Sigur í fyrsta heimaleiknum

Fótbolti
Sigur í fyrsta heimaleiknum
Seinna mark KA / Mynd - Egill Bjarni Friðjónsson

KA lagði ÍBV af velli í 3. umferð Pepsi deildarinnar á Akureyrarvelli í dag. Mörk KA skoruðu þeir Elfar Árni Aðalsteinsson og Ásgeir Sigurgeirsson.

KA 2 - 0 ÍBV
1 - 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’21) Stoðsending: Hrannar Björn
2 - 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’55) Stoðsending: Elfar Árni

Lið KA:

Cristian Martinez, Hrannar Björn, Guðmann, Hallgrímur J, Callum, Aleksandar, Bjarni Mark, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Daníel og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Elí, Ólafur Aron, Hjörvar, Ýmir Már, Archange, Sæþór og Frosti.

Skiptingar:

Ásgeir út – Hjörvar inn (’74)
Daníel út – Archange inn (’82)
Aleksandar út – Ólafur Aron inn (’87)

KA gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá tapinu gegn Fylki í síðustu umferð. Guðmann kom inn í liðið eftir að hafa tekið út leikbann í fyrstu tveimur umferðunum fyrir Archange sem tók sér sæti á bekknum. Um var að ræða fyrsta heimaleik sumarsins hjá KA og kemur Akureyrarvöllur ekki nægilega vel undan vetri og var því viðbúið að baráttan yrði ríkjandi í þessum leik.

Upphafsmínútur leiksins voru ekkert sérlega skemmtilegar og voru bæði lið að reyna að fóta sig á vellinum og var lítið um það að liðin næðu að halda boltanum og koma upp einhverju spili.

Á 21. mínútu vann Callum boltann laglega á miðjunni og gaf hann á Hallgrím Mar sem gaf fyrir og endaði boltinn á fjærstönginni hjá Ásgeiri sem átti laglega hælsendingu inn í teig á Hrannar Björn sem stakk sér framhjá varnarmönnum ÍBV og gaf á Elfar Árna sem virtist vera missa boltann frá sér en náði að skjóta boltanum framhjá markverði ÍBV koma KA yfir 1 – 0.

Eftir markið sóttu Eyjamenn eilítið meira að marki KA án þess þó að skapa sér hættuleg marktækifæri og staðan í hálfleik 1 – 0 KA í vil.

KA liðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik og tók liðið leikinn yfir. Eftir tíu mínútna leik bætti KA liðið við marki. Daníel átti þá hornspyrnu sem Hallgrímur J skallaði að marki en markvörður ÍBV varði út í teig þar sem Elfar Árni skallaði boltann í stöngina af stuttu færi og fylgdi Ásgeir því vel eftir og kom boltanum yfir línuna af stuttu færi og kom KA verðskuldað í 2 – 0.

Fátt markvert gerðist leiknum þangað til í uppbótartíma þegar að Eyjamenn komust nálægt því að minnka muninn eftir lélega markspyrnu frá Cristian sem sendi beint á sóknarmenn ÍBV en Cristian gerði hins vegar að vel að verja frá Shahab í algjöru dauðafæri.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og sanngjarn sigur KA því staðreynd. Ánægjulegt var að sjá varnarleik KA í dag en liðið gaf fá færi á sér og skilaði varnarlínan svo sannarlega sínu í dag.

Nivea KA-maður leiksins: Bjarni Mark Antonsson (Var öflugur á miðjunni hjá KA í dag. Mikilvægur í uppspili liðsins ásamt því að vera fastur fyrir í návígum.)

Næsti leikur KA er á fimmtudaginn gegn FH og fer sá leikur fram í Kaplakrika kl. 18.00 og hvetjum við KA fólk til að fjölmenna á völlinn. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband