Frábær sigur á Stjörnunni (myndaveislur)

Handbolti
Frábær sigur á Stjörnunni (myndaveislur)
2 STIG Í HÚS! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Stjörnunni í Olísdeild karla í handboltanum í gær en þetta var fyrsti leikur liðsins á nýju ári. Baráttan í deildinni er gríðarlega hörð og úr varð svakalegur leikur sem var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á svæðinu og bjóða þeir báðir til myndaveislu frá herlegheitunum hér fyrir neðan og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framlagið.

Jafnt var á öllum tölum fyrri hluta fyrri hálfleiks en þá kom góður kafli hjá KA liðinu sem gerði fjögur mörk í röð og breytti stöðunni úr 5-6 yfir í 9-6. Gestirnir voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og aftur var staðan orðin jöfn í 10-10 skömmu síðar. Nicholas Satchwell fór að verja vel í marki okkar liðs en hann varði alls 7 skot í fyrri hálfleik sem hjálpaði strákunum að leiða 15-13 í hléinu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

KA byrjaði þó síðari hálfleik tveimur mönnum færri og gestirnir voru fljótir að nýta sér liðsmuninn og jafna í 15-15. Ekki hjálpaði að Nicholas fékk boltann í höfuðið og gat ekki leikið meira í leiknum. Í hans stað kom Bruno Bernat og hann átti flotta innkomu og varði alls sjö skot.

Liðin skiptust á að leiða í síðari hálfleik og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda. Leikurinn var gríðarlega fastur og menn tóku svo sannarlega hart á hvorum öðrum. Gestirnir jöfnuðu í 23-23 þegar um sjö mínútur lifðu leiks og spennustigið í botni. Svo hátt var spennustigið að liðin skoruðu ekki næstu fimm mínúturnar en Patrekur Stefánsson braut ísinn er hann tróð sér í gegn og í kjölfarið varði Bruno risabolta á lokamínútunni.

Óðinn Þór Ríkharðsson gulltryggði svo sigurinn með marki á lokasekúndunum en Dagur Gautason fyrrum leikmaður KA lagaði stöðuna í 25-24 í kjölfarið sem urðu lokatölur. Strákarnir fögnuðu sigrinum vel og innilega enda gríðarlega mikilvæg stig í hús og mikill karakter sem liðið sýndi.

Einar Rafn Eiðsson gat ekki leikið vegna meiðsla en aðrir leikmenn stigu hinsvegar upp og einfaldlega sýndu það að þeir vildu sigurinn meira. Strákarnir hafa vissulega spilað betri handbolta, liðið tapaði meðal annars 14 boltum í heildina en þeir bættu það upp með góðri skotnýtingu og frábærum varnarleik. Fyrir aftan okkar öflugu vörn vörðu þeir Satchwell og Bruno alls 15 bolta.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna Friðjónssonar frá leiknum

Óðinn Þór var markahæstur í okkar liði með 8 mörk en afar jákvætt er að sjá að liðsfélagar hans eru farnir að finna hann betur og betur í hröðum upphlaupum. Patrekur Stefánsson gerði 6 mörk og þar á meðal tvö risastór mörk á lokakaflanum. Ólafur Gústafsson heldur áfram að stíga upp sóknarlega og gerði 3 mörk rétt eins og Allan Norðberg sem leysti af hægri skyttustöðuna með sóma. Arnar Freyr Ársælsson gerði 2 mörk og þeir Einar Birgir Stefánsson, Haraldur Bolli Heimisson og Ragnar Snær Njálsson gerðu allir sitt hvort markið.

Með sigrinum hefur KA liðið nú unnið fjóra leiki í röð og situr nú í 7. sæti deildarinnar með 14 stig. Það er áfram stutt á milli í deildinni, hvort sem litið er upp eða niður en það er allavega alveg ljóst að ef strákarnir halda áfram á þessari braut munum við halda áfram að klífa upp töfluna.

Það er skammt stórra högga á milli um þessar mundir en KA og Stjarnan mætast aftur strax á miðvikudaginn í Garðabænum í 16-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. Liðin mættust einnig í upphafi vetrar í bikarkeppni síðasta tímabils þar sem Stjörnumenn fóru með sigur af hólmi og vonandi að strákunum takist að hefna fyrir það tap. Leikurinn hefst kl. 18:00 og verður í beinni á RÚV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband