Myndaveislur frá endurkomu KA gegn Stjörnunni

Handbolti
Myndaveislur frá endurkomu KA gegn Stjörnunni
Stemningin var magnþrungin undir lokin (mynd: EBF)

KA tók á móti Stjörnunni í 7. umferð Olís deildar karla í KA-Heimilinu í gær í gríðarlega mikilvægum leik. Bæði lið ætla sér í úrslitakeppnina í vor og munaði einungis einu stigi á liðunum fyrir leikinn og því ljóst að stigin tvö yrðu ansi dýrmæt.

Færeyingarnir tveir í liði KA þeir Áki Egilsnes og Allan Norðberg voru fjarri góðu gamni vegna veikinda og má með sanni segja að gestirnir hafi nýtt sér það í upphafi leiks. KA liðið átti erfitt með að finna taktinn sóknarlega og gestirnir fengu ófá hraðaupphlaupin.

Staðan var 4-10 fyrir Stjörnunni eftir um 14 mínútna leik og þeir Stefán og Jónatan neyddust til að taka sitt annað leikhlé til að reyna að koma strákunum í gang. Í kjölfarið kom meira jafnvægi í leikinn og hálfleikstölur voru 13-18.

Tímalína fyrri hálfleiks


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Strákarnir gerðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og fengu tækifæri á að minnka muninn niður í tvö mörk en það tókst ekki og gestirnir náðu aftur fimm marka forystu. Áfram munaði fimm mörkum á liðunum er tæpt kortér lifði leiks og í raun lítið sem ekkert sem benti til þess að KA fengi stig útúr leiknum.

En KA liðið er alls ekki þekkt fyrir að leggja árar í bát og strákunum tókst að minnka muninn niður í tvö mörk, 23-25 og 24-26, og enn voru um fjórar mínútur eftir af leiknum. Í kjölfarið fékk KA liðið möguleika á að minnka muninn í eitt mark en þess í stað tapaðist boltinn og Stjörnumenn geystust fram og juku forskot sitt aftur í þrjú mörk.

Það var því ekki bjart útlitið þegar innan við tvær mínútur lifðu leiks en Jón Heiðar Sigurðsson braust í gegn og minnkaði muninn í 25-27. KA liðið fór í framarlega maður á mann vörn sem endaði í því að Dagur Gautason stal boltanum og brotið var á honum er hann reyndi skot yfir allan völlinn. Andri Snær Stefánsson fór því á vítapunktinn og minnkaði muninn í eitt mark.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Hannesar Péturssonar frá leiknum

Boltinn var dæmdur af Stjörnumönnum er um 35 sekúndur lifðu leiks og KA liðið stillti upp í sókn, hún endaði með að Dagur fór inn úr frekar erfiðu færi í horninu en hann kláraði það glæsilega og jafnaði metin í 27-27. Enn var tími eftir á klukkunni en strákarnir gerðu frábærlega í að standa vörnina og niðurstaðan því jafntefli.

Tímalína seinni hálfleiks

Það verður að hrósa liðinu gríðarlega fyrir karakterinn að koma til baka úr stöðu sem virtist töpuð og kreista fram jafntefli. Þá sérstaklega þegar litið er til þess að það vantaði báða Færeysku vinstri handarmennina í liðið og þá náði Tarik Kasumovic sér engan veginn á strik í leiknum.

Á löngum tímum í leiknum voru allir útileikmenn liðsins uppaldir KA strákar og var virkilega gaman að sjá þá gefa sig alla í verkefnið með flottum stuðning í KA-Heimilinu.

Patrekur Stefánsson var besti maður vallarins en hann fór fyrir sóknarleiknum og gerði alls 9 mörk í leiknum. Andri Snær Stefánsson gerði 4 mörk úr vítaköstum, Dagur Gautason gerði 4 mörk, Daníel Matthíasson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Sigþór Gunnar Jónsson 2, Jóhann Einarsson 1 og Daníel Örn Griffin 1 mark.

Í markinu varði Jovan Kukobat 6 skot, þar af aðeins 1 í fyrri hálfleik og verður að viðurkennast að liðið verður að fá fleiri varða bolta til að vinna leiki.

En í heildina er niðurstaðan gríðarlega jákvæð og var hrikalega gaman að upplifa stemninguna í húsinu þegar mest á reyndi. Það er ekki nokkur spurning að KA-Heimilið er besta handboltahús landsins og er hvergi betra að vera þegar við náum upp þeirri stemningu sem ríkti í gær.

Næsti leikur er strax á laugardaginn er strákarnir sækja Framara heim í Safamýrina og er um annan risaleik að ræða þar en aðeins munar einu stigi á liðunum og væri ansi sterkur leikur að sækja útisigur um helgina. Vonandi verða Færeyingarnir tveir búnir að ná sér fyrir þann slag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband