ÍBV tók fyrsta leikinn (myndaveisla)

Handbolti
ÍBV tók fyrsta leikinn (myndaveisla)
Við ætlum að knýja fram oddaleik! (Egill Bjarni)

KA/Þór og ÍBV mættust í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í KA-Heimilinu í gær. Úr varð mikill spennuleikur og var stemningin í KA-Heimilinu eftir því. Eftir hörkuleik voru það gestirnir sem lönduðu 26-27 sigri og leiða því einvígið 1-0 fyrir leik liðanna í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn.

Stelpurnar fóru vel af stað, náðu snemma góðu taki á leiknum og leiddu nær allan fyrri hálfleikinn með 3-4 mörkum. Hálfleikstölur voru 14-11 og útlitið gott. En gestirnir komu sterkir inn í síðari hálfleikinn og þær jöfnuðu metin eftir um tíu mínútna leik. Hik kom á sóknarleik okkar liðs auk þess sem Marta Wawrzykowska varði hvert dauðafærið á fætur öðru.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

ÍBV tók í kjölfarið forystuna en stelpurnar gáfust ekki upp og gerðu allt hvað þær gátu til að jafna metin. Að endingu tókst það þó því miður ekki og ansi svekkjandi 26-27 tap staðreynd. Það er klárt mál að stelpurnar munu svara fyrir tapið á miðvikudaginn en þetta var einfaldlega stöngin út að þessu sinni gegn sterku liði ÍBV.

Takist liðinu að vinna í Vestmannaeyjum er hreinn oddaleikur í KA-Heimilinu á laugardaginn og það er ekki nokkur spurning að okkar frábæra lið hefur ekki sagt sitt síðasta í þessu einvígi!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband