Hátt í tvöhundruð manns komu á KA-daginn 8. janúar sl. Mynd: Þórir Tryggvason.
Eftirfarandi pistil flutti Sigfús Karlsson á afmælishátíðinni.
Ágætu KA félagar. Það er orðin ágæt hefð hér í þessu afmælishófi að stikla á stóru í
því sem gerst hefur í félaginu okkar á liðnu ári. Hér kemur því annáll fyrir árið 2011.
Félagsstarfið hefur verið blómlegt á árinu og árangur allra deilda verið viðunandi, hvort sem við mælum árangurinn inni á
íþróttavellinum eða í félags- og uppeldisstarfi. KA hefur verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ undanfarin 5 ár og var sá
gæðastimpill á félaginu endurnýjaður í byrjun árs.
Hjá íþróttafólkinu okkar skiptast auðvitað á skin og skúrir, við fáum útrás á
íþróttavellinum, fögnum sigrum, eða förum í fýlu yfir tapi og hvort tveggja er eitthvað til að læra af og styrkja okkur.
Félagið átti 26 landsliðsmenn á árinu og hafa þeir líklega aldrei verið fleiri.
Nú mun ég fara yfir starfsemi deildanna fjögurra í nokkrum orðum.
Knattspyrnumenn í KA bjuggu við sérlega erfiðar aðstæður á liðnu sumri. KA-svæðið kól meira og verr en elstu menn muna og
því einkenndist fyrri hluti sumars af því að endurheimta græna litinn á svæðinu, og æft var í Boganum.
Í ljósi aðstæðna var aðdáunarvert að knattspyrnuiðkendur voru vel á fimmta hundrað. Ekki síður er athyglisvert að
mjög góður árangur náðist í yngri flokkum félagsins, en lengst náði A-lið 5. flokks kvenna, sem hlaut silfurverðlaun.
Fimm leikmenn yngri flokka spiluðu landsleiki á árinu og mun fleiri voru kallaðir á landsliðsæfingar.
Meistaraflokkur karla endaði í 8. sæti 1. deildar. Keppnistímabilið fór vel af stað, en síðan kom langur og erfiður kafli. Liðið
náði sér síðan ágætlega á strik síðari hluta mótsins og var með þriðja besta árangurinn úr seinni
umferðinni. Þjálfarar liðsins voru Gunnlaugur Jónsson og Ingvar Már Gíslason og verða þeir áfram með liðið á þessu
ári.
Handknattleiksdeildin starfar eins og undanfarin ár án meistaraflokks karla sem leikur undir merkjum Akureyri Handboltafélags og allir kvennaflokkar eru reknir í
góðu samstarfi við Þór. Árangur kvennaliðs KA/Þórs í meistaraflokki, á síðasta keppnistímabili var
ágætur, en liðið endaði í 2. sæti í 2. deild og varð svo deildarmeistari eftir úrslitakeppni. Til að fylgja eftir þessum
góða árangri leikur liðið nú í N1 deildinni og þar er nokkuð á brattann að sækja.
Hápunktur síðasta árs var án efa Bikarmeistaratitill í 3. fl. karla. Strákarnir stóðu sig frábærlega undir
stjórn Einvarðs Jóhannssonar. Aðrir flokkar stóðu sig á viðunandi hátt og tveir strákar og fjórar stelpur léku með
yngri landsliðum á árinu. Fjöldi þeirra sem stunda handbolta hjá félaginu eru um 280.
Starfsemi blakdeildar var með hefðbundnu sniði og sendi bæði lið í meistaraflokki karla og kvenna auk fjölmargra yngri flokka. Iðkendur hjá
deildinni eru nú um 100 talsins. Meistaraflokkur karla endurtók afrek sitt frá árinu áður og varð þrefaldur meistari, deildarmeistari,
bikarmeistari og Íslandsmeistari. Kvennaliðinu gekk ágætlega en vann ekki til verðlauna. Á þessu tímabili hafa bæði lið lent
í miklu mótlæti, en við því var búist, því margir eldri leikmenn hafa horfið á braut. Starf yngri flokkanna gekk vel á
síðasta keppnistímabili og var 3. fl. karla Íslandsmeistari en starfið fór svo rólega af stað eftir sumarfrí. Blakdeildin átti 11
landsliðsmenn á árinu þannig að framtíðin er björt.
Júdódeildin heldur áfram að skilar góðum árangri. Það er árlegt að röð Íslandsmeistara komi frá deildinni
auk þess sem keppendur júdódeildar ná á hverju ári frábærum árangri erlendis. Árið 2011 var engin undantekning en 13
Íslandsmeistarar komu í hús á árinu. Auðvitað fengu KA menn líka aragrúa af silfur- og bronsverðlaunum. Til gamans má geta
þess að júdómenn KA hafa unnið til 111 verðlauna á alþjóðlegum mótum og Íslandsmeistaratitlarnir eru orðnir 472.
Þetta er frábær árangur.
Iðkendur Júdódeildar eru nú um 100 og þó strákarnir séu í meirihluta þá á deildin öfluga sveit kvenna. 4
júdómenn voru valdir í landslið á árinu 2011.
Þegar búið er að fara yfir árangur íþróttafólksins verður einnig að minnast allra stjórnarmanna, þjálfara og
aðstandenda sem styðja við bakið á keppendunum. Að venju var í nógu að snúast hjá þeim við skipulagningu æfinga,
ferðalaga, þjálfaramál og auðvitað að afla peninga. Kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf fyrir félagið.
Aðalstjórn félagsins er nú skipuð þeim Hrefnu Torfadóttur formanni, Sigurði Harðarsyni, Sigurbirni Sveinssyni, Sigríði
Jóhannsdóttur og Þorbirni Guðrúnarsyni en hann tók við af Tryggva Gunnarssyni snemma á árinu. Að auki sitja svo formenn deilda í
stjórninni. Þá er rétt að geta þess að Gunnar Jónsson framkvæmdastjóri síðastliðin 12 ár lét af
störfum um áramótin og hefur Sævar Pétursson verið ráðinn í hans stað.
Helstu verkefni aðalstjórnar eru samskipti við Akureyrarbæ í sambandi við aðstöðu til æfinga. Á liðnu sumri var unnið að
breytingum á stúku Akureyrarvallar. Þeirri framkvæmd er að stærstum hluta lokið, en þó er eftir að setja sæti í
stúkuna, sem þarf til þess að völlurinn uppfylli kröfur leyfiskerfis KSÍ. Nýtt gólf var sett á
íþróttahúsið og er það alger bylting fyrir handbolta- og blakfólk.
Einn hóp á eftir að nefna en það eru styrktaraðilar í bænum og reyndar á öllu landinu, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
Þeim er þakkaður stuðningurinn. Ég held að á engan sé hallað þó Útgerðarfyrirtækinu Samherja sé enn
og aftur þakkað sérstaklega fyrir ótrúlegan stuðning við íþróttastarf á Akureyri og þar á meðal við okkur KA
menn. Kærar þakkir Samherji.
Þá er þessari stuttu yfirferð yfir starf félagsins 2011 lokið og við horfum björtum augum á árið 2012. Áfram KA.