Stórkostlegur endurkomusigur í Mosó!

Blak
Stórkostlegur endurkomusigur í Mosó!
Þvílíkur karakter í okkar liði! (Þórir Tryggva)

Það var heldur betur eftirvænting fyrir toppslag Aftureldingar og KA í Mizunodeild kvenna sem fór fram í kvöld. Þarna mættust liðin sem börðust um Deildarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð auk þess sem fyrri leikur þeirra í vetur fór í oddahrinu þar sem Mosfellingar fóru með sigur af hólmi.

Leikurinn stóð klárlega fyrir sínu en það var jafnt á nánast öllum tölum í fyrstu hrinu en undir lokin komst KA í góða stöðu 22-24 og vantaði aðeins eitt stig til að knýja fram sigur í hrinunni. En Mosfellingar gáfust ekki upp og gerðu næstu fjögur stig og unnu því 26-24.

Liðin skiptust svo á að leiða í næstu hrinu og var spennan mikil í loftinu. En þegar mest á reyndi voru það liðsmenn Aftureldingar sem voru sterkari og þær náðu að skilja sig frá okkar liði og unnu að lokum 25-19 sigur og því komnar í 2-0.

Enn var hart barist í þeirri þriðju og var leikurinn stál í stál en rétt eins og í annarri hrinu voru það heimastúlkur sem náðu að skilja sig frá og þær komust í 20-15 og 23-18 forystu. Útlitið var orðið ansi svart í stöðunni 24-20 og Afturelding einu stigi frá því að klára leikinn í aðeins þremur hrinum. En það býr svakalegur karakter í okkar liði og stelpurnar börðust grimmt fyrir hverju einasta stigi og úr varð mögnuð endurkoma. Næstu sex stig voru okkar og ótrúlegur 24-26 sigur vannst því í þriðju hrinu.

Það var því leikin fjórða hrina þar sem Afturelding komst í 6-2 áður en kviknaði aftur á stelpunum og þær komust í 6-7. Áfram héldu þær að þjarma að Mosfellingum og komust í 9-15 forystu sem endaði með 19-25 sigri í fjórðu hrinu og stelpurnar búnar að knýja fram oddahrinu og öruggar með stig hið minnsta útúr leiknum sem virtist tapaður í þriðju hrinu.

Spennan í oddahrinunni var magnþrungin og var jafnt á öllum tölum upp í 9-9 er Afturelding komst í 12-9 og enn var því staðan orðin erfið fyrir okkar lið. En karakterinn kom enn og aftur fram í okkar magnaða liði sem gerði næstu sex stig og hrifsaði þar með sigurinn 12-15 til sín og stórkostleg endurkoma þar með fullkomnuð!

Þetta var fyrsta tap Aftureldingar í vetur og frábær leið til að kvitta fyrir tapið gegn þeim á heimavelli í haust. Það var æðislegt að fylgjast með baráttunni og stemningunni hjá stelpunum og vonandi að þær nái að halda þessu áfram í næstu leikjum. Það stefnir allt í svakalega toppbaráttu milli KA, Aftureldingar og HK og ljóst að hvert einasta stig mun telja ansi mikið þegar upp verður staðið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband