Endurkoma KA tryggði hreinan úrslitaleik

Blak
Endurkoma KA tryggði hreinan úrslitaleik
Úrslitaleikur framundan! (mynd: Þórir Tryggva)

Karlalið KA var með bakið uppvið vegg er liðið sótti HK heim í fjórða leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. HK myndi hampa titlinum með sigri en KA liðið þurfti á sigri að halda til að knýja fram hreinan úrslitaleik um titilinn og því ansi mikið undir í Fagralundi í Kópavogi.

Það var smá skjálfti í báðum liðum í upphafi og var svolítið um mistök á báða bóga. Heimamenn voru fyrri til að koma sér í gang og leiddu hrinuna þó KA liðið væri aldrei það langt á eftir. Undir lokin leiddi HK 24-20 og allt útlit fyrir að þeir tækju forystuna, þá svöruðu strákarnir hinsvegar með næstu fjórum stigum og knúðu fram upphækkun. Það var því miður ekki nóg, HK gerði næstu tvö stig og tók því forystuna 1-0.

Filip Szewczyk var mættur aftur í uppspilarastöðuna eftir leikbann í síðasta leik og því engar afsakanir hjá okkar liði. Strákarnir fundu taktinn betur og betur og lokuðu vel á heimamenn í hávörninni. KA leiddi aðra hrinu frá upphafi og vann á endanum frekar sannfærandi 19-25 sigur og jöfnuðu þar með metin í 1-1.

Í þriðju hrinu fór hávörn okkar liðs sem hafði gert svo vel áður að leka og HK gekk á lagið. Strákarnir reyndu hvað þeir gátu að bregðast við breyttu spili HK en það gekk ekki nægilega vel og HK tók forystuna á ný með 25-22 sigri. Heimamenn því í lykilstöðu fyrir lokasprettinn en strákarnir komnir í erfiða stöðu og stemningin í Fagralundi var ansi mikil.

En strákarnir voru ekki af baki dottnir og sýndu mikinn karakter með því að komast í 3-8 forystu snemma í fjórðu hrinu. HK kom með nokkur áhlaup en ávallt virtist okkar lið ná að svara til baka. Það kom þó að því að HK náði að jafna í 16-16 og síðar ná forystunni í 19-18. Þá var farið að fara um ansi marga stuðningsmenn KA en strákarnir voru ískaldir og sneru hrinunni aftur við og unnu að lokum góðan 22-25 sigur og sóttu þar með oddahrinu.

KA gerði fyrstu fjögur stigin í oddahrinunni og senti út skýr skilaboð að þeir vildu engan veginn sjá á eftir titlinum í hendur HK. Heimamenn svöruðu fyrir sig en þeim tókst aldrei að jafna og eftir að HK hafði minnkað í 8-9 kláraði KA dæmið með 10-15 sigri og þar með leikinn samtals 2-3.

Liðin þurfa því að mætast í hreinum úrslitaleik um titilinn í KA-Heimilinu þriðjudaginn 23. apríl næstkomandi klukkan 19:30. Það er nokkuð ljóst að við þurfum öll að mæta og styðja okkar frábæra lið þá og tryggja að strákarnir endurtaki leikinn frá því í fyrra með því að vinna alla titla tímabilsins, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is