KA/Þór burstaði Val-U

Handbolti

KA/Þór vann stórsigur á Val-U þegar að liðin mættust í KA-heimilinu fyrir framan 250 manns í dag. Það var mikið húllumhæ í kringum leikinn, enda fyrsti heimaleikur stelpnanna í vetur. Það mættu ríflega 250 manns á völlinn og fengu þeir að launum frábæran leik frá stelpunum.

Eftir brösuga byrjun, eða fyrstu 10 mínúturnar, sigldu heimastúlkur framúr og litu aldrei til baka. Hálfleiksstaðan var 16-8 og lauk leiknum með 32-16 sigri okkar stúlkna en þær gjörsamlega kafsigldu Val í síðari hálfleik.

Erfitt er að taka einhverja eina út úr liði KA/Þór sem besta en þær léku allar vel. Þóra Björk Stefánsdóttir spilaði sitt hlutverk mjög vel og einnig var gaman að sjá Ásdísi Sigurðardóttur aftur í röðum KA/Þór. Hulda Bryndís Tryggvadóttir var einnig að leika í fyrsta sinn með liðinu í svolítinn tíma og stóð hún sig vel. Í lið KA/Þór vantaði Mörthu Hermannsdóttur sem braut á sér fingurinn í síðasta æfingaleik fyrir mótið. 

Mörk KA/Þór: Ásdís Guðmundsdóttir 6, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 6, Ólöf Marín Hlynsdóttir 5, Katrín Vilhjálmsdóttir 4, Þóra Björk Stefánsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Ásdís Sigurðardóttir 2 og Steinunn Guðjónsdóttir 2.
Sunna Guðrún Pétursdóttir átti stórleik í markinu en undir lok leiksins kom Margrét Einarsdóttir í markið og varði meðal annars vítakast.

Mörk Vals U: Isabella María Eriksdóttir 4, Ída Margrét Stefánsdóttir 4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 2, Ósk Hind Ómarsdóttir 2, Vala Magnúsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir og Heiðrún Berg Sverrisdóttir 1 mark hvor.

Leikurinn var í beinni útsendingu á KA TV og hægt að horfa á leikinn hér. Athugið þó að vegna nettruflana fer hljóð og mynd ekki saman.

Næsti leikur stúlknanna er á föstudaginn við Fylki í Árbænum. 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband