Íþróttasvæði KA

Draumur KA manna hafði lengi verið að eignast eigið íþróttasvæði. Á 40 ára afmæli félagsins árið 1968 gátu félagsmenn fagnað því að árið áður höfðu bæjaryfirvöld ákveðið að úthluta félaginu svæði vestan og sunnan við Lundarskóla sem nú er. Strax sumarið 1968 hófust æfingar þar upp frá, í litlum mæli þó til að byrja með. Um haustið var gengið frá knattspyrnuvellinum að hálfu en hinn helmingurinn látinn bíða fram á næsta vor.

Unnið á KA svæðinu sumarið 1968
Unnið á KA svæðinu sumarið 1968. Á myndinni til vinstri eru Stefán Gunnlaugsson, Hörður Tuliníus og Stefán Jónasson. Á myndinni til hægri eru Leifur Tómasson og Halldór Ólafsson að störfum.

Vaskir KA menn að störfum á nýju íþróttasvæði
Vaskir KA menn að störfum á nýju íþróttasvæði. Frá vinstri: Viktor Gestsson, Rögnvaldur Reynisson, Vilhelm Jónsson, Hrafnkell Tuliníus, Snorri Guðvarðarson, Ævar Ívarsson, Hörður Tuliníus, Stefán Jónasson, Halldór Ólafsson, Kristinn Kristinsson, Þormóður Einarsson, Þorkell Rögnvaldsson, Stefán Gunnlaugsson, Rafn Magnússon, Þór Þorvaldsson, Jón Stefánsson, Júlíus og Jakob Jónssynir, Leifur Tómasson.

Unnið að þökulagningu.
Unnið að þökulagningu. Frá vinstri: Rafn Magnússon, Þormóður Einarsson, Jón Halldórsson o.fl.

Unnið að þökulagingu
Unnið að þökulagningu. Frá vinstri: Rafn Magnússon, Jón Halldórsson, Þormóður Einarsson, Hörður Tuliníus o.fl.

Þetta sama haust keypti félagið hús sem Karl Friðriksson hafði látið reisa við Hólabraut og var það dregið upp í gegnum bæinn og sett á grunn við hálfkláraðan grasvöllinn.

Frá flutningi hússins
Frá flutningi húss sem staðsetja átti á nýja KA svæðinu sunnan og vestan Lundarskóla. Húsið var áður á lóð sunnan og vestan við Búnaðarbankahúsið (nú Arion Banki) og var notað til ýmissa hluta, svo sem ferðaskrifstofu, veitingasölu o.fl. Flutningurinn fór fram hausið 1968. Húsið kom þó aldrei að gagni fyrir þá starfsemi sem því var ætlað á KA svæðinu.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Fyrr en nokkurn varði byrjuðu skipulagsyfirvöld bæjarins að amast við KA mönnum á brekkunni. Var ekki á það bætandi því hús Karls Friðrikssonar, sem þeir höfðu með ærinni fyrirhöfn flutt uppeftir, lá undir árásum og fengu rúður í gluggum hússins lítinn frið fyrir skemmdarvörgum. Á endanum varð niðurstaða skipulagsfræðinga sú að KA svæðið skyldi flutt til norðurs að Þingvallastræti. Fyrir fræðingana var þetta aðeins einfalt pennastrik en vandi KA var mikill. Í skýrslu formanns félagsins, Gunnlaugs Björnssonar, fyrir starfsárið 1971 til 1972, var vakin athygli á að loksins væri endanlega búið „... að samþykkja skipulag Lundstúna, þar sem KA svæðið er staðsett.“

Þessi skipulagsbreyting hefði vart getað komið á óheppilegri tíma fyrir félagið. Starfsemi þess var í molum og mjög erfitt að fá menn til starfa. Má hafa það til marks um áhuga félaganna að á aðalfundi KA 1972 mættu sjö manns. Það var því við hæfi að Gunnlaugur slægi botn í áðurnefnda skýrslu sína með þessum orðum:

„Sem félagsmönnum kemur okkur allt starf félagsins jafnmikið við og þeim mönnum er hafa gefið sig fram til starfa í stjórn eða nefndum í félaginu. Ef við aðeins gætum fengið alla félaga okkar í félaginu til að hugsa: „Hvað gerum við?“; í staðinn fyrir: „Hvað gerir stjórnin, eða hvað gerir félagið?“, hugsið ykkur þá hversu miklu félagslega sterkari við værum en við erum nú. Og það er einmitt það sem KA félaga vantar, að vera félagslega sterkari.“

Og stjórnin var ekki á því að leggja árar í bát þó á móti blési. Lögð voru á ráðin um mjög ákveðna deildaskiptingu og aukna sjálfstjórn hverrar deildar um sig.

Árið 1975 hófust framkvæmdir við hið nýja vallarsvæði KA í Lundarhverfi. Hermann Sigtryggsson, Gunnar Jóhannesson og Stefán Gunnlaugsson voru kosnir í vallarnefnd og hægt og bítandi breyttist tún í malarvöll, sem tekinn var í notkun 1977.
Vinna hafin við gerð malarvallar í Lundarhverfi vorið 1976
Vinna hafin við gerð malarvallar í Lundarhverfi vorið 1976. Að mestu unnið í sjálfboðavinnu. Frá vinstri: Baldur Steingrímsson, Jón Stefánsson, Hannes Kristmundsson garðyrkjustjóri, Tryggvi Haraldsson ýtustjóri, Gissur Jónasson og Páll Sigurðsson.

Safnskurður við suðurhlið malarvallarins
Safnskurður við suðurhlið malarvallarins

Samúel Jóhannsson, markvörður í Þór stjórnar hér gröfu við gerð skurða fyrir drenlagnir.
Samúel Jóhannsson, markvörður í Þór stjórnar hér gröfu við gerð skurða fyrir drenlagnir.

Gerð aðalfrárennslis
Gerð aðalfrárennslis sem liggur frá suðri til norðurs þvert undir malar- og grasvöll. Byggingarnefnd íþróttavalla KA. Frá vinstri: Hermann Sigtryggsson, Stefán Gunnlaugsson og Gunnar Jóhannesson, sem jafnframt var verkfræðilegur ráðunautur með gerð vallanna.

Fjórum árum síðar, um haustið 1981, var lokið við að þökuleggja grasvöllinn en vegna ótíðar varð ekki spiluð knattspyrna á vellinum fyrr en sumarið á eftir. KA menn létu það ekkert á sig fá og buðu hinum fjölmörgu sjálfboðaliðum, sem unnið höfðu við völlinn, til veislu í Lundarskóla þá um haustið. Úti fyrir spillti úrkoma leikskilyrðum á nýja grasvellinum en í höfuðstöðvum KA í Lundarskólanum gæddu gestir sér á gríðarstórri tertu, líkani af vellinum sem þeir höfðu puðað við sumarlangt.

Hafist handa við gerð grasvallar í Lundarhverfi

Hafist handa við gerð grasvallar í Lundarhverfi

Hafist handa við gerð grasvallar í Lundarhverfi.

Hafist handa við gerð grasvallar í Lundarhverfi
Hafist handa við gerð grasvallar í Lundarhverfi. Akureyrarbær lagði til vélar endurgjaldslaust en mikil sjálfboðavinna var unnin, bæði við jarðvegsvinnu og þökulagningu.

Mikið verk var við þökulagningu og fjöldi KA manna vann að henni sjálfboðavinnu
Mikið verk var við þökulagningu og fjöldi KA manna vann að henni sjálfboðavinnu. Verkið gekk vel og var lokið um haustið 1981. Haldið var upp á lokaáfangann í félagsmiðstöðinni í Lundarskóla. Þar var mikið fjölmenni sem gæddi sér á myndarlegri tertu sem var líkan af knattspyrnuvelli.

Þetta var stór áfangi í sögu félagsins. Fyrir samstillt átak fjöldamargra einstaklinga og bæjaryfirvalda hafði tekist að koma upp glæsilegu æfinga- og keppnissvæði fyrir yngri jafnt sem eldri KA menn. Og það var ekki vonum seinna því knattspyrnumenn félagsins höfðu lengi verið á hrakhólum með æfingasvæði.

Félagssvæði KA með tveim grasvöllum, malarvelli, búningsklefum og félagsheimili
Félagssvæði KA með tveim grasvöllum, malarvelli, búningsklefum og félagsheimili ásamt girðingu kringum allt svæðið. Myndin er trúlega tekin sumarið 1986.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband