HK hafði betur í toppslagnum

Blak
HK hafði betur í toppslagnum
HK reyndist sterkari í kvöld (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti HK í Mizunodeild kvenna í blaki í kvöld í algjörum toppslag en þarna mættust liðin sem hafa barist um titlana undanfarin ár. Fyrir leikinn voru gestirnir með fullt hús stiga á toppnum en KA þurfti helst á sigri að halda til að koma sér nær HK liðinu.

HK hafði unnið fyrri leik liðanna í KA-Heimilinu í vetur og hvort stelpurnar okkar hafi verið búnar að spenna bogann full hátt fyrir leik skal ekki segja en spennustigið virkaði hærra hjá okkar liði. Fyrsta hrina var þó jöfn til að byrja með en HK seig framúr er leið á og vann að lokum 16-25 sigur eftir að hafa gert síðustu sex stig hrinunnar.

Móttakan hjá stelpunum var ekki alveg nægilega góð og fyrir vikið var sóknarleikurinn ekki jafn beittur og venjulega. HK gekk því á lagið en stelpunum tókst að svara fyrir sig í næstu hrinu sem var jöfn og spennandi. Þegar mest var undir tókst stelpunum að stíga upp og sigla góðum 25-23 sigri og jöfnuðu þar með metin í 1-1.

Áfram hélt góð spilamennska okkar liðs í þriðju hrinu og var útlitið ansi gott um miðbik hennar er KA leiddi 14-9. En þá kom slakur kafli þar sem HK gerði sex stig í röð og tók forystuna. Spennan var mikil enda liðið sem myndi fara með sigur af hólmi í hrinunni komið í lykilstöðu. En nú voru það gestirnir sem reyndust sterkari og fóru með 22-25 sigur sem kom þeim í 1-2 stöðu.

KA þurfti því á sigri að halda í fjórðu hrinunni til að knýja fram upphækun og fá eitthvað útúr leiknum og úr varð spennuþrungin hrina. Liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvort liðið myndi hafa betur. Gestirnir voru komnir í fína stöðu en stelpurnar okkar náðu að knýja fram upphækkun í 24-24 og aftur í 25-25 en nær komust þær ekki og HK tókst að sigla heim 25-27 sigri og þar með 1-3 í heildina.

Gríðarlega svekkjandi að fá ekkert útúr leiknum en stelpurnar sýndu á köflum virkilega flottan leik en vantaði ögn upp á stöðugleikann. HK er því áfram með fullt hús stiga og virðist ætla að hrifsa Deildarmeistaratitilinn sem KA hefur unnið undanfarin tvö ár.

Paula del Olmo Gomez fór hamförum í okkar liði í kvöld og gerði 24 stig. Mireia Orozco kom næst með 13 stig, Gígja Guðnadóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir gerðu báðar 6 stig, Sigdís Lind Sigurðardóttir 4 stig og Jóna Margrét Arnarsdóttir gerði 3 stig.

Það er búið að vera mikið álag á liðinu að undanförnu enda spilað þétt en nú fá stelpurnar smá tíma til að anda áður en þær mæta HK á nýjan leik en nú fyrir sunnan. Það er klárt að stelpurnar eiga hörkumöguleika á að leggja sterkt lið HK að velli en þurfa að sýna ögn meiri stöðugleika til að ná því.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is