KA/Þór aftur á toppinn eftir spennuleik

Handbolti
KA/Þór aftur á toppinn eftir spennuleik
Risasigur staðreynd! (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór sótti Stjörnuna heim í Garðabæinn í Olísdeild kvenna í handbolta í dag en bæði lið eru í harðri baráttu við toppinn og leikurinn í dag því skólabókardæmi um fjögurra stiga leik. Fram hafði fyrr um daginn unnið sigur á Val og gátu stelpurnar því aftur jafnað við Fram með sigri í Garðabænum.

Fyrir leikinn höfðu stelpurnar okkar aðeins tapað einum leik í vetur og var það einmitt gegn Stjörnunni og klárt að þær ætluðu að kvitta fyrir það. KA/Þór leiddi leikinn en um miðbik fyrri hálfleiks kom góður kafli þar sem stelpunum tókst að slíta sig frá Stjörnunni. Mestur varð munurinn átta mörk í stöðunni 9-17 en heimakonur löguðu stöðuna í 12-18 í hléinu.

En rétt eins og í fyrri leik liðanna þar sem okkar lið leiddi lengstum þá komu Garðbæingar til baka og úr varð hörkuleikur. Þá klikkaði leikklukkan í TM-Höllinni og eftir langa pásu í upphafi síðari hálfleiks var brugðið á það ráð að leika með flettiskilti og skeiðklukku. Það var því erfitt fyrir leikmenn og þjálfara að átta sig á stöðu og tíma sem er afar erfitt í jafn spennuþrungnum leik og raun bar vitni.

Hægt og bítandi komu Stjörnustúlkur sér nær og nær okkar liði og þær jöfnuðu í 21-21 er rétt rúmar tíu mínútur lifðu leiks. Lokakaflinn varð því jafn og spennandi þar sem bæði lið ætluðu sér stigin tvö. Garðbæingar komust yfir í 25-24 áður en stelpurnar svöruðu með næstu þremur mörkum og komust aftur yfir í 25-27.

Lokamínútan varð spennuþrungin en Stjörnunni tókst að minnka í 26-27 áður en lokasókn KA/Þórs geigaði og rétt í þann mund er leiktíminn var að klárast fékk Hanna Guðrún Stefánsdóttir úrvalsfæri í horninu en skot hennar small í stönginni og út og gríðarlega sætur sigur okkar liðs þar með staðreynd!

Heppnin var því sem betur fer með stelpunum á örlagastund og fara þær því aftur á topp deildarinnar ásamt Fram, nú með 14 stig þegar aðeins fimm umferðir eru eftir. Næstu lið eru Valur og Stjarnan með 11 og 10 stig og ljóst að það er svakaleg barátta framundan um Deildarmeistaratitilinn.

Það segir ansi mikið um samheldnina í liðinu að vinna leiki eins og þennan þá sérstaklega þegar það vantar lykilmenn í hópinn en Sólveig Lára Kristjánsdóttir var fjarri góðu gamni í dag og þá eru reynsluboltarnir Martha Hermannsdóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir enn frá vegna meiðsla.

Rut Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir voru markahæstar í dag með 6 mörk hvor en Rut gerði þrjú mörk úr vítum og Ásdís eitt. Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerði 5 mörk, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2 og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1 mark. Matea Lonac varði 11 skot í markinu og Sunna Guðrún Pétursdóttir varði tvö skot á lokakaflanum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband