Markalaust jafntefli gegn Keflavík

Fótbolti
Markalaust jafntefli gegn Keflavík
Daníel Hafsteins var maður leiksins í kvöld

KA tók á móti Keflavík á Akureyrarvelli í 5. umferð Pepsi deildar karla í kvöld. Fyrir leikinn var KA með 4 stig en nýliðar Keflavíkur voru með 1 stig, það var því alveg ljóst að mikilvæg stig voru í húfi og úr varð baráttuleikur.

KA 0 - 0 Keflavík

Lið KA:

Aron Elí, Hrannar Björn, Guðmann, Hallgrímur, Callum, Aleksandar, Bjarni Mark, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Daníel og Elfar Árni.

Bekkur:

Rajko, Ólafur Aron, Hjörvar, Ýmir Már, Archange, Sæþór og Steinþór.

Skiptingar:

Callum út – Hjörvar inn (’26)
Bjarni Mark út – Steinþór Freyr inn (’69)
Hallgrímur Mar út – Sæþór inn (’84)

KA varð fyrir áfalli skömmu fyrir leik en Cristian Martinez Liberato markvörður liðsins fékk heilahristing í upphitun og var sendur upp á sjúkrahús í aðhlynningu. Hinn ungi markvörður KA, Aron Elí Gíslason, fékk því tækifærið í byrjunarliðinu og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.

Strákarnir hófu leikinn af miklum krafti og pressuðu gestina stíft. Strax á fyrstu mínútu fékk Daníel Hafsteinsson fínt færi en Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur varði frá honum. KA liðið stjórnaði ferðinni og Ásgeir Sigurgeirsson fékk fínt færi eftir um kortérs leik en aftur gerði Sindri Kristinn vel í marki gestanna.

Staðan var 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og var greinilegt að liðunum gekk erfiðlega að fóta sig almennilega á Akureyrarvelli sem er ekki undir það búinn að knattspyrna sé leikin á honum um þessar mundir.

Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri, lítið um opin færi en KA ávallt líklegri til að skora. Um miðbik síðari hálfleiks átti Ísak Óli Ólafsson skalla til baka í vörn Keflavíkur og var hann heppinn að Sindri Kristinn var vel á varðbergi í markinu og kom í veg fyrir sjálfsmark.

Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur verið frá vegna meiðsla en hann kom inná þegar 20 mínútur lifðu leiks og kom með aukinn kraft í sóknarleik okkar KA manna. Löngu innköstin hans eru baneitruð og Daníel Hafsteinsson var nálægt því að skora uppúr einu slíku en á síðustu stundu komust gestirnir fyrir skot hans.

Því miður tókst ekki að koma boltanum í netið og niðurstaðan því markalaust jafntefli. KA liðið var sterkari aðilinn og hefði með smá heppni tekið öll stigin en Keflvíkingar vörðust vel. Það verður þó að segjast að ástandið á Akureyrarvelli er langt í frá boðlegt fyrir knattspyrnu á hæsta stigi hér á landi og hafði völlurinn gríðarleg áhrif á það hvernig leikurinn spilaðist.

KA er því með 5 stig eftir fyrstu 5 leikina í Pepsi deildinni. Deildin er að byrja gríðarlega jafnt og virðast öll lið geta tekið stig útúr öllum leikjum. Það hlýtur þó að styttast í að deildin skiptist og í næstu leikjum kemur í ljós hvar okkar lið ætlar sér að vera í baráttunni.

Nivea KA-maður leiksins: Daníel Hafsteinsson (Danni var mjög sýnilegur í dag, mikil barátta í honum og kom sér nokkrum sinnum í ágæt færi. Með smá heppni hefði hann getað gert sigurmark okkar en einnig var hann góður í spilinu á miðjunni.)

Næsti leikur KA er alvöru en það er útileikur gegn KR á sunnudaginn og hefst hann klukkan 17:00. Við hvetjum að sjálfsögðu alla KA-menn sem geta til að mæta og styðja okkar lið áfram enda eru næstu leikir gríðarlega mikilvægir upp á framhaldið í sumar, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband