Gríðarlega mikilvægur stórsigur KA á Fylki

Fótbolti
Gríðarlega mikilvægur stórsigur KA á Fylki
Ásgeir ánægður með 3 stig og 3 mörk!

KA tók á móti Fylkismönnum í 13. umferð Pepsi deildarinnar í kvöld en mikið var undir í leiknum. Fylkismenn sem voru í fallsæti fyrir leik gátu komist stigi á eftir KA með sigri á sama tíma og KA gat blandað sér allhressilega inn í pakkann fyrir miðri deild með sigri.

KA 5 - 1 Fylkir
1-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('19)
2-0 Callum Williams ('43)
3-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('65)
4-0 Aleksandar Trninic ('77)
5-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('82)
5-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('83)

KA liðið sem hefur verið á miklu flugi að undanförnu hóf leikinn af miklum krafti og setti mikla pressu á gestina sem hafa verið í vandræðum að undanförnu. Opnunarmarkið kom á 19. mínútu og var það týpískt mark hjá Ásgeiri Sigurgeirssyni þegar hann komst inn í sendingu til baka og kom boltanum á endanum í netið.

Áfram hélt okkar lið að sækja en það voru hinsvegar Fylkismenn sem fengu úrvalsfæri til að jafna þegar þeir fengu vítaspyrnu eftir hasar milli Guðmanns Þórissonar og Ragnars Braga Sveinssonar. Cristian Martinez gerði sér hinsvegar lítið fyrir og varði spyrnuna frá Alberti Brynjari Ingasyni og varði einnig frákastið í kjölfarið.

Hvort að þetta hafi sett tóninn veit ég ekki en KA liðið lokaði í kjölfarið betur á sóknarleik Árbæinga og var ekki mikið í stöðunni að Fylkismenn myndu jafna metin. Callum Williams tvöfaldaði svo forystuna rétt fyrir hálfleik þegar hann að því er virtist fékk hornspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar í sig og í netið. Ekki fallegasta markið en það telur jafn mikið og staðan virkilega góð fyrir síðari hálfleikinn.

Róðurinn varð svo enn þyngri fyrir gestina er hálftími lifði leiks en þá fékk Ásgeir Eyþórsson beint rautt spjald fyrir að brjóta á Steinþóri Frey Þorsteinssyni sem var að sleppa í gegn. Hallgrímur Mar tók aukaspyrnuna en Aron í marki Fylkis sýndi flotta takta með því að verja spyrnuna.

Það leið þó ekki á löngu uns staðan var orðin 3-0 eftir frábæra sendingu hjá Steinþóri Frey inn á Ásgeir sem tímasetti sig vel og gerði sitt annað mark í dag. Aleksandar Trninic gerði svo fjórða markið á 77. mínútu eftir heilmikið klafs í teignum og Serbinn stæðilegi þrumaði boltanum í netið er hann barst til hans.

Ásgeir fullkomnaði svo þrennuna á 80. mínútu enn og aftur eftir magnað hlaup en nú eftir sendingu frá Hallgrími Mar. Algjörlega geggjað að sjá til Geira og hann er enn og aftur að sýna hvers hann er megnugur. Gestirnir löguðu stöðuna fyrir leikslok þegar Valdimar Þór Ingimundarson átti gott skot en það taldi lítið og 5-1 stórsigur KA staðreynd.

KA heldur því áfram að raða inn stigunum en liðið er nú búið að vinna þrjá leiki í röð og lyfti sér upp í 6. sæti deildarinnar. Nú er bara að vona að menn haldi áfram á sömu braut enda er stutt í næstu lið og vonandi getum við nú kvatt liðin fyrir neðan okkur.

Nivea KA-maður leiksins: Ásgeir Sigurgeirsson (Það þarf ekkert að ræða valið á manni leiksins í þetta skiptið, baráttuhundurinn hann Ásgeir stóð sig frábærlega í dag og gerði þrennu. Ekki hægt að biðja um meira!)


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband