4 dagar í leik - Vinir Sagga: Viljum fá alla með okkur í þetta

Það eru nokkrir miklir KA-menn sem eru líklegast manna spenntastir fyrir sumrinu. Síðasta sumar settu þeir skemmtilega gulan svip á stúkuna með söngvum og stuðningi og þarna er ég að sjálfsögðu að tala um strákana í stuðningsmannafélaginu Vinir Sagga sem hafa svo sannarlega glætt stúkuna á Akureyrarvellinum nýju lífi með tilkomu sinni.

Sumarið 2007 byrjuðu þeir að mæta á KA-leiki en þá hjá 2. flokki og undirhaustið einnig á leiki meistaraflokks. Sumarið í fyrra gerðu þeir svo enn betur, sömdu hnyttna söngva, stóðu fyrir uppákomum fyrir leiki, fengu fólk í lið með sér og stóðu við bakið á liðinu hvernig sem gekk inni á vellinum.

Þeir ætla að gera enn betur í sumar og eru m.a. búnir að láta hanna nýjan bol sem kynntur verður á kynningarfundinum hjá þeim á fimmtudagskvöldið.

Heimasíðan settist niður með formanni félagsins, Siguróla Magna og varaformanninum, Bjarna Jónasar, og ræddi við þá um komandi sumar og stuðningsmannafélagið þeirra.

,,Markmið okkar fyrir sumarið eru að styðja KA-liðið, í blíðu jafnt sem stríðu og hjálpa þeim að koma sér upp í úrvalsdeild. Að okkar mati erum við 12. maðurinn á vellinum og það hlýtur að vera forskot fyrir KA-menn að vera einum fleiri inn á vellinum heldur en andstæðingarnir."

,,Að sjálfsögðu er það markmið okkar að gera betur en í fyrra þó svo að síðasta sumar hafi farið fram úr okkar væntingum. En það væri ekki leiðinlegt að bæta við sig mönnum og halda áfram með okkar markmið, að gera stúkuna gula."

,,Í stjórn Vina Sagga erum við sirka 7-8 og eru það menn sem mæta á alla leiki. Auðvitað eigum við fleiri meðlimi sem mæta með okkur og standa sig eins og hetjur, það má laltaf betur gera og er það eitt af okkar markmiðum sem var samþykkt á ársfundi okkar að fá fleiri meðlimi inn."

,,Það er enn það langt í leikinn að við gerum okkur ekki grein fyrir því strax hvort einhver fjölgun verður, en Facebookið er virkilega að stuðla að fleiri meðlimum."

Í upphafi létu þeir útbúa gulan bol með merki félagsins að framan og hafa þeir selt þá boli á leikjum og á heimavelli sínum, sportbarnum Allanum. Núna er búið að útbúa aðra tegund af bolum sem kynntir verða á kynningarfundi þeirra annað kvöld en þeir verða einnig til sölu þar.

,,Það verður ein gríðarlega flott nýjung, kynnt á kynningarkvöldinu á fimtudaginn. Annars ætlum við að vera duglegri að ferðast út á land til að styðja liðið."

Þeir vöktu athygli síðasta sumar fyrir skemmtilega söngva um leikmenn og KA-liðið en ætla þeir að bjóða upp á einhverja nýja söngva í sumar?

,,Jújú, einn og einn ný rsöngur hefur litið dagsins ljós en aðallega höfum við tekið út langlokurnar sem er erfitt að læra og ætlum við að vera með stutta og stemningsmikla söngva."

,,Við viljum benda á það, enn einu sinni að við erum í þessu til að hafa gaman að þessu. Svo virðast alltaf vera einn og einn sem halda að við séum ekki góð fyrirmynd en það er ekki rétt. Þetta er fjölskylduklúbbur og við viljum fá alla með okkur í þetta, unga sem aldna,"
sögðu  þeir félagar að lokum og hvetja alla til að mæta á kynningarfundinn sem fer fram á sportbarnum Allanum kl. 20:00 á fimmtudagskvöldið.