðust vel. Þeir eru frekar lágvaxnir þannig að blokkin hjá okkur var þokkaleg en móttakan hinsvegar léleg. Ég er hóflega bjartsýnn á bikarleikinn. Það ríkir önnur stemning í kringum þessa bikarleiki og taugaveiklunin er oft mikil. HK hefur aldrei spilað úrslitaleik en við höfum spilað tvo og tapað þeim báðum. Við stefnum auðvitað að tvöföldum sigri og höfum undirbúið okkur í samræmi við það. En leikurinn byrjar 0-0 og því betra að vera bara hóflega bjartsýnn" sagði Haukur Valtýsson fyrirliði KA.

Þrátt fyrir takmarkaðan svefn kláraði KA Íslandsmótið á 0-3 sigri á Fram í leik sem þótti þó heldur rislítill. KA liðið vann 16-14, 15-9 og 15-12 sigra í hrinunum þremur og tók því við Íslandsmeistaratitlinum sigri hrósandi. KA hlaut alls 36 stig á toppi deildarinnar og var átta stigum á undan Þrótti Reykjavík sem varð í öðru sæti.

Þegar í bikarúrslitaleikinn var komið var pressan þó nokkur á liði KA sem þótti sigurstranglegra gegn HK. Það var greinilegt strax í upphafi leiks að nokkurrar taugaspennu gætti en þá einna helst HK-megin. KA-menn tóku leikinn strax í sínar hendur og í fyrstu hrinu komust þeir í 7-0 án þess að HK tækist að svara fyrir sig. Lið HK virkaði frekar taugaslappt til að byrja með og gerði nokkuð af ódýrum mistökum sem KA-menn nýttu sér til fullnustu.


Íslandsmeistaratitlinum hampað eftir 0-3 sigur á Fram

HK náði þó að klóra í bakkann undir lokin en þá of seint og 15-5 sigur KA varð staðreyndin í fyrstu hrinu. En Kópavogsliðið var þarna búið að finna taktinn og úr varð æsispennandi önnur hrina. Hrinan var uppfull af skemmtilegum tilþrifum og var það einkum ferskur varnarleikur HK-manna sem gladdi augað. Íslandsmeistaralið KA sótti fast en HK tókst hvað eftir annað á ævintýralegan hátt að bjarga knettinum frá að lenda í gólfinu.

HK hafði forystu allt frá upphafi og liðið var með pálmann í höndunum þegar staðan var 11-14. En það var eins og HK væri fyrirmunað að vinna hrinuna, leikmenn liðsins áttu tvívegis möguleika á að ná í fimmtánda stigið í stöðunni 14-11 en þess í stað gengu KA-menn á lagið og höluðu inn næstu sex stigum og sigruðu 17-15.

Kópavogsliðið sat því eftir með sárt ennið, enda hefði sigur í hrinunni gjörbreytt stöðunni og án efa breytt miklu fyrir framhaldið. Þess í stað keyrði KA-liðið yfir þriðju hrinuna og sigraði hana örugglega 15-3 á aðeins 18 mínútum. KA-liðið var mun betra í leiknum og leikur liðsins var mun heilsteyptari en HK-liðsins.


Bikarmeistaratitillinn í höfn!

KA liðið hampaði því bæði Íslands- og Bikarmeistaratitilinum árið 1991 og lék enginn vafi á því að liðið var það langsterkasta á landinu það tímabilið. Haukur Valtýsson, Hafsteinn Jakobsson og Stefán Magnússon áttu allir góðan dag en breiddin var aðall liðsins.

Nokkur fjöldi manna var saman kominn í Digranesi til að berja þessa úrslitaviðureign augum, þar á meðal fámennur en kröftugur hópur KA-manna sem studdu heldur betur vel við bakið á sínum mönnum.

Þeir þoldu ekki pressuna

"Þetta var auðveldara en ég reiknaði með. Þeir voru verulega taugaveiklaður og þoldu greinilega ekki pressuna. Við vorum svolítið stífir í byrjun en það má alltaf reikna með því í svona leikjum. Þetta small saman í lokin á annarri hrinu og eftir það var þetta engin spurning" sagði Haukur Valtýsson fyrirliði KA.

"Satt að segja vonaðist ég eftir jafnari leik áhorfendanna vegna. Uppgjafirnar hjá okkur voru þeim erfiðar og urðu til þess að gera spil þeirra einhæft. Þess vegna varð vörnin einfaldari fyrir okkur. Við vorum einfaldlega betri, þarð er staðreynd."


Haukur Valtýsson fyrirliði KA liðsins

Voruð þið ekki svolítið heppnir í lokin á annarri hrinunni? "Jú, vissulega hefur heppnin alltaf svolítið að segja. Hinsvegar erum við með miklu meiri reynslu og hún nýttist í þessari stöðu. Leikur okkar small saman einmitt á þessu augnabliki og þá fór allt að virka. Það var áfall fyrir þá að tapa þessari hrinu en ég er viss um að við hefðum unnið leikinn þó hún hefði farið öðruvísi."

Haukur sagði að hann hefði ekki átt von á þessum árangri í upphafi keppnistímabilsins en þegar á leið hefði það breyst. "Þetta small alltaf betur og betur saman og maður var farinn að eygja þennan möguleika upp úr áramótum. Og nú getur maður ekki annað en verið ánægður með tímabilið."

Liðið lék vel í dag

Fei hinn kínverski þjálfari KA-manna sló á létta strengi og sagði að leikmenn liðsins hefðu leikið svo vel að hann hefði ekki komist inn á. "Ég hélt ég myndi þurfa að leika en þeir léku svo vel að ég gat bara setið á bekknum og slappað af." Annars sagði Fei að liðið hefði leikið mjög taktískt til þess að reyna að brjóta niður snögga spilið hjá HK og það hefði tekist "því móttakan hjá HK gekk illa og gerði okkur mun betur kleift að eiga við þá."


Fei var hampað að bikarúrslitaleiknum loknum

"HK-strákarnir voru miklu óstyrkari en ég bjóst við. Ég átti von á að þeir kæmu fullir baráttu og myndu ekki vera hræddir við neitt en reyndin varð önnur. Mínir menn léku ágætlega en þetta var of auðveldur leikur" og sá því ekki ástæðu til að leika sjálfur í leiknum en hann hafði styrkt liðið um veturinn þegar mikið lá við.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is