KA og Selfoss skildu jöfn (myndir)

Handbolti
KA og Selfoss skildu jöfn (myndir)
Skemmtilegur leikur í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Selfoss í Olísdeild karla í gærkvöldi en aðeins eitt stig skildi liðin að fyrir leikinn og úr varð afar skemmtilegur og spennandi leikur. Liðin gerðu 24-24 jafntefli er þau mættust fyrr í vetur á Selfossi og ótrúlegt en satt varð sama niðurstaða í KA-Heimilinu í gær.

KA komst í 2-1 í upphafi leiks en eftir það voru það gestirnir sem höfðu frumkvæðið. Þeir gerðu næstu fjögur mörk og komust í 2-5. Þó nokkrar sveiflur voru í leiknum en KA liðinu tókst reglulega að jafna leikinn en ávallt tókst Selfyssingum að spyrna frá sér og leiddu 11-13 í hléinu.

Tímalína fyrri hálfleiks

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum en uppselt var á leikinn og ljóst að við getum ekki beðið eftir því að geta fengið fleiri en 142 áhorfendur í KA-Heimilið!


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það var svo um miðbik síðari hálfleiks að strákunum tókst loksins að ná forystunni og var lokakafli leiksins hádramatískur og skemmtilegur. Varnarleikurinn og markvarsla var í aðalhlutverki og þurftu bæði lið að hafa ansi mikið fyrir hverju marki.

Stemningin var frábær í KA-Heimilinu sem hjálpaði strákunum að leiða leikinn er mest á reyndi. Staðan var jöfn 23-23 þegar lokamínútan gekk í garð, Árni Bragi Eyjólfsson gerði þá gott mark af miðjunni og staðan orðin 24-23. En gestunum tókst að jafna metin á lokasekúndunum og jafntefli þar með niðurstaðan.

Tímalína seinni hálfleiks

Vissulega smá svekkjandi að ná ekki tveimur stigum eftir að hafa náð yfirhöndinni undir lokin en sé miðað við leikinn í heild sinni er enn á ný afar jákvætt að horfa til karaktersins í okkar liði. Selfoss er með hörkulið og það er erfitt að elta þá í jafn langan tíma og KA liðið gerði í gær. Strákarnir gefast hinsvegar aldrei upp og voru hársbreidd frá því að vinna enn einn endurkomusigurinn.

Árni Bragi Eyjólfsson og Jóhann Geir Sævarsson voru markahæstir í gær með 6 mörk en Árni Bragi gerði eitt mark úr víti og Jóhann Geir tvö. Jón Heiðar Sigurðsson gerði 4 mörk og stóð sig afar vel í fjarveru Patreks Stefánssonar sem var í banni. Allan Norðberg og Áki Egilsnes gerðu 3 mörk hvor og Sigþór Gunnar Jónsson gerði 2 mörk.

Nicholas Satchwell átti mjög góðan leik í markinu og varði 16 skot, þar á meðal 10 í síðari hálfleik þar sem hann fór fyrir liðinu þegar strákarnir sneru leiknum sér ívil.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband