Stelpurnar í keppnisferð í Barcelona

Blak
Stelpurnar í keppnisferð í Barcelona
Stelpurnar í Leifstöð og klárar í slaginn!

Kvennalið KA í blaki lagði í dag af stað í æfinga og keppnisferð til Barcelona yfir páskana. Stelpurnar tryggðu sér Deildarmeistaratitilinn á dögunum og hefja því leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn og nýta sér því pásuna á þennan skemmtilega hátt.

Á morgun, fimmtudag, leika stelpurnar á móti FC Barcelona klukkan 15:00 að íslenskum tíma. Á föstudaginn er komið að leik gegn Premia en hann hefst klukkan 9:00 að íslenskum tíma en bæði Barcelona og Premia leika í næstefstu deild Spánar þar sem Barcelona trónir á toppnum og Premia er í 2. sæti.

Á laugardeginum mæta stelpurnar loks U21 árs liði Katalóníu og hefst leikurinn klukkan 9:00 að íslenskum tíma. Flogið er svo heim á mánudaginn en stelpurnar hefja leik í úrslitakeppninni þann 18. apríl en í millitíðinni mætast Völsungur og HK í 8-liða úrslitum og mun sigurliðið í þeirri viðureign mæta okkar stelpum.

Það verður gríðarlega spennandi að sjá hvernig okkar magnaða lið stendur sig gegn öflugum andstæðingum um helgina en stefnt er að sýna alla leikina beint á KA-TV á YouTube en það mun standa og falla með nettengingunum í húsunum sem spilað verður í.

Smelltu hér til að opna KA-TV rásina


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is