Arnar Már Arngrímsson skrifar:
Við þurfum að lesa og við þurfum að hreyfa okkur og við þurfum að læra góð samskipti. Þetta er kjarninn í öllu uppeldi.
Þetta merkir ekki að allir þurfi að lesa Jón Kalman, að komast í landsliðið eða að vera eins og fiskur í vatni innanum fólk. Það er í góðu lagi að lesa Syrpur eða rauðu ástarsögurnar, fara i göngutúr og hlaupa ekki í burtu frá fólki.
Þetta eru ekki miklar kröfur en nú á dögum er ekki hlaupið að því að ná þessu lágmarki.
Netið og skjárinn gefa, netið og skjárinn taka; ræna okkur tíma og grafa undan hugarró. Ég hef séð glöð börn detta ofan í leiki og spjall og stúss í i-pad, snjallsíma eða tölvu en ég hef aldrei sé glatt barn leggja tækin frá sér fimm tímum síðar.
Þegar maður lítur yfir sviðið er ekki að sjá að staða barna sé verri en fyrir 20 árum en þeir sem hafa starfað með börnum áratugum saman, s.s. sjúkraþjálfarar, kennarar, íþróttaþjálfarar og sálfræðingar sjá afleiðingar breyttra samfélagshátta sem eru til dæmis hreyfingarleysi, kvíði og félagsfælni. Því ber að sjálfsögðu að halda til haga að frábær árangur hefur líka náðst á þessum síðustu og verstu tímum: guðinn brennivín virðist til að mynda ekki jafn voldugur og hann var hér í eina tíð.
Það er ekkert sem keppir við Netið og Skjáinn. Möguleikar á stuði og skemmtun eru óendanlegir, og af hverju ætti maður að velja eitthvað annað en stuð? Við tölum gjarnan um aga, sjálfstjórn og að maður eigi BARA að koma sér upp slíkum vopnum. Við fullorðna fólkið eigum fullt í fangi með allar heimsins freistingar, hvernig getum við ætlast til þess að börnin læri að stuðið og skjáinn beri að spara? Sérstaklega þar sem það vorum við sem réttum þeim tækin til að fá frið.
Enn er það samt svo að maður er manns gaman og því brjóta margir krakkar upp skjáinn af og til og koma til dæmis hingað í KA-heimilið í leit að svita og raunverulegri upplifun.
Börn þurfa rútínu og skýran ramma
Mér er mjög uppsigað við skipulag vinnudags íslenskra skólabarna. Það er ekkert nema vanræksla að börn frá 7-8 ára aldri séu ein heima frá því skóla lýkur kl. 13 þangað til foreldrar koma heim seinnipartinn. Og þá hefst skutlið.
Íþróttir fá fyrir einhverja miskunn að hanga inni í skólakerfinu en kallast þar leikfimi. Alvöru íþróttir eru stundaðar eftir skóla. Þeir sem hafa sérstakan áhuga á þeim hafa hingað til þurft að flýja land en þar eru til skíðaskólar og júdóskólar. Reyndar skilst mér að spennandi hlutir séu að gerast hvað þetta varðar, sbr. íþróttabraut VMA og íþróttadeild í háskólanum.
Ég vil sjá heildstæðan vinnudag barna frá 8.30 17.30 fram að 16, jafnvel 18 ára aldri. Þar sem hefðbundið nám, íþróttir, listgreinar og áhugamál fléttast saman. Burt með þessa eyðu frá eitt til fjögur.
Það þarf að bjóða upp á valkost við netið og skjáinn, eitthvað uppbyggilegt til að gera á milli 13-16, það má vera hangs. Ég hef heyrt hugmyndir um KA-heimilið sem félagsmiðstöð, vonandi mun eitthvað gerast í þeim efnum. Ég myndi ekki gráta það ef strákurinn minn eyddi hér tíma á undan æfingu. Kannski í billiard eða skák, kannski gæti hann gluggað í Andrés eða Lifandi vísindi eða íslenska knattspyrnu frá 1989 eða fíflast í salnum ef lítið er um að vera.
Út!
Við eigum að fagna vetrinum en ekki bíða eftir vorinu. Akureyri er skíðabær. Við eigum að nýta okkur það og vera úti í öllum veðrum. Skólarnir fara einu sinni á önn með krakkana á skíði, hér áður fyrr tíðkaðist að gefa útivistarfrí í framhaldsskólunum, það er liðin tíð. Það er svo mikilvægt að nýta alla daga skólaalmanaksins í að sitja við borð með fætur í 90 gráðum og hangandi haus. Spænskur vinur minn er fæddur í Pýraneafjöllunum, í litlum bæ sem heitir Graus. Hann líkist Akureyri að mörgu leyti með skíðasvæði í seilingarfjarlægð. Skólabörn þar um slóðir eyða einum degi í viku á skíðum. Þar skilja menn að hreyfing og útivist er ekki uppbrot frá kennslu heldur sjálf menntunin í allri sinni dýrð.
Ég á það til að detta niður í sófann og eymdina í janúar en upp á síðkastið hef ég skroppið í fjallið af og til eftir vinnu. Það er gamall maður sem keyrir upp í fjall en nýr sem plægir Strýtuna með haglið í andlitinu. Það viðrar ekki alltaf vel til alpagreina en það er í raun ekkert til sem heitir vont veður. Við ættum að taka Norðmanninn á þetta og festa gönguskíði á smábörnin og henda þeim út og skautarnir! Það er fínt að hafa yfirbyggt skautasvell en hvar hafa útisvellin verið í frosthörkunum síðustu tvo mánuði?
Brottfall úr íþróttum og framhaldsskóla
Brottfall á ekki að vera sjálfsagt mál.
Hvað gerum við þegar krakki hættir að mæta á æfingar eftir 10 ár? Yppum við öxlum? Höfum við uppi á viðkomandi og tökum stöðuna? Kannski eru það bara smáatriði í samskiptum sem er orsökin. Kannski mætti bjóða upp á aðra íþrótt, aðra stöðu á vellinum ef um hópíþrótt er að ræða eða minna álag. Kannski mætti benda á annað félag eða smá pásu. Kannski er framkoma þjálfarans vandamálið og líklegast hefur hann ekki hugmynd um málið en er meira en tilbúinn í að bæta sig.
Lið eru skrýtin fyrirbæri og hópurinn hefur stundum of lítið þol gagnvart þeim sem eru öðruvísi. Gott lið, gott samfélag verður að hafa þol gagnvart sérvisku og mótmælum. Það eru þessir skrýtnu, þeir sem hugsa öðruvísi sem gera gæfumuninn í hverju liði, hverju samfélagi. Sá sem þorir að hunsa fyrirmæli þjálfarans af því að ný staða kom upp í leiknum. Frægar sögur eru til af þjálfurum sem refsa leikmönnum sem skoruðu eftir að hafa hunsað fyrirmæli. Ég gef lítið fyrir svoleiðis stæla.
Tilgangurinn með þessu
Ég hef fylgst með syni mínum í fótboltanum undir stjórn margra góðra þjálfara: það gat verið súrt að sjá þá tapa stórt fyrir Þór, mér fannst alltaf vanta eitthvað upp á baráttuna og viljann til að skora mörk og landa sigri. En þeir fylgdu einfaldlega skýrri hugmyndafræði, að læra grundvallaratriði, að láta boltann ganga frá markmanni, að halda boltanum niðri. Enn er of snemmt að heimta ríkulega uppskeru en svei mér þá ef það er ekki eitthvað í loftinu. Það er gaman að vinna sigra í yngri flokkunum en markmiðið er að koma nokkrum upp í meistaraflokk, einum og einum í atvinnumennsku og gera alla að betri manneskjum.
Oft þurfa menn ekki nema eitt orð, smá áhuga frá þjálfara. Það er alltaf pláss fyrir hrós, Ég hef tekið eftir því að þú kemur alltaf stundvíslega á æfingar Ég tek eftir því að þú hvetur alltaf liðsfélagana. Við sem þjóð erum lítið fyrir að hrósa. Broskall eða góð einkunn kemur ekki í staðinn fyrir hrós. Hrós á að vera einlægt og nákvæmt. Ég hef líklega fengið mitt fyrsta hrós í íþróttum frá Gassa í 4. flokki. Maður gleymir aldrei einlægu hrósi.
Það er gaman að ná árangri en til lengri tíma litið er mikilvægara að hafa verið hluti af stærri heild sem lagði grunn að betra samfélagi.
KA-menning
Í mínum huga ríkir góð menning í KA en alltaf má gera betur.
Á keppnisferðalögum eigum við að bera af þegar kemur að umgengni, framkomu við starfsfólk, mótherja og dómara. Við eigum að vera til fyrirmyndar inni á vellinum. Fátt er fallegra en íþróttamannsleg hegðun. Þær eru fáar en ógleymanlegar sögur af leikmönnum sem hafa hafnað vítaspyrnum vegna þess að þeir höfðu rangt við og mér þykir alltaf jafn vænt um þegar stuðningsmenn klappa hinu liðinu lof í lófa fyrir sérstaklega góða frammistöðu.
Guðjón Þórðarson skammaði menn fyrir sorríhreyfingar. KA-menn hengja ekki haus, ranghvolfa augum eða grípa um höfuð sér. Við höldum einfaldlega áfram.
KA-menn eru ekki áskrifendur að status og stöðu innan liðsins.
KA-menn þora að gera mistök.
KA-menn eru frumlegir. Ég spilaði blandaðan handbolta í háskóla útí Þýskalandi; bæði kyn, fólk á aldrinum 20 60 ára. Handboltamaður æfir líka júdó, enda í grunninn sama íþróttin. Knattspyrnumaður stundar skíði og uppsker læri eins og Miroslav Klose.
KA-menn þora. Mig minnir að Egill Ármann hafi gert uppreisn gegn snjallsímum á keppnisferðum.
KA-menn fagna fjölbreytni. Og eru vakandi gagnvart líðan iðkenda. KA-menn mega vera þunglyndir og kvíðnir.
KA-menn þora að vera glaðir. Það held ég að meiri glans væri yfir íslenska landsliðinu í handbolta ef maður á borð við Jónatan Magnússon væri í liðinu. Alvara er góð en maður þarf ekki að vera á svipinn inni á vellinum eins og maður sé að gera við bilaða skólplögn.
Áfram KA.