KA í úrslit Bridgestonebikarsins -bæði í kvenna- og karlaflokki

Blak
Bæði lið KA munu spila í úrslitum Bridgestonebikarskins á sunnudaginn. Fara leikirnir fram í Laugardalshöllinni. Stelpurnar munu spila við HK kl 14:00 en strákarnir strax á eftir kl 15:30. Mótherjar þeirra verða Stjörnumenn en þeir unnu HK í æsilegum undanúrslitaleik 3-2.
Er ástæða til að hvetja alla KA-menn á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna í Höllina. Það er ekki á hverjum degi sem svona tækifæri gefst og ef allt gengur að óskum gætu bæði lið staðið uppi sem meistarar.
KA-Fylkir  3-0     (25-12, 25-12, 25-22)

Stelpurnar spiluðu sinn leik kl 12. Staðan var 12-6 þegar heimasíðan mætti á svæðið í fyrstu hrinunni. KA var ekki í neinum vandræðum og mótspyrnan satt að segja ekki mikil. Hulda Elma var mest áberandi í hrinunni og skellti hvað eftir annað í gólfið. Önnur hrinan var hálfgert basl, alveg upp æi 9-9. Þæa tæoku KA-stelpurnar öll völd á vellinum og rúlluðu yfir Fylki. Alda Ólína kom einmitt inná um þetta leyti og skilaði sínu. Staðan var allt í einu orðin 20-11 og allur vindur úr mótherjanum. Tvær fyrstu hrinurnar voru auðveldar og báðar fóru þær 25-12. 
Hefðu menn haldið að eftirleikurinn yrði auðveldur þá var það fjarri. Fylkir barðist mjög vel alla síðustu hrinuna og var jafnt nánast til loka. Sjá mátti tölur eins og 10-10, 15-15 og 21-21. KA virtist alltaf vera að hrista Árbæjarliðið af sér en Fylkisstelpurnar neituðu að gefast upp. Á mjög taugatrekkjandi kafla og eftir mikla baráttu upp við netið náði KA góðri blokk og komst við það í 23-21. Svo skiptust liðin á að skora en KA hafði sigur á endanum 25-22.
Ekki er hægt að segja annað en stelpurnar hafi staðið sig vel í leiknum. Samvinnan var góð en í lokahrinunni kom smá taugaskjálfti í þær, sem eðlilegt er. Með góðum leik á morgun á KA að geta unnið titilinn en ljóst er að andstæðingarnir verða erfiðir. HK hefur verið sterkasta liðið tvö síðustu ár og er liðið nýkríndur deildarmeistari. HK kom norður um síðustu helgi og vann KA 3-1 í deildinni. KA aftur á móti vann HK fyrr í vetur í undanriðlum bikarkeppninnar. Ef liðið hittir á góðan leik þá getur það vel unnið. Áfram stelpur.

KA-Þróttur  3-0     (25-20, 25-17, 25-21)

KA-strákarnir spiluðu kl 16 í dag gegn Þrótti Reykjavík. Eitthvað virtust menn værukærir og áttu í nokkru basli framan af. Daníel Sveinsson meiddist strax í fyrstu hrinunni og vantaði þá báða miðjumenn liðsins þar sem Valur var fjarverandi. KA spilaði því langmest á Pjotr og var hann að skila sínu í gegn. Það má segja að KA hafi siglt nokkuð örugglega í gegnum leikinn sem hlýtur að vera jákvætt. Andstæðingur KA verður Stjarnan sem vann HK 3-2 í frábærum leik. Liðin hafa spilað fjórum sinnum í deildinni í vetur. KA vann þrjá fyrstu leikina en tapaði um síðustu helgi í skrautlegum leik þar sem nánast sauð uppúr. Stjarnan hefur styrkt lið sitt töluvert upp á síðkastið og verður KA að eiga toppleik til að landa langþráðum titlinum.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is