KA vann landsbyggðarslagina (myndaveisla)

Almennt
KA vann landsbyggðarslagina (myndaveisla)
Flottir sigrar um helgina (mynd: Þórir Tryggva)

KA og Þróttur Fjarðabyggð mættust bæði karla- og kvennamegin í blakinu um helgina. Báðir leikir fóru fram í KA-Heimilinu en karlarnir mættust á föstudeginum en konurnar á laugardeginum. Eins og svo oft áður urðu leikir liðanna jafnir og spennandi.

Gestirnir að austan byrjuðu betur í leik karlanna og komust í 10-17 og 13-20 í fyrstu hrinu. Þá kviknaði loks á KA liðinu sem sneri stöðunni sér ívil og komst í 24-22. En strákunum tókst ekki að klára dæmið því Þróttarar gerðu næstu fjögur stig og unnu þar með hrinuna 24-26.

Þetta kveikti vel í strákunum okkar sem hófu aðra hrinu af krafti og náðu strax góðu forskoti. KA leiddi mest með níu stigum í hrinunni og vann að lokum sannfærandi 25-16 sigur og jafnaði þar með metin í 1-1.

Jafnt var á með liðunum í upphafi þriðju hrinu en aftur náðu strákarnir að slíta sig frá Þrótturum er leið á og aftur vannst sannfærandi sigur í hrinunni, nú 25-18 og staðan orðin 2-1 fyrir KA.

Aftur byrjuðu strákarnir vel í fjórðu hrinu en í stöðunni 8-5 kom öflugur kafli gestanna sem komust í 9-11 og höfðu þeir frumkvæðið frá því. Þróttarar gerðu svo afar vel á lokakaflanum og sigldu 20-25 sigri og knúðu þar með fram oddahrinu og staðan 2-2.

Þróttur komst í 0-3 í oddahrinunni en KA liðið svaraði og komst í 5-4 og í kjölfarið var jafnt á nánast öllum tölum og spennan í algleymingi. Að lokum tókst strákunum okkar að tryggja 15-13 sigur og þar með 3-2 sigur samanlagt.

Virkilega vel gert hjá strákunum að ná að klára leikinn með sigri en innkoma Mateusz Jeleniewski í stöðu libero var eftirtektarverð en hann hefur aðeins æft í viku með liðinu. Á sama tíma vantaði Hermann Biering Ottósson í lið KA og steig Birkir Freyr Elvarsson upp í miðjustöðuna en Birkir sem er þekktari fyrir framgöngu sína sem libero stóð vel fyrir sínu.

Annars átti Miguel Mateo Castrillo sviðið en Mateo átti stórbrotinn leik og skoraði hvorki meira né minna en 40 stig í leiknum. Það var eins og hann gæti vart stigið feilspor og leitaði KA liðið því eðlilega iðulega til hans í leiknum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá kvennaleiknum

Á sunnudeginum var svo komið að kvennaliðum félaganna að eigast við. KA tapaði í vikunni gegn Aftureldingu en fyrir þann leik hafði KA liðið unnið 20 leiki í röð og á þeim tíma hampað öllum titlum sem í boði eru, Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar, Deildarmeistarar og Meistarar Meistaranna.

Það varð strax ljóst að stelpurnar okkar voru mættar til að koma sér strax aftur á sigurbrautina og náðu stelpurnar snemma 7-1 forskoti. En Þróttarar fundu taktinn er leið á og komu sér heldur betur inn í leikinn með öflugum varnarleik. Skyndilega var staðan orðin 15-16 fyrir gestina en stelpurnar okkar svöruðu af krafti og komust í 23-18 og kláruðu loks hrinuna 25-19 og því komnar í 1-0 stöðu.

Aftur byrjaði KA liðið af krafti og komust stelpurnar í 10-5 og 13-6 í upphafi annarrar hrinu. Það var aldrei spurning hvort liðið tæki hrinuna og KA vann að lokum 25-14 sigur og komnar í kjörstöðu 2-0.

Lið Þróttar gafst ekki upp og úr varð afar jöfn og spennandi þriðja hrina þar sem liðin skiptust á að leiða. En í stöðunni 13-14 kom góður kafli gestanna sem komust í 14-20 og aftur í 17-23. KA liðið svaraði hinsvegar með mögnuðum 7-0 kafla og komust því í 24-23 og fengu tækifæri á að klára hrinuna sem gekk hinsvegar ekki og eftir nokkrar upphækkanir unnu gestirnir 26-28.

Gestirnir að austan voru greinilega ekki á þeim buxunum að leyfa okkar liði að taka öll stigin og komust þær í 4-10 stöðu í upphafi fjórðu hrinu. Erfiðlega gekk að brúa bilið en það tókst loks í stöðunni 18-18 og varð endaspretturinn æsispennandi. Að lokum tókst stelpunum okkar að tryggja sigur með minnsta mun, 25-23 og vinna þar með leikinn samtals 3-1 og tryggja öll þrjú stigin.

Gríðarlega mikilvæg stig í hús í toppbaráttunni en afar jákvætt var að sjá hve vel Mateo þjálfari okkar liðs dreifði álaginu. Allir leikmenn KA fengu að spreita sig og sýndu stelpurnar vel að það er komin afar flott breidd í okkar lið. Systurnar Heiða Elísabet og Helena Kristín Gunnarsdætur fóru hamförum í sóknarleiknum en Heiða gerði 20 stig og Helena 15 stig í leiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband