Annar 0-3 sigur og stelpurnar áfram í bikarnum

Blak
Annar 0-3 sigur og stelpurnar áfram í bikarnum
Sigrarnir hrannast inn í blakinu

Annan daginn í röð voru leikir hjá karla- og kvennaliðum okkar í blaki á Álftanesi. Karlaliðið mætti heimamönnum aftur í Mizunodeildinni en kvennaliðið okkar mætti Álftanesi 2 í Kjörísbikarnum. Bæði lið unnu 0-3 sigra í gær og mátti því reikna með áframhaldandi sigurgöngu í dag.

Karlarnir hófu daginn og náðu fljótt góðri stöðu í fyrstu hrinu. Staðan var orðin 8-15 og útlitið ansi gott þegar Álftnesingar tóku kipp og minnkuðu muninn í 14-16 og skyndilega orðin spenna í hrinunni. Sem betur fer tókst strákunum að gefa aftur í og unnu að lokum 22-25 sigur eftir að hafa komið forystunni aftur í fimm stig.

Lið Álftanes hélt áfram að gera okkar öfluga liði lífið leitt og þeir leiddu næstu hrinu nær allan tímann þó aldrei væri KA liðið langt undan. Staðan var 20-18 þegar skammt var eftir en eins og svo oft áður í vetur þá var endakaflinn okkar og KA liðið vann að lokum 23-25 og staðan orðin 0-2 eftir tvær hörkuhrinur.

Sama spenna virtist ætla að einkenna þriðju hrinuna og var jafnt 8-8 þegar okkar lið gerði fimm stig í röð og komst síðar í 10-18. Í þetta skiptið slökuðu strákarnir ekki á klónni og unnu afar sannfærandi 16-25 sigur og þar með leikinn 0-3. Í dag tapaði lið HK svo gegn Þrótti Nes. 3-1 sem gerir það að verkum að KA þarf aðeins eitt stig í viðbót til að tryggja Deildarmeistaratitilinn.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur hjá KA í dag með 19 stig, Alexander Arnar Þórisson gerði 9, Mason Casner 7, Stefano Nassini Hidalgo 6, Sigþór Helgason 4, Filip Pawel Szewczyk 4 og Þorvaldur Marteinn Jónsson 1 stig.

Þá var komið að stelpunum sem fyrirfram áttu auðveldan leik fyrir höndum gegn Álftanesi 2. Fyrsta hrinan varð ansi auðveld og KA liðið leiddi fljótt 6-16 og vann á endanum 12-25 sigur. En heimakonur höfðu nákvæmlega engu að tapa í leiknum og þær komu öflugar inn í næstu hrinu. Liðin skiptust á að leiða og var töluvert um sveiflur en á endanum vann Álftanes 2 öflugan 25-21 sigur sem jafnaði leikinn í 1-1.

Þessi skellur vakti okkar lið allhressilega og staðan varð fljótt orðin 1-8. Forskotið jókst bara er á leið og aftur vannst 12-25 sigur og KA vantaði því aðeins eina hrinu í viðbót til að tryggja sér sæti í næstu umferð.

Aftur gáfu heimakonur hinsvegar í og þær leiddu 6-1 í byrjun fjórðu hrinu. Erfiðlega gekk að minnka muninn og staðan var 17-12 um miðbik hrinunnar. Þá loksins kviknaði á okkar liði sem gerði næstu átta stig og komst því 17-20 yfir. Stelpurnar sigldu svo inn 21-25 sigri og þar með leiknum 1-3 og KA því komið áfram í næstu umferð í Kjörísbikarnum.

Við höfum því miður ekki stigaskorun úr leiknum en á morgun mæta stelpurnar hinsvegar Þrótti Reykjavík í leik í Mizunodeildinni og áfram ansi mikilvægt að sækja öll stig sem í boði eru enda munar áfram einungis einu stigi á toppliði KA og HK sem situr í 2. sæti deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is