Þór/KA með góðan sigur á Linfield

Fótbolti
Þór/KA með góðan sigur á Linfield
Flott byrjun hjá stelpunum (mynd: Þórir Tryggva)

Baráttan er hafin hjá Þór/KA í Meistaradeild Evrópu en í kvöld mættu stelpurnar liði Linfield Ladies í fyrstu umferð undanriðils keppninnar. Riðillinn fer fram í Norður-Írlandi og það einmitt á heimavelli Linfield. Fyrr í dag vann Ajax öruggan 4-1 sigur á Wexford Youths en aðeins efsta liðið í riðlinum er öruggt með sæti í næstu umferð og því mikilvægt fyrir okkar lið að halda í við Ajax.

Þór/KA 2 - 0 Linfield 
1-0 Ariana Calderon ('12) 
2-0 Sandra Mayor ('83)

Fyrirfram var búist við sigri okkar liðs en eins og við þekkjum öll að þá vinnast leikir ekki fyrirfram og var því flott að sjá hve vel stelpurnar mættu til leiks. Á 12. mínútu kom fyrsta markið og það gerði Ariana Calderon eftir góða sendingu frá Andreu Mist Pálsdóttur.

Skömmu síðar fékk Þór/KA vítaspyrnu en Söndru Mayor brást bogalistin og staðan því enn 1-0. Yfirburðir okkar liðs voru ansi miklir og var ekki mikil hætta á að heimastúlkur næðu jöfnunarmarkinu. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik en þrátt fyrir yfirburðina þá er alltaf hætta til staðar í stöðunni 1-0 og klárt mál að stelpurnar ætluðu sér meira.

Síðari hálfleikurinn var svipaður og sá fyrri, Þór/KA mikið mun betri aðilinn og áttu stelpurnar til að mynda 15 hornspyrnur í leiknum gegn einni. Sem betur fer kom markið á endanum þegar Sandra Mayor bætti upp fyrir vítaklúðrið á 83. mínútu og lokatölur 2-0.

Eins og áður segir voru yfirburðir okkar liðs gríðarlegir en Linfield náði ekki skoti á markið á sama tíma og Þór/KA átti 27 marktilraunir. Sigur í hús og eftir fyrstu umferðina eru stelpurnar því jafnar Ajax á toppnum en næsti leikur er á föstudaginn gegn Wexford. Sigur í þeim leik tryggir hreinan úrslitaleik við Ajax um sæti í 32-liða úrslitum keppninnar og því mikilvægt að stelpurnar haldi áfram þessari góðu spilamennsku.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband