Svavar Ingi nýr yfirþjálfari handboltans

Handbolti
Svavar Ingi nýr yfirþjálfari handboltans
Velkominn heim!

Svavar Ingi Sigmundsson er snúinn aftur heim í KA og hefur tekið við starfi yfirþjálfara handknattleiksdeildar. Þetta eru spennandi breytingar en Svavar eða Svabbi eins og hann er iðulega kallaður er gríðarlega metnaðarfullur og kemur inn með ferska strauma inn í starf félagsins.

Svabbi kom gríðarlega vel inn í meistaraflokk KA árið 2017 og fékk hann strax viðurnefnið Svabbi kóngur er hann varði vítakast á lokasekúndunum í jafnri stöðu í fyrsta leik KA eftir að slitnaði uppúr Akureyri Handboltafélagi tímabilið 2017-2018. Í kjölfarið skoraði Dagur Gautason sigurmark leiksins og fagnaði liðið því sætum sigri.

Svavar sem á einmitt afmæli í dag er 24 ára gamall og hefur þrátt fyrir það mikla reynslu af starfi yngriflokka til viðbótar við þá reynslu sem hann hefur sem leikmaður. Hjá KA þjálfaði hann hina ýmsu flokka auk þess að vera markmannsþjálfari félagsins. Þá tók hann vel af skarið með metnaðarfullum æfingum á covid tímanum.

Svabbi lék í fjögur ár með meistaraflokk KA uns hann hélt suður í nám árið 2021 þar sem hann lék með FH. Hjá FH var hann einnig yngriflokkaþjálfari sem og markmannsþjálfari yngriflokka og meistaraflokks kvenna.

Hann er nú snúinn aftur heim þar sem hann mun ásamt því að vera yfirþjálfari koma inn sem markmannsþjálfari meistaraflokks karla og yngriflokka félagsins auk þess að þjálfa 7. og 8. flokk.

Við bjóðum Svabba hjartanlega velkominn aftur norður og hlökkum svo sannarlega til að vinna með honum í hinu metnaðarfulla umhverfi okkar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is