Dæmið snerist við í Fagralundi í dag

Blak
Dæmið snerist við í Fagralundi í dag
Strákarnir unnu góðan sigur (mynd: Egill Bjarni)

Karla- og kvennalið KA í blaki mættu HK öðru sinni í dag en liðin mættust einnig í gær í uppgjöri toppliða Mizunodeildanna. Kvennalið KA vann frábæran sigur í gær á meðan karlaliðið tapaði sínum leik en dæmið snerist algjörlega við í leikjum dagsins.

Rétt eins og í gær þá hófu karlarnir leikinn og virtist ekki mikið í kortunum í upphafi að KA liðið ætlaði sér að hefna fyrir 3-2 tapið frá því í gær en HK liðið byrjaði betur og vann 25-16 sigur í fyrstu hrinunni.

Næsta hrina var gríðarlega jöfn og spennandi og allt annað að sjá til okkar liðs. Strákarnir leiddu en HK gafst aldrei upp og jafnaði metin í 20-20 og aftur í 24-24. Sama staða kom upp í annarri hrinu liðanna í gær en nú voru það við sem kláruðum dæmið og jöfnuðum í 1-1.

Það var svo algjörlega frábært að fylgjast með spilamennsku KA í næstu hrinu þar sem liðið hreinlega keyrði yfir lið HK. Strákarnir náðu fljótt góðu forskoti og unnu á endanum 15-25 sigur og staðan því orðin 1-2.

Ef einhver hafði áhyggjur af endurkomu HK eftir skellinn þá var það alls ekki á planinu því KA komst í 1-14 og leit aldrei til baka. Strákarnir sigldu öruggum 13-25 sigri heim og þar með 1-3 sigri í heildina.

Það er ljóst að það býr gríðarlega mikið í okkar liði og liðið mun aðeins verða betra þegar líður á veturinn og hlutirnir slípast betur saman. Það vantar aðeins upp á stöðugleikann en þegar menn eru í gírnum getur líklega ekkert lið á landinu stoppað þetta magnaða lið okkar. Strákarnir eru því á toppi deildarinnar og fara ansi vel af stað í vetur.

Stelpurnar tóku svo við sviðinu en Þróttur Nes. tapaði tvívegis um helgina og var því enn meira undir í baráttu HK og KA í baráttunni um toppsætið. Fyrsta hrinan var hnífjöfn og spennandi og erfitt að sjá hvort liðið myndi taka forystuna. Staðan var jöfn 22-22 undir lokin en heimakonur gerðu betur á lokakaflanum og unnu 25-22.

KA liðið svaraði hinsvegar mjög vel fyrir tapið og komst strax í 0-5 og síðar 6-15. Það var því lítil spenna í annarri hrinunni og KA jafnaði metin í 1-1 með góðum 17-25 sigri. Dæmið snerist hinsvegar alveg við í þeirri næstu því HK tók strax forystuna og vann 25-16 sigur sem kom þeim í 2-1.

Miklu meiri spenna var í fjórðu hrinu enda mikið undir, KA liðið varð að jafna metin á meðan HK gat tryggt öll stigin þrjú. KA leiddi 17-20 og hafði spilað vel en þá kom ótrúlegur kafli þar sem HK skoraði átta næstu stig og kláraði hrinuna 25-20 og leikinn í kjölfarið 3-1.

Liðin skiptu því stigunum á milli sín um helgina og er útlit fyrir gríðarlega harða baráttu liðanna um toppsæti deildarinnar. KA liðið er með 19 stig eftir 8 leiki en HK er með 18 stig eftir 7 leiki.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband