Dagbjartur Búi framlengir út 2026

Fótbolti

Dagbjartur Búi Davíðsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA út árið 2026. Eru þetta afar jákvæðar fréttir en Dagbjartur Búi er gríðarlega spennandi ungur leikmaður sem er að koma upp úr yngriflokkastarfi KA.

Dagbjartur Búi sem verður 18 ára í lok maí var á láni hjá KF í 2. deild í fyrra þar sem hann kom við sögu í öllum leikjum liðsins þar af fleiri en færri í byrjunarliðinu. Hann skoraði fjögur mörk í þessum leikjum en hans besta leikstaða í dag er á vængjunum þó hann geti einnig vel leyst það að spila á miðjunni.

Í sumar mun hann taka enn eitt framfaraskrefið en Dagbjartur Búi mun spila með Dalvík/Reyni í Lengjudeildinni í sumar og ljóst að það verður spennandi að fylgjast með þessum öfluga kappa í næstefstu deild í því flotta umhverfi sem Dalvíkingar hafa skapað.

Aðalbjörn Hannesson yfirmaður knattspyrnumála hafði þetta um samninginn og vistaskiptin til Dalvík/Reynis: "Dagbjartur Búi er einn af þeim drengjum sem við teljum að hafi góðan möguleika að spila fyrir KA í Bestu deildinni á næstu árum. Hann gerði vel í 2. deildinni í fyrra og það því verður fróðlegt að fylgjast með honum í deild ofar í sumar. Bæði þessi félagaskipti eru hluti af tröppuganginum í hans leikmannaþróun. Dagbjartur er naskur í og við vítateiginn enda góður skotmaður sem veit hvar markið er. Sá eiginleiki mun vonandi skila honum nokkrum mörkum í sumar og hjálpa þannig Dalvík/Reyni að enda sem efst í töflunni."


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband