87 ára afmælið, haldið 11. janúar 2015

Sunnudaginn 11. janúar 2015 var boðið til 87 ára afmælisfagnaðar KA. Hér á eftir fara ræður sem fluttar voru af því tilefni, kjör íþróttamanns félagsins, myndir o.fl.

Ræða Hrefnu G. Torfadóttur formanns KA

Bæjarstjóri, formaður Íþróttaráðs og aðrir góðir gestir. Komið þið sæl og gleðilegt ár. Verið öll velkomin hjartanlega velkomin á 87 ára afmælishátíð KA.
Formaður ÍBA, Geir Kristinn Aðalsteinsson, bað fyrir kveðjur í afmælið en hann er staddur í Reykjavík og komst því ekki til okkar. Einnig var ég beðin um að færa afmæliskveðjur frá ÍSÍ.

Í upphafi vil ég minnast góðra félaga sem létust á árinu. Þeir eru Þorvaldur Jónsson, sem lést þann 28. júní, Óðinn Árnason, sem lést þann 5. nóvember og Árni Jóhannsson, fyrrverandi formaður KA, sem lést þann 26. nóvember.
Við minnumst þeirra með virðingu, hlýhug og þakklæti.
Ég vil biðja ykkur að rísa úr sætum í virðingarskyni við minningu þeirra.
Takk fyrir.

Hrefna flytur ræðu formanns

Það er góður siður að halda afmælisveislu og afmælisveislur hjá okkur í KA, hvort sem það er stórt afmæli eða smátt, eru skemmtilegar. Það er ánægjulegt að  sjá hversu margir á öllum aldri, ungir sem eldri, koma saman til að halda upp á afmæli KA. Þegar við hér í KA höldum svona venjulegt afmæli svigna venjulega borð undan veitingum og það er engin undantekning núna.
Sjálfboðaliðarnir hjá KA eru hreint ótrúlegir. Það er alveg saman hvað þarf að gera stór hópur fólks boðinn og búinn til verka og fáum við að njóta þess hér í dag. Ég vil þakka þeim alveg sérstaklega fyrir og hlakka til að smakka það sem í boði er því eins og áður þá eigum við von á glæsilegu hlaðborði.

Aðalstjórn samþykkti á fundi sínum snemma á síðasta ári að ráðist yrði í endurbætur á félagsheimili okkar enda löngu kominn tími til og ansi margt farið að drabbast niður. Sett var á laggirnar 6 manna félagsheimilisefnd og áttum við þó nokkra fundi. Ekki var hægt að ráðast í jafn miklar breytingar og í vændum voru án þess að hafa fagmenn með okkur og þar mættu til leiks Logi Einarsson arkitekt og Ingólfur Guðmundsson af arkitektastofunni Kollgátu. Vil ég þakka þeim fyrir frábært samstarf og þeirra mikla innlegg í þessar breytingar.

Við ákváðum að fara ekki of geyst í hlutina því þetta er dýrt dæmi. Búið er að kaupa helming þeirra stóla sem keyptir verða, en það eru einmitt stólarnir sem þið sitjið á í dag. Hluti af borðplötunum hefur einnig verið keyptur, eða á þær fellifætur sem voru undir gömlu borðunum, og svo eigum við eftir að kaupa fleiri borðplötur á fellifætur sem keyptar verða. Borðin sem eru hér undir bikurunum eru einmitt nýju borðin okkar.

Framkvæmdir eru einnig hafnar í félagsheimilinu, en þar verða gerðar þó nokkrar breytingar. Nýtt gólfefni verður sett á allt heimilið og hefjast framkvæmdir við að setja á gólfið í fundarsalnum innan fárra daga.

Það sem mun breytast mjög mikið er að allt skrifstofuhald og stjórnun mun færast yfir í félagsheimilið. Þar verður skrifstofa framkvæmdastjóra og starfsmanns, þar sem minni fundarsalurinn er nú og einnig verður sett upp skrifstofuaðstaða eða vinnuaðstaða með tölvu og prentara sem deildir deila með sér. Minni fundarsalurinn verður eftir breytingar í suðurhluta félagsheimilis. Þegar sá salur er ekki í notkun vegna funda verður hægt að horfa út um gluggana á það sem fram fer á gervigrasinu sem og út um glugga sjónvarpshornsins sem vissulega verður áfram til staðar. Ekki er annað hægt en að hafa áfram notalegt sjónvarpshorn.
Eldhúsið verður tekið í gegn og afgreiðslan minnkuð. Sjoppan mun hverfa og munum við þess í stað fá sjálfsala. Það eina sem kannski má segja að standi minnst breytt er stærri fundarsalurinn en þar verður sett nýtt gólfefni eins og áður segir og salurinn málaður. Þegar komin verða ný borð og nýju stólarnir þar inn má segja að hann verði afskaplega fínn og aðlaðandi.

Markmiðið er að félagsheimilið verði hjartað í félaginu þar sem félagsmenn vilja kíkja við, fá sér kaffisopa, horfa á æfingar hvort sem er úti á gervigrasinu eða að fara yfir í íþróttasalinn og horfa á æfingar þar eða bara spjalla við mann og annan. Við viljum fá fólk í húsið, við viljum að iðkendum og forráðamönnum þeirra, og félagsmönnum finnist þeir velkomnir í KA heimilið. Það hefur m.a. verið markmið aðalstjórnar og framkvæmdastjóra að auka starfsemi í húsinu og starfsemi félagsins og virðist það smátt og smátt vera að takast.

Í haust var sett á stofn sögunefnd hjá KA. Ég fékk Siguróla M. Sigurðsson, sagnfræðing, til að stýra þeirri nefnd og hafa verið haldnir tveir fundir.

KA hefur nú þegar gefið út tvær bækur um sögu félagsins og er það ekki markmið með þessari nefnd að vinna sérstaklega að útgáfu einnar bókar til viðbótar, það er hugsanlega markmið fyrir 100 ára afmæli félagsins og hlutverk þeirra sem þá verða í forsvari. Hlutverk nefndarinnar er miklu heldur að safna heimildum, bæði munnlegum og skriflegum, um félagið og koma þeim inn á heimasíðuna. Sett verður up svokölluð tímalína sem kemur neðst á heimasíðuna og þegar upplýsingar safnast inn verður hægt að smella á eitthvert ártalanna og sjá þá markverðustu atburði þess árs. Umsjón með tímalínunni mun vera í höndum Ragnars Sigtryggssonar. Einnig munum við safna ýmsum munum úr sögu félagsins eða fá þá lánaða til lengri eða skemmri tíma til sýningar í KA heimili.

Ekki síður höfum við áhuga á gömlum myndum og viljum þá gjarnan fá eldri félagsmenn í lið með okkur til að hægt sé að skrá hverjir eru á þeim myndum. Vitneskjan um þá sem komið hafa að sögu félagsins má ekki týnast.
Við viljum því biðja þá sem hafa áhuga á að láta félaginu í té, eða lána, muni og myndir að hafa samband við Siguróla sem verður starfmaður félagsins frá 1. febrúar næstkomandi.

Við vorum einmitt hér á föstudaginn, sögunefndin, að gramsa í gömlum kössum og nutum þess virkilega að skoða þessa gömlu muni og myndir. Þetta er saga félagsins okkar og við eigum að hlúa að henni og gæta þess að hún falli ekki í gleymsku.
Hér frammi á svölum getið þið séð, eftir þessa athöfn, sýnishorn af því sem við eigum. Við vonumst til að með tímanum getum við, með hjálp góðra félaga, komið meiri reglu á þá ómetanlegu muni og myndir úr sögu félagsins sem í dag eru geymdir í kössum.

Hluti af sögusýningunni

Á KA daginn, þann 4. október, var myndaður vísir að Almenningsíþróttadeild með því að nokkrir hraustir félagar fóru í gönguferð undir styrkri leiðsögn Stefáns B. Birgissonar. Gert var hlé á gönguferðum um jól og áramót en þær munum hefjast aftur innan skamms og verða auglýstar á KA síðunni. Markmiðið með almenningsíþróttadeild er að hvetja félagsmenn og aðra til hreyfingar. Hvatamaður að þessu er Jóhannes Gunnar Bjarnason, íþróttakennari, sem stakk þessu að formanni og var hugmyndinni tekið vel þegar ég kynnti hana í aðalstjórn. Markmiðið er að taka fleira inn í þessa væntanlegu deild eins og t.d. skokk og hjólreiðar. Ég kalla þetta vísi að deild því til að til þess að deild verði að veruleika þarf samþykki aðalfundar.

Við eigum stóran hóp af bráðefnilegu og duglegu íþróttafólki sem bera vitni um gott og öflugt starf hjá KA. Það er mér mikil ánægja að telja þá upp sem voru í landsliðshópum í hinum ýmsu greinum á síðasta ári. Ég vil biðja þau að koma hingað upp þegar ég les nöfn þeirra og bið svo Þóri Tryggvason, ljósmyndara, að taka mynd af þessum glæsilega hópi.
Þeir iðkendur KA sem valdir voru landslið 2014 voru:

Frá Blakdeild
Í U17 landsliði
   Arnrún Eik Guðmundsdóttir
   Hildur Davíðsdóttir
   Unnur Árnadóttir
   Valþór Ingi Karlsson
   Vigfús Jónbergsson

Í U19 landsliði
   Ásta Lilja Harðardóttir
   Benedikt Rúnar Valtýsson
   Gunnar Pálmi Hannesson
   Harpa María Benediktsdóttir
   Sævar Karl Randversson
   Valþór Ingi Karlsson
   Ævarr Freyr Birgisson, bæði í U19 og A-landsliði

Frá Handknattleiksdeild
Í U17 landsliði
   Ásdís Guðmundsdóttir
   Sunna Guðrún Pétursdóttir
   Þórunn Sigurbjörnsdóttir

Í U18 landsliði
   Birta Fönn Sveinsdóttir
   Benedikt Línberg

Frá Knattspyrnudeild
Í U17 landsliði
   Saga Líf Sigurðardóttir
   Anna Rakel Pétursdóttir
   Harpa Jóhannsdóttir
   Sara Mjöll Jóhannsdóttir
   Ólafur Hrafn Kjartansson

Í U19 landsliði
   Bjarki Þór Viðarsson, bæði í U17 og U19
   Gauti Gautason
   Fannar Hafsteinsson
   Ævar Ingi Jóhannesson

Landsliðsfólk KA

Ég verð líka að geta þess að 2. flokkur karla í blaki varð Íslandsmeistari á síðasta ári. Við skulum líka gefa þeim gott klapp.
Svo vil ég biðja kynni dagsins, eða bara veislustjóra, Siguróla Magna Sigurðsson, yngri að taka við.

Ávarp veislustjóra, Siguróla Magna Sigurðssonar

Kæru KA-menn og konur. Ég undirstrika það sem Hrefna sagði hér áðan og býð ykkur hjartanlega velkominn á þennan 87 ára afmælisfögnuð K.A. Það er mér mikill heiður, líkt og í fyrra, að fá að vera kynnir dagsins. Hér framundan er gríðarlega skemmtileg dagskrá sem við fáum að njóta áður en við gæðum okkur á hinu víðfræga kökuhlaðborði KA.

Siguróli Magni Sigurðsson

Í fyrra hélt ég smá tölu en eins og þeir vita sem til mín þekkja, hef ég gaman af því að láta skástrik neyða fólk til að hlusta á mig. Ég ætla ekki að tala eins mikið núna, enda er ég frekar svangur. Mig langar þó að vekja ykkur, kæru KA menn, til umhugsunar um okkar frábæra klúbb. Nú hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka mikinn þátt í starfi félagsins okkar upp á síðkastið. Það var einn góður drengur sem benti mér á um daginn að KA væri sofandi risi. Þessi setning hefur verið föst í hausunum á mér síðan þá. Ég ætla mér að betrumbæta þessa setningu og segja að KA sé rumskandi risi. Í félaginu okkar býr alveg gríðarlega mikill kraftur. Það skiptir engu máli hvaða deild það er, eða hvert verkefnið er, það er alltaf hægt að gera hlutina vel. Innan vébanda okkar búum við yfir gríðarlegum mannauði. Það skiptir ekki hversu mörg handverk félagsmaður vinnur fyrir KA, hvort sem það er að mæta á leik, kaupa harðfisk af iðkendum, mála allt húsið eða hvað það nú eina, þau skipta öll máli. Það er fólkið sem skapar félagið, og það erum við sem gerum félagið af því sem það er í dag. Hver einn og einasti iðkandi skiptir máli, hver sjálfboðaliði og hver starfsmaður.

KA er, eins og áður sagði, rumskandi risi. Við viljum vekja þennan risa og lyfta félaginu okkar enn hærra. Með samstilltu átaki getum við það. Tökum okkur saman og vekjum risann á næstu árum. Stækkum félagið, því að hér er eitthvað fyrir alla, konur og kalla.

Annálar deilda fyrir árið 2014

Sigríður Jóhannsdóttir
Sigríður Jóhannsdóttir las upp annála deildanna.

Annáll Blakdeildar KA 2014
KA átti líkt og síðast liðin ár bæði karla- og kvennalið í Úrvalsdeild BLÍ. Þessi lið eru að stærstum hluta til skipuð ungum leikmönnum sem jafnframt spila í 2.- 3. flokki. Karlaliðið komst í úrslitakeppni Bikarkeppni BLÍ en tapaði undanúrslitaleiknum á móti HK. Í deildarkeppninni lentu þeir í 4. sæti og 3.-4. sæti í lokakeppninni um Íslandsmeistaratitil. Stúlkunum gekk ekki eins vel og náðu þær hvorki inn í úrslitakeppni um Bikarinn né til Íslandsmeistaratitils.
Á Íslandsmótum yngriflokka varð 2. flokkur karla Íslandsmeistari, blandað 5. flokks lið náði 2. sæti og 2. og 3. flokkur kvenna 3. sæti.
Stærsta verkefni blakdeildarinnar á s.l. ári var Íslandsmót Öldunga sem hlaut nafnið KAleikur 2014 og var haldið í íþróttahúsum bæjarins og á Dalvík dagana 1.-3.maí. Þarna mættu til leiks um 1200 keppendur í 154 liðum sem spiluðu 462 leiki í 22 deildum. Eins og gefur að skilja kostaði þetta mikla undirbúningsvinnu sem hófst strax og ljóst var að við fengjum mótið og í rauninni fyrr þar sem að við þurftum að vera búin að tryggja okkur íþróttahús og tilnefna Öldung mótsins áður en sótt var um mótið. Mótið tókst í alla staði mjög vel og viljum við þakka öllum þeim sem unnu að mótinu á einn eða annan hátt kærlega fyrir þeirra óeigingjörnu vinnu og þá sérstaklega blakfólki í öldungahópum KA og að öðrum ólöstuðum ber þar að nefna Eygló Birgisdóttur sem var öldungur mótsins og Hannes Garðarsson.
Það sem hæst ber á s.l. hausti er árangur meistaraflokks karla í fyrri hluta Bikarkeppni BLÍ sem haldin var á Neskaupstað í nóvember en þaðan komu þeir með fullt hús stiga þ.e. töpuðu ekki einni einustu hrinu.

Víkjum þá að einstaklingum innan deildarinnar en KA átti marga landsliðsmenn á árinu. Í forvalshóp fyrir A landslið karla s.l. vor voru Valþór Ingi og Ævarr Freyr, þeir komust ekki í lokahópinn þá en voru kallaðir inn aftur í haust og núna í desember var Ævarr Freyr valinn í lokahóp sem hélt til Luxemborgar á nýársdag. Valþór Ingi varð hins vegar fyrir því óláni að meiðast í síðasta deildarleik og komst því ekki á síðustu æfingar úrtökuhópsins.
Í forvalshópum fyrir U17 og U19 landslið kvenna átti KA 9 stúlkur en 3 gáfu ekki kost á sér. Drengirnir voru 6 í forvalshópum fyrir U17 og U19 landsliðin. Þessi lið tóku þátt í NEVZA mótunum í Danmörku og Englandi í október. Ásta Lilja, Harpa María, Benedikt, Gunnar Pálmi, Sævar, Valþór og Ævarr fóru með U19 landsliðunum til Danmerkur. Arnrún Eik, Hildur, Unnur, Valþór og Vigfús fóru með U17 landsliðunum til Englands.

Annáll Handknattleiksdeildar KA 2014
Starf handknattleiksdeildar KA var líflegt á árinu 2014. Það er þó stórundarlegt að ætla að gera upp handknattleik á áramótum, þar sem að eitt almanaksár spannar tvö hálf keppnistímabil í handbolta.
Handknattleiksdeild KA skiptist upp í kvennaráð sem rekur meistaraflokk KA/Þór sem tekur þátt í Olís-deild kvenna og síðan yngri flokkaráð sem sér um rekstur allra yngri flokka félagsins í handbolta.
Tímabilið 2013-2014 náði meistaraflokksliðið ágætis árangri undir stjórn Einvarðar Jóhannssonar, en liðið var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni Olísdeildarinnar. Í sumar urðu þjálfaraskipti hjá liðinu og tók hinn ungi og efnilegi Gunnar Ernir Birgisson við liðinu. Til að styrkja hópinn enn frekar frá fyrra ári voru fengnar tvær rúmenskar stúlkur sem hafa passað vel inn í liðið og samfélagið okkar hér á Akureyri. Liðið hefur þó ekki verið alveg nógu duglegt að sækja sér stig í vetur, en aðeins tvö stig eru komin í hús fyrir áramót. Vert er þó að nefna að helmingurinn af mótinu er eftir og fullt af heimaleikjum hér í KA-heimilinu. Liðið er skipað skemmtilegri blöndu af yngri og eldri leikmönnum.

KA/Þór hefur verið að gefa mörgum ungum stúlkum tækifæri á að spreyta sig meðal þeirra bestu og hefur það skilað nokkrum landsliðsmönnum í yngri kvennalandsliðin. Þær yngri græða mikið handboltalega séð af því að spila og æfa með þeim eldri og reyndari, sem eru algjörir burðarásar í liðinu. Stefna liðsins fyrir síðari hluta vetrar er að reyna að vinna sig upp í 8. sæti deildarinnar, sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Þá var það mikið gleðiefni að í stjórn kvennaráðsins fjölgaði um heila tvo á þessu tímabili, og vinna margar hendur nú léttari verk en áður.

Yngriflokkaráð KA skipa 8 einstaklingar sem halda utan um það líflega starf sem er iðkað á fjölum KA-heimilisins. Um 270 iðkendur eru hjá handknattleiksdeildinni þennan veturinn, allt frá 8. flokki upp í 3. flokk. Til þess að þjálfa þessar upprennandi handboltastjörnur eru 16 þjálfarar, ásamt nokkrum aðstoðarmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun. Þá eru dómarar einnig ómissandi í starfinu, en 30 dómarar dæmdu alla þá leiki sem fóru fram í KA-heimilinu árið 2014. KA heldur tvö fjölliðamót á hverju keppnistímabili, í samstarfi við Þór og fór eitt slíkt fram í október og gekk það vel.
Eins og venjan er fara 4. flokkur karla og kvenna til Svíþjóðar annað hvert ár að keppa á Partille-cup og var ein slík ferð farin í sumar sem gekk vel, þar sem krakkarnir stóðu sig með sóma bæði innan sem utan vallar.
Árangurinn vorið 2014 var góður hjá krökkunum og greinilega farin að skila sér sú stefna sem tekin var fyrir nokkrum árum að hafa alltaf reynda og góða þjálfara í öllum flokkum og ekki síst hjá yngstu flokkunum. Öll lið bættu sig verulega. Strákarnir í 5. Flokki eldra ári urðu í 2. Sæti til íslandsmeistara, stelpurnar í 4. flokki yngra ár urðu deildarmeistarar í 1. deild og spiluðu úrslitaleikinn í bikarnum og urðu í 2. sæti, stelpurnar í 4. flokki eldra ári urðu í 2. Sæti í 1. deildinni og spiluðu líka úrslitaleikinn í bikarnum og urðu í 2. Sæti, einnig spiluðu bæði lið í undan úrslitum til íslandsmeistara í úrslitakeppninni. Þá urðu stelpurnar í 3. flokki íslandsmeistarar í B-Úrslitum.
Þá voru 26 krakkar valdir í landsliðsúrtök á árinu, 14 stelpur og 12 strákar og náðu fimm af þeim að spila með sínu landsliði.

Annáll Knattspyrnudeildar KA 2014
Starfsemi knattspyrnudeildar var sem fyrr mikið og öflugt. Nýi gervigrasvöllurinn við KA heimilið hefur gerbreytt allri æfingaaðstöðu félagsins og á sinn þátt í þeirri gríðarlegu aukningu iðkenda knattspyrnu hjá félaginu. Það skemmdi heldur ekki fyrir að náttúrulega grasið var tilbúið til æfinga og keppni í maí og er það mál manna sem best til þekkja að það sé einsdæmi í sögu knattspyrnudeildar.

Segja má að skipts hafi á skin og skúrir þegar árangur annars flokks og meistaraflokks er metinn. Niðurstaðan eftir sumarið í fyrstu deild karla varð áttunda sætið sem er vissulega vonbrigði. Á tímabili í sumar var liðið nálægt því að gera sig gildandi í toppbaráttu en stöngin út í lykileik gerði kannski útslagið að það náðist ekki. Annar flokkur karla var einungis hársbreidd frá því að vinna sér sæti í efstu deild eftir skemmtilegt mót. Sameiginlegt lið okkar og Þórsara í meistaraflokks kvenna gerði vel og endaði í 3 sæti Pepsídeildar.
Það má segja að árið 2014 hafi verið met ár hjá yngriflokkum KA hvað fjölda iðkenda varðar og má segja að sú aukning sé einmitt það sem stendur upp úr úr starfi deildarinnar allrar. Sérstaklega var fjölgun mikil í yngstu árgöngunum og má segja að plássleysi til æfinga sé orðið lúxusvandamál okkar á stundum. Síðasta vetur voru um 350 krakkar að æfa fótbolta og yfir sumartímann fór fjöldinn upp í rúmlega 500 iðkendur samanborið við tæplega 400 árið áður. Veturinn hefur svo verið að byrja mjög vel og hafa allt að 400 iðkendur verið að mæta á æfingar í byrjun vetrar.
Árangur yngri flokka á liðnu ári var mjög ásættanlegur og varð t.d. 3. flokkur kvenna B lið Íslandsmeistari auk þess sem 3. Flokkur karla og kvenna urðu bikarmeistarar KSÍ á Norður- og Austurlandi.
Þess ber að geta að KA átti hvorki fleiri né færri en níu landsliðsmenn í knattspyrnu á nýliðnu ári og aftur segja elstu menn okkar þetta einsdæmi. Þessi ánægjulega þróun ber starfinu hjá okkur mjög gott vitni enda höfum við á að skipa vel menntaða þjálfara sem vinna við frábæra aðstöðu.
Yngriflokkaráð hélt Arsenalskólann eins og undanfarin ár með góðum árangri og mættu í skólann um 200 iðkendur víðsvegar af landinu.

N1 mótið var haldið og fór vel fram, sennilega frábærlega, miðað við það gjörningaveður sem yfir okkur dembdist þessa keppnisdaga. Þegar verst lét fékk framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar símtal frá Almannavörun sem vildu vita hvernig rýmingaráætlun værir fyrir keppnissvæðið kæmi til þess að eldingum lýsti niður! Mótið sýnir okkur ár hvert hve félagslega sterkt KA er, enda vinna við mótið gríðarlegur fjöldi KA félaga sem á óeigingjarnan hátt vill vinna fyrir félagið sitt. Sjálfboðaliðum þökkum við allt þeirra góða starf um leið og við áréttum að án þeirra getum við ekki haldið starfi deildarinnar úti. Það sama má segja um sterka bakhjarla sem styðja við bak deildar með peningalegum styrkjum eða á annan hátt. Við þökkum þeim öllum fyrir stuðninginn.

Framtíð knattspyrnudeildar KA er björt ef við höldum vel á spilunum og stöndum saman. Við væntum mikils af fólkinu okkar á þessu ári.

Annáll Tennis- og badmintondeildar KA 2014
Tennis- og badmintondeild KA hélt uppi hefðbundinni starfssemi í badmintoni á árinu 2014. 
Á vor-misseri vorum við með um 25 iðkendur á aldrinum 8-17 ára sem æfa í Höllinni á þriðjudögum og fimmtudögum. Síðan eru æfingar á sunnudagsmorgnum í KA húsinu fyrir krakka á aldrinum 5-8 ára ásamt því að eldri iðkendur hafa nýtt tímann sem aukaæfingu.

Í haust fækkaði mjög iðkendum og hefur haustið verið nýtt í að kynna og auglýsa íþróttina betur.
Sú kynning skilað sér vel í desember og fjölgaði nokkuð í báðum hópum.
Af mótamálum er það að frétta að badmintonfélögin sem starfa í Eyjafirði halda svokallað Norðurlandsmót í apríl, í fyrra var mótið hjá Samherjum í Eyjafjarðasveit. KA heldur mótið 2015.
Akureyrarmót var haldið í Höllinni í maí.
Í byrjun október var svo í annað sinn haldið unglingamót í KA húsinu þar sem voru mætt til leiks rúmlega 120 ungmenni frá 7 félögum þar sem spilaðir voru rúmlega 200 leikir.
Mótið tókst mjög vel og var fyrri dagurinn í Höllinni en seinni dagurinn í KA-húsinu þar sem leikið var til úrslita.

Þjálfarar hjá TB-KA eru tveir, þau Högni Harðarson (eldri hópar) og Sonja Magnúsdóttir (yngri hópur)
Af tennis innan KA er það að frétta að haldið var námskeið í ágúst sem var mjög vel sótt eða um 25 manns. Kennari var margfaldur íslandsmeistari í tennis Raj Bonifacius.
Einnig var ráðist í að merkja völl á gólfið í KA heimilinu og fjárfesta í tennisneti, spöðum og boltum.
Í vetur hafa verið opnir tímar í tennis á sunnudagsmorgnum frá 9-10:30 og verður svo áfram fram á vor.

Ræða Ingibjargar Isaksen, ræðumanns dagsins

Komið þið sæl og gleðilegt nýtt ár. Hjartanlega til hamingju með daginn.
Ég vil byrja á því að þakka þann heiður sem mér er sýndur að fá að tala hér í dag.
Ég var akandi á leiðinni norður eftir áramótin ásamt fjölskyldunni þegar Siguróli nokkur Sigurðsson hringdi í mig til að biðja mig um að halda smá ávarp í tilefni afmælis Knattspyrnufélags Akureyrar. Upphófust þá miklar umræður í bílnum um það hvað KA væri nú orðið gamalt félag. Unglingurinn virtist vera með þetta nokkurn veginn á hreinu enda KA maður en einnig vegna þess að hann á handklæði frá KA þar sem kemur fram að félagið hafi verið stofnað árið 1928. Hann var því ekki lengi að reikna út aldurinn. En það má með sanni segja að afmælisbarnið eldist ansi vel.

Ingibjörg Isaksen

Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að stunda íþróttir frá unga aldri, sérhæfði mig að mínu mati aðeins of snemma þar sem ég hefði viljað hafa meiri möguleika á því að kynnast öðrum íþróttum. Eftir að ferli mínum í lauginni lauk hóf ég minn þjálfunarferil sem og kennsluferil í íþróttum. Ég hef því náð að vera iðkandi, þjálfari og íþróttakennari en sinni nú móðurhlutverkinu og stend á bakkanum hrópandi hvatningarorð.

Íþróttahreyfingin hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því ég var sjálf lítil stelpa í sundlauginni. Í dag er meiri fjölbreytni í framboði á hverskonar íþrótta og tómstundastarfi en fyrir nokkrum árum og áratugum. Því verða þátttakendur og fjölskyldur þeirra að skipuleggja tíma sinn mun betur en áður ef þau ætla sér að koma víðar við.

Oft vill það nú verða þannig að foreldrar vilja láta drauma sína um árangur í íþróttum rætast í börnum sínum. Ég var ein af þeim sem féll í þá gryfju en þegar elsta barnið mitt var 5 ára sendi ég hann á sundæfingar. Eftir þriðju æfinguna að mig minnir vildi ungi maðurinn setjast niður og ræða aðeins við móður sína. Ég spurði hann áhugasöm hvort það væri ekki gaman að æfa sund. Hann horfði á mig alvarlegur á svip og sagði að þó svo mér hafi fundist gaman að æfa sund finnist honum það ekki!
Þar með lauk hans stutta sundferli en við tók fjöldi annarra íþrótta sem hann stundaði enda njótum við þeirra forréttinda hér á Akureyri að hér er fjöldinn allur af vel reknum íþróttafélögum byggðum upp af óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi og góðu og áhugasömu fólki.

Aðstaða til íþróttaiðkunar hefur tekið miklum framförum hér á Akureyri sem víða annarsstaðar en kröfur hafa aukist töluvert til aðstöðu og íþróttastarfs.

Við þurfum ekki að líta langt yfir skammt eftir slíkri uppbyggingu því nóg er að líta hér út um gluggann og sjá stórglæsilegan gervigrasvöll sem hefur breytt miklu í starfi KA.

Mín fyrstu kynni af Knattspyrnufélagi Akureyrar voru þegar ég hjólaði með son minn á fótboltaæfingar eitt sumarið fyrir nokkrum árum síðan. Því fyrst hann vildi ekki æfa sund, vildum við finna einhverja aðra íþrótt - að hans eigin vali! Þó svo hann hafi valið þessa íþrótt sjálfur tók það nokkrar vikur að fá hann til að taka þátt í allri æfingunni. Hann var nefnilega búinn að átta sig á því að spilið var langskemmtilegast, þessar tækniæfingar voru bara að þvælast fyrir. Því vildi það stundum þannig til að þegar ég hafði hjólað með honum á æfingu, skilið hann eftir og var á leið heim að ég sá unga piltinn koma hjólandi í humátt á eftir mér en þá hafði hann séð að æfingarnar byrjuðu á tækniæfingum, sem þær oftast gerðu amk. upphitunaræfingum. En eftir nokkra hjólatúra og spjall við frábæran þjálfara fór drengurinn að sinna sínum æfingum að fullu.

Starfsemi KA er einn af hornsteinum hverfisins og spilar þannig stórt hlutverk í daglegu starfi margra Akureyringa, jafnt ungra sem aldna.
Barna og unglingastarfið blómstrar sem aldrei fyrr og boðið er uppá fjölda íþróttagreina. Vísir að almenningsdeild bættist í flóruna á haustdögum og bind ég vonir mínar við að sú deild verði formlega stofnuð á aðalfundi félagsins í vor enda frábær viðbót við núverandi starf.

Íþróttahreyfingin býr við sívaxandi kröfur frá foreldrum um vandað og ábyrgt starf, góða skipulagningu og hæfa leiðbeinendur. Sérhvert íþróttafélag þarf að bregðast við með því að skoða eigið starf ofan í kjölinn, gera kröfur til leiðtoga sinna, þjálfara og leiðbeinenda og laga það sem betur má fara. Setja þarf markmið og skýra stefnu og horfa til framtíðar.

Íþróttafélög búa í dag við skipulag sem á sér langa sögu og hefur skipulag þeirra sem og starfsemi í grunninn lítið breyst þrátt fyrir að áherslur í samfélaginu hafi mikið breyst sem og tími fólks. Áfram eru stjórnir íþróttafélaga skipaðar sjálfboðaliðum og ómæld vinna fer í rekstur íþróttafélaga en íþróttamaðurinn fær að njóta sín við æfingar.
Gaman væri að staldra við og velta fyrir sér stöðu íþrótta á Íslandi ef ekki kæmi til sjálfboðaliðastarfsins. Hvar værum við stödd? Það er deginum ljósara að íþróttastarfi í núverandi mynd, hvað þá aukinni, verður ekki haldið úti án öflugs sjálfboðastarfs. Flest íþróttafélög eru byggð upp á sjálfboðaliðastarfi sem seint ef nokkurn tímann verður hægt að meta til fjár.

Ég áttaði mig fljótt á því sem þjálfari að stuðningur öflugrar stjórnar og foreldra getur gert gæfumuninn. Mín skoðun er sú að ef stjórn félags er virk, samansett af öflugum einstaklingum með skýra sýn, sem trúa og treysta á markmið þjálfara uppsker hún árangur. Árangur þessi er margskonar. Hann getur verið fólgin í fjölgun iðkenda, aukinni hreyfingu allra iðkenda þess, betri árangri á íslandsmeistaramótum sem öðrum mótum og síðast en ekki síst árangur í því að gera iðkendur sína að betri einstaklingum sem koma betur undirbúnir undir leik og starf í samfélaginu sem þá að sama skapi blómstrar öllum til heilla.

Íþróttastarf er uppeldisstarf og í slíku starfi læra börn og unglingar að fylgja settum reglum og tileinka sér hollar lífsvenjur. Þjálfarar hafa því mikilvægu uppeldishlutverki að gegna og eru fyrirmyndir barna og unglinga í orði og verki.

Við sem höfum starfað í íþróttahreyfingunni áttum okkur á því að þjálfari er ekki endilega það sama og þjálfari. Af hverju ná sumir þjálfarar vel til iðkenda, halda þeim í íþróttinni og uppskera árangur? Hver er formúlan fyrir góðum þjálfara?
Við viljum að hann sé fyrirmynd, félagi sem skapar einnig vissa fjarlægð, sinni fræðsluhlutverkinu þ.e. ræði mikilvægi hollrar næringar, góðs svefns, sinni uppbyggingu íþróttamannsins í heild sinni, sé sjúkraþjálfari í smámynd, stundi endurmenntun, fylgist með framförum íþróttamannsins, sé hvetjandi og svo má áfram telja.
Við foreldrar viljum einnig gjarnan hafa aðgang að þjálfaranum, geta spurt út í framfarir, árangur og jafnvel fá að stinga því að þjálfaranum að nefna við krakkana að það sé nauðsynlegt að vera með húfu í þessum kulda. Börnin jú, þó svo við viljum ekki alltaf viðurkenna það, hlusta stundum betur á þjálfarann en okkur foreldrana.
Þjálfari þarf semsagt sinna ansi mörgum hlutverkum. Ég hvet ykkur hér að klappa nú stundum á bakið á þjálfara barna ykkar og þakka fyrir vel unnið starf. Það er ómetanlegt að fá slíkt endrum og sinnum. Látið þá vita og þá á jákvæðan og uppbyggilegan máta ef ykkur finnst eitthvað sem betur má fara en munið samt að þjálfarinn hefur reynslu og þekkingu á íþrótt sinni sem við sem foreldrar öðlumst ekki með áhorfi einu saman.

Bæjarfélagið fer ekki varhluta af því að til að byggja upp samfélag þarf að hlúa að íþrótta- og æskulýðsmálum þess. Margar áhugaverðar hugmyndir hafa komið upp á undanförnum árum sem bæjarfélagið hefur verið að skoða af miklum áhuga en eitt af því er aukin samfella í skóladag barna okkar. Gott getur verið að byrja smátt og þróa áfram eftir því sem aukin reynsla fæst. Það þarf vart að taka fram mikilvægi þess að fá íþróttafélögin í lið með okkur í þessari vinnu því þar er þekkingin til staðar. Það var gott að heyra áhuga KA-manna að aðkomu þessa verkefnis á fundi sem ég átti með þeim sl. haust. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem gæti skilað sér í aukinni iðkun sem og auknum árangri sem ég talaði um áður og allt gerir þetta samfélagið að betri stað til að búa í.

Akureyri hefur lagt mikla áhersla á stuðning við íþróttastarf fyrir börn og mun gera áfram. Því þykir mér gaman að geta sagt frá því að Íþróttaráð Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum fyrir áramót að hækka frístundastyrk ungmenna í bænum til íþrótta– og tómstundastarfs í 12.000 krónur frá og með 1. janúar 2015. Einnig var ákveðið að hækka aldursviðmið um fjögur ár sem þýðir að frístundastyrkurinn mun nú gilda fyrir öll börn á aldrinum 6–17 ára.

Góðir gestir, Knattspyrnufélag Akureyrar fagnar nú 87 ára afmæli sínu. Langar mig til að þakka stjórnarmönnum og öllum þeim sem hafa komið að uppbyggingu og rekstri félagsins í gegnum tíðina. Það er gaman að fylgjast með störfum ykkar og hlakka ég til að sjá félagið styrkja sig enn frekar í framtíðinni. Ykkar starf er ómetanlegt fyrir Akureyri og skilar sér í enn betra samstarfi Akureyrarbæjar og íþróttahreyfingarinnar. Takk fyrir mig, og enn og aftur til hamingju með daginn. 

Skrifað undir samning við Diadora

Þá skrifuðu KA og Diadora undir samstarfssamning til næstu 5 ára.  Með samstarfssamningi þessum verður Diadora Ísland einn af aðalstyrktaraðilum KA og koma allir flokkar innan félagsins til með að leika í búningum frá Diadora frá og með árinu 2015.  Diadora Ísland sá gott tækifæri í samningi við KA og tengjast þannig því öfluga starfi sem KA hefur verið að vinna í síðustu ár.  Við í KA erum gríðarlega þakklát fyrir þennan samning og hlökkum til að eiga gott samstarf við Diadora Ísland.

Handsalaður samningur KA og Diadora Ísland
Fyrir hönd KA skrifaði Hrefna G.Torfadóttir, formaður KA, undir samninginn en Ólafur Þ. Sigurðarson fyrir hönd Diadora, eða Óli í Toppmenn eins og við þekkjum hann flest.

Böggubikarinn veittur í fyrsta sinn í dag

Böggubikarinn, eru tveir farandbikarar, gefnir af Gunnari Níelssyni, Ragnhildi Jósefsdóttur og börnum þeirra til minningar um Sigurbjörgu Níelsdóttur, Böggu, systur Gunnars. Bögga var fædd þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. 
Böggubikarinn skal veittur þeim einstaklingum, pilti og stúlku, sem eru á aldrinum 16- 19 ára og þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. 

Tilnefnd voru:
Frá blakdeild: Sóley Ásta Sigvaldadóttir og Gunnar Pálmi Hannesson.
Frá handknattleiksdeild: Arna Kristín Einarsdóttir og Daði Jónsson
Frá knattspyrnudeild: Anna Rakel Pétursdóttir og Ævar Ingi Jóhannesson

Afhending Böggubikarsins
Böggubikarinn 2014 fengu: Arna Kristín Einarsdóttir og Ævar Ingi Jóhannesson

Íþróttamenn deilda 2014

Deildir tilnefna íþróttamann sinnar deildar og er sá íþróttamaður síðan í kjöri til Íþróttamanns KA. Fyrrverandi formenn gefa hverju þeirra bikar til eignar og að auki fær Íþróttamaður KA hinn svokallað Formannabikar til eignar sem einnig er gefinn af fyrrverandi formönnum félagsins.
Íþróttamenn deilda 2014 eru:

Ævarr Freyr Birgisson, frá blakdeild
Ævarr hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri og náð mjög góðum árangri. Hann spilar nú með 2. flokki og meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðanna á árinu. Ævarr spilaði með U-17 og U-19 ára landsliðum Blaksambandsins á NEVZA mótum (Norðurevrópumót)  í Englandi og Danmörku nú í. S.l. vor var hann valinn í æfingahóp fyrir A-landsliðið og tók þátt í æfingum þess bæði þá og nú í jólafríinu.  Hann spilaði sinn fyrsta A-landsliðsleik nú á dögunum. Ævarr hefur sýnt að hann hefur til að bera þann metnað,  sem þarf til að ná árangri í íþróttinni og er ástundun hans til fyrirmyndar í alla staði.

Martha Hermannsdóttir, frá handknattleiksdeild
Martha  hefur löngum leikið handknattleik með KA/Þór. Undanfarin ár hefur hún verið í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu og mikilvægi hennar fyrir liðið verður seint metið til fulls. Í fyrra lék hún gríðarlega stórt hlutverk og manna best hjá liðinu sem endaði í 10.-11. sæti í Olís-deild kvenna. Martha skoraði 155 mörk í 22 leikjum fyrir liðið. Það gera ríflega 7 mörk að meðaltali í leik. Liðið skoraði 499 mörk þennan veturinn og gerði Martha því ríflega 30% marka liðsins. Í sumar framlengdi Martha síðan samning sinn við KA/Þór og tók einnig við sem aðstoðarþjálfari liðsins. Gengi liðsins í vetur hefur verið brösótt en Martha heldur uppteknum hætti í markaskorun og skorað 57 mörk í 9 leikjum, eða 6,3 að meðaltali í leik. Ekki nóg með að Martha skori langmest í liðinu, þá spilar hún gríðarlega mikilvægt hlutverk í vörninni.

Srjdan Raikovic Rajko, frá knattspyrnudeild
Rajko gekk til liðs við KA rétt fyrir tímabilið í sumar og átti með KA frábært tímabil. Hann var kosinn besti leikmaður tímabilsins af þjálfurum, leikmönnum og stjórn knattspyrnudeildar á lokahófi í haust en hann hafði oft mikið að gera milli stanga KA og var eins og klettur oft og tíðum. „Rajko“ hefur fallið vel inní hóp okkar KA manna og verið hvers manns hugljúfi og góð fyrirmynd fyrir alla iðkenndur knattspyrnu hjá félaginu.

Íþróttamenn deilda 2014

Í kjölfarið var tilkynnt að Martha Hermannsdóttir væri íþróttamaður KA árið 2014.

Martha Hermannsdóttir íþróttamaður KA 2014
Martha Hermannsdóttir íþróttamaður KA 2014

Að lokinni dagskrá var boðið í veglegt kaffihlaðborð.
Hér má síðan skoða fjölmargar myndir Þóris Tryggvasonar frá afmælishátíðinni.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband