Stórkostlegur sigur KA í toppslagnum

Blak
Stórkostlegur sigur KA í toppslagnum
Stelpurnar gátu heldur betur fagnað í leikslok!

KA vann heldur betur glæsilegan og mikilvægan 3-0 sigur á Aftureldingu í uppgjöri toppliða úrvalsdeildar kvenna í blaki í kvöld. Fyrir leikinn voru liðin jöfn og langefst í deildinni en KA lagði Aftureldingu í Mosfellsbænum og Afturelding vann sigur í KA-Heimilinu fyrr í vetur en það eru einu töp liðanna í deildinni.

Skammt er eftir af deildarkeppninni og ljóst að það lið sem færi með sigur af hólmi í kvöld væri í algjörri lykilstöðu að hampa titlinum. Stelpurnar okkar komu gríðarlega vel stemmdar til leiks, einbeitingin skein af þeim og spilamennskan frábær. Gestirnir gáfu að sjálfsögðu lítið eftir en þær gerðu ögn fleiri mistök og fyrir vikið var það KA sem hafði frumkvæðið í leiknum.

KA tók forystuna 1-0 með 25-19 sigri í fyrstu hrinu, stelpurnar þjörmuðu að Mosfellingum sem lentu í vandræðum með varnarleikinn sinn auk þess sem að gestirnir gerðu þó nokkur mistök í uppgjöfum.

Strax í upphafi annarrar hrinu varð KA liðið fyrir gífurlegu áfalli er Gígja Guðnadóttir fyrirliði meiddist og var gert hlé á leiknum. KA hafði komist í 4-1 en greinilegt að stelpurnar okkar voru í smá áfalli eftir meiðsli Gígju og tók smá tíma að ná taktinum upp að nýju. En það býr svakalegur karakter í liðinu og stelpurnar náðu áttum á ný og leiddu allan tímann.

Afturelding kom með nokkur áhlaup en aldrei tókst þeim að brjóta okkar lið á bak aftur og að lokum vannst gríðarlega mikilvægur 25-22 sigur í hrinunni og KA því komið í 2-0 stöðu.

Leikurinn breyttist þó töluvert í þriðju hrinu, okkar lið sem hafði gert fá mistök fór að klikka uppgjöfum og fleira sem hélt gestunum heldur betur inni í leiknum en öflugur sóknarleikur stelpnanna réði að lokum baggamunninn og vannst þriðja hrinan 25-21 og leikurinn því samtals 3-0. Stelpurnar gerðu alls 15 stig úr smössum í lokahrinunni sem er álíka mikið og í fyrstu og annarri til samans.

Stórkostleg frammistaða hjá liðinu og baráttuandinn skein af liðinu. Það var alveg sama hvað kom upp, alltaf héldu stelpurnar áfram að sækja og spila sinn leik. Það sást bersýnilega að liðið var gríðarlega vel undirbúið og klárt í slaginn. Það er líka mikill kostur hve margir leikmenn eru komnir á þann stall að geta skilað sínu í stærstu leikjunum og hve fjölbreyttan sóknarleik liðið spilar.

Stelpurnar eru nú með pálmann í höndunum þegar þrír leikir eru eftir af deildarkeppninni og búnar að leggja Íslandsmeistara Aftureldingar að velli tvívegis í vetur. Það er þó ekkert öruggt ennþá og klárt að stelpurnar þurfa að spila áfram af sama krafti til að tryggja titilinn en þær geta svo sannarlega glaðst í kvöld.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband