5. sætið hjá körlunum en konurnar í því 6.

Blak

Evrópuævintýri blakliða KA lauk í morgun þegar bæði lið kepptu um 5. sætið á NEVZA Club Championship mótinu. Karlalið KA vann góðan sigur á heimamönnum í Ishøj Volley en kvennalið KA tapaði hinsvegar sinni viðureign gegn Team Køge.

Strákarnir virtust ekki alveg vaknaðir í upphafi leiks en Ishøj rúllaði yfir fyrstu hrinuna og unnu 12-25 og átti okkar lið vægast sagt mikið inni. Þessi skellur vakti hinsvegar liðið allhressilega því staðan var orðin 15-2 fyrir KA í upphafi annarrar hrinu, það var því aldrei spurning að strákarnir myndu jafna metin í 1-1 sem þeir og gerðu með 25-16 sigri.

Næsta hrina var aðeins jafnari en okkar lið leiddi þó frá upphafi og sigldi á endanum nokkuð öruggum 25-20 sigri eftir að liðið hafði meðal annars leitt 20-12. Staðan orðin 2-1 og KA liðið með tögl og haldir á leiknum. Heimamenn leiddu 3-5 í upphafi fjórðu hrinu en þá kom mergjaður kafli hjá okkar liði sem breytti stöðunni í 18-10 og vann svo 25-11 sigur og þar með samanlagt 3-1.

Niðurstaðan því 5. sætið á mótinu en svo virðist sem að KA hafi verið í töluvert sterkari riðli þar sem að bæði liðin úr riðli KA sem fóru í undanúrslit leika í úrslitaleiknum sjálfum. Vissulega svekkjandi að hafa ekki endað aðeins ofar enda vann liðið tvo leiki af þremur en þó klárt að það var mjög gott að fá hörkuleiki gegn sterkum andstæðingum.

Það var gríðarleg spenna í leiknum hjá konunum og var jafnt á nánast öllum tölum í fyrstu hrinu. Jafnt var 23-23 og spennan ansi mikil en Team Køge náði úrslitastigunum og vann 23-25 sigur. Hinsvegar gekk ekki nægilega vel í næstu hrinu og voru stelpurnar allan tímann að elta og á endanum tapaðist hrinan 11-25 og staðan orðin ansi erfið 0-2 undir.

Stelpurnar voru þó staðráðnar í að gera betur og það var allt annað að sjá til liðsins í þriðju hrinu, liðið lenti 3-5 undir en gerði þá sjö stig í röð og komst í 10-5. Töluvert var um sveiflur og var staðan aftur orðin jöfn í 13-13 en þá kom aftur góður kafli hjá okkar liði sem komst í 21-15 og vann á endanum góðan 25-22 sigur og staðan orðin 1-2.

Mikið jafnræði var í upphafi fjórðu hrinu en svo kom sterkur kafli hjá Team Køge sem 7-15 og þrátt fyrir ágætistilraunur okkar liðs þá var erfitt að stöðva Køge sem var komið í gang og á endanum tapaðist leikurinn 1-3 eftir 13-25 tap í síðustu hrinunni.

Niðurstaðan því 6. sætið hjá konunum en margt ansi jákvætt þrátt fyrir það og ekki spurning að þetta mót mun gefa liðinu aukna reynslu fyrir lokasprettinn á tímabilinu en stelpurnar eru í harðri baráttu um Deildarmeistaratitilinn auk þess sem liðið er komið í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband