Andri Snær aðstoðarþjálfari mfl. karla

Handbolti
Andri Snær aðstoðarþjálfari mfl. karla
Haddur og Andri handsala samninginn

Andri Snær Stefánsson verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla á næsta handboltavetri og kemur þar með inn í teymið hjá Halldóri Stefáni Haraldssyni aðalþjálfara liðsins. Það er klárt að það er gríðarlega sterkt að fá jafn reynslumikinn mann eins og Andra inn í þjálfarateymi meistaraflokks.

Andra Snæ þarf vart að kynna fyrir KA fólki en hann er uppalinn hjá félaginu og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með KA tímabilið 2003-2004. Með KA lék Andri Snær 166 leiki í deild, bikar og Evrópu og var hann fyrirliði liðsins til fjölda ára.

Andri er auk þess leikjahæsti leikmaður sameiginlegs liðs Akureyrar þar sem hann lék 222 leiki en liðið var starfrækt á árunum 2006 til 2017. Þá lék hann einnig með danska liðinu Odder árin 2010 og 2011.

Andri byrjaði snemma í þjálfun yngriflokka hjá KA og tók svo við stjórn ungmennaliðs KA á árunum 2017-2020 þar sem liðið vann sigur í 2. deildinni veturinn 2018-2019 og festi sig í sessi í Grill66 deildinni tímabilið eftir.

Í kjölfarið tók hann við meistaraflokksliði KA/Þórs og á fyrsta tímabili liðsins undir stjórn Andra, veturinn 2020-2021, skrifaði liðið söguna upp á nýtt í kvennahandboltanum á Akureyri en stelpurnar hömpuðu sínum fyrstu stóru titlum er liðið varð Íslandsmeistari, Bikarmeistari, Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna og var því handhafi allra stóru titlanna í handboltanum á sama tíma.

Í kjölfarið náði liðið sínum næstbesta árangri veturinn 2021-2022 þegar stelpurnar enduðu í 3. sæti Olísdeildarinnar aðeins tveimur stigum frá toppsætinu auk þess sem liðið fór í undanúrslit úrslitakeppninnar og bikarkeppninnar.

Miklar breytingar urðu á liðinu fyrir tímabilið 2022-2023 og fengu margir ungir leikmenn að spreita sig og taka mikla ábyrgð í leikjunum. Stelpurnar enduðu að lokum í 6. sæti deildarinnar og féllu úr leik í úrslitakeppninni eftir oddaleik. Andri lét staðar numið hjá KA/Þór eftir þann vetur en á nýliðnum vetri þjálfaði Andri 5. flokk karla hjá KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband