Viðbragðsáætlun gegn einelti og öðru ofbeldi

Stefnuyfirlýsing KA

KA telur mjög mikilvægt að öllum líði vel í íþróttaiðkun sinni. Samskipti eiga að einkennast af gagnkvæmri virðingu og kurteisi. KA leggur áherslu á að samskiptin séu jákvæð og uppbyggileg. Það er mikilvægt að allir, iðkendur, þjálfarar, starfsfólk KA og foreldrar, standi saman og vinni gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Til þess að bregðast við tilkynningum um grun um einelti hefur KA útbúið viðbragðsáætlun sem var formlega tekin í gagnið vorið 2019.

Fái félagið vísbendingar eða tilkynningar um ofbeldisverk eða aðra óæskilega hegðun af hvaða tagi sem það kallast þá er því vísað til viðurkendra fagaðila sem munu vinna málið áfram.  Telji iðkendur sig verða fyrir slíku ofbeldi eða ósæskilegri hegðun má benda á að hægt er að tilkynna um allt ofbeldi til Æskulíðsvettvangsins auk þess sem Samskiptaráðgjafi á vegum Íþrótta- og Ólympíusamands Íslands er til staðar fyrir alla sem vilja tilkynna slík mál. Sjá nánar í handbók KA undir fræðslur og forvarnir.

Viðbragðsáætlun KA á eineltismálum á pdf formi með tilkynningarblaði

Yfirlitsmynd yfir verkferil KA á meintu einelti á pdf formi

Hvað er einelti?

Þegar einstaklingur verður endurtekið fyrir neikvæðu eða illgirnislegu atferli á afmörkuðu tímabili frá einum eða fleiri aðilum. Birtingarmyndir eineltis geta verið líkamlegar, andlegar eða félagsleg einangrun (Olweus, 2005).

Viðbragðsáætlun KA gegn einelti

Komi upp grunur um einelti – útskýringar á verkferli

Þjálfari/starfsmaður KA tekur við tilkynningum um grun um einelti frá iðkanda/foreldri.

  1. Þjálfari/starfsmaður íþróttahúss skráir tilkynninguna og skilar henni til fagráðs sem fer yfir tilkynninguna. Sjá tilkynningarblað¹
  2. Rannsóknarvinna.
    1. Fagráð tryggir að rannsóknarvinna fari af stað.  
    2. Þjálfari ræðir við meintan þolanda og spyr hvernig samskiptin eru í hópnum.
    3. Þjálfari ræðir við meintan geranda og spyr hvernig samskiptin eru í hópnum. Hér er ekki tekið svokallað gerendaviðtal, heldur er verið að gefa meintum geranda tækifæri til að tjá sig ef samskiptin ganga ekki sem skyldi og athuga hvort hann/hún átti sig á því að hann/hún geti bætt hegðun sína (þurfi viðkomandi að gera það).
    4. Þjálfari ræðir við 2-3 iðkendur úr hópnum og spyr hvort þeir hafi orðið varir við andfélagslega hegðun í hópnum*.
    5. Þjálfari og aðrir starfsmenn KA verða meira vakandi yfir samskiptum meints þolanda og meints geranda. Stöðva andfélagslega hegðun meints geranda og skrá niður hjá sér hver-jir /hvenær/ hvar/hvað**.
    6. Fagráð leitar upplýsinga hjá öðru starfsfólki um hvort það hafi orðið vart við andfélagslega hegðun meints geranda í garð meints þolanda.
  3. Þjálfari vinnur sérstaklega á næstu æfingum í hópefli.

Ef foreldri/forráðamaður tilkynnti grun um einelti og rannsóknarvinnan staðfestir ekki er um einelti að ræða, þarf að láta foreldra/forráðamenn vita hvað kom út úr rannsóknarvinnunni.

* Hér ræðir þjálfari við 2-3 iðkendur sem kannast vel við meintan þolanda. Ekki rætt við alla saman, heldur í sitthvoru lagi og ekki fyrir framan aðra iðkendur. Meintur þolandi er ekki nafngreindur í þessum samtölum.

Það er mjög mikilvægt að minna iðkendur á að það er trúnaður, þannig að nöfnin þeirra koma ekki við sögu ef þeir segja frá einhverju.

Dæmi um spurningar sem þjálfari spyr:

-          Hefur þú orðið var við að einhver í hópnum sé skilin útundan/er mikið skammaður af öðrum í hópnum /komið illa fram við/ o.s.frv.? Biðja um nöfn.

-          Hefur þú orðið var við að einhverjum líði illa í hópnum. Biðja um nöfn o Ef já, af hverju heldurðu að viðkomandi líði illa.

-          Myndir þú þora að segja mér frá ef þú vissir að einhver í hópnum væri með framkomu við aðra í hópnum sem væri athugaverð?

**Hér er mikilvægt að grípa alltaf inn í og stöðva andfélagslega hegðun. Því næst er hægt að skrá hjá sér stund og stað, aðila og staðreyndir (ekki huglægt mat). Þessum upplýsingum er komið til þjálfara og fagráðs. Sjá skráningarblað²

Ef rannsóknarvinnan staðfestir grun um einelti þá fer eftirfarandi ferli í gang:

  1. Fagráð/yfirþjálfari hefur samband við foreldra/forráðamenn þolanda og geranda.
  2. Fagráð/yfirþjálfari og þjálfari taka einstaklingsviðtal við þolanda þar sem hann/hún fær stuðning og fylgst er með þróun mála.
  3. Fagráð/yfirþjálfari og þjálfari taka gerandaviðtal við geranda/gerendur (sjá viðauka með leiðbeiningum um gerandaviðtal). Þar er gerð skilyrðislaus krafa um að hætta eineltinu annars verða neikvæðar afleiðingar.
  4. Eftirfylgni með samskiptum þar sem þjálfari tekur stöðuviðtöl við geranda/gerendur og þolanda. 
  5. Fagráð/yfirþjálfari látin vita um stöðu mála.
  6. Foreldrar látnir vita af þróun mála. 

Ef eineltið hættir ekki þá fer gerandi/gerendur í æfingabann (sjá nánar í viðauka um leiðbeiningum um gerandaviðtal³).

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband