Nökkvi Þeyr lék fyrsta A-landsleikinn

Fótbolti
Nökkvi Þeyr lék fyrsta A-landsleikinn
Nökkvi og Bjarni eru í landsliðshópnum í Portúgal

Íslenska landsliðið í knattspyrnu lék í dag vináttuleik við Eistland en leikið var á Estadio Nora í Portúgal og fóru leikar 1-1. Nökkvi Þeyr Þórisson lék sinn fyrsta A-landsleik en KA átti tvo fulltrúa í hópnum en það eru þeir Nökkvi og Bjarni Mark Antonsson.

Nökkvi Þeyr sem kjörinn var íþróttakarl KA fyrir árið 2022 í gær var í byrjunarliði Íslands og lék rúmlega 60 mínútur. Áður hafði hann leikið einn leik með U15 ára landsliði Íslands gegn Finnum á Ólympíuleikum ungmenna árið 2013. Eins og flestum er kunnugt leikur Nökkvi í dag með Belgíska liðinu Beerschot en hann varð markakóngur Bestu deildarinnar og valinn besti leikmaður deildarinnar á síðasta sumri.

Bjarni Mark ekki við sögu í leiknum en hann hefur leikið tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Áður hafði hann leikið í vináttulandsleikjum gegn Kanada og El Salvador í janúar 2020 sem báðir unnust 1-0 og var Bjarni í byrjunarliðinu í leiknum gegn El Salvador og lék allan leikinn.

Bjarni sló í gegn hjá KA, þá sérstaklega sumarið 2018 og var valinn leikmaður ársins af Schiöthurum stuðningsmannasveit KA. Hann var í kjölfarið seldur til sænska liðsins IK Brage þar sem hann lék í þrjú ár. Í janúar árið 2022 gekk Bjarni í raðir IK Start í Noregi þar sem hann leikur í dag.

Íslenska liðið leikur annan vináttuleik á fimmtudaginn þegar strákarnir mæta Svíum og fer sá leikur einnig fram í Portúgal. Vonandi fær Bjarni tækifærið í þeim leik en Nökkvi verður ekki til taks þar sem hann verður farinn aftur til Belgíu til liðs Beerschots.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband