Fullt hús stiga eftir nágrannaslaginn

Blak
Fullt hús stiga eftir nágrannaslaginn
Frábær byrjun hjá okkar liði (mynd: EBF)

Það virðist fátt geta stöðvað kvennalið KA í blaki um þessar mundir en í kvöld lagði liðið Völsung að velli 3-0 í nágrannaslag í KA-Heimilinu. Það var fín mæting á leikinn og það náðist flott stemning á köflum enda var leikurinn hin ágætasta skemmtun og flott blak sem liðin buðu uppá.

Gestirnir frá Húsavík hófu leikinn betur og leiddu leikinn í upphafi, KA liðið spilaði sig þó betur saman er leið á og komst yfir í 8-7. Eftir það komst liðið í fjögurra stiga forskot og létu stelpurnar þá forystu aldrei af hendi, mestur varð munurinn sex stig. Völsungar gerðu hvað þær gátu til að brúa bilið og gerðu vel í að minnka muninn niður undir lokin en það var ekki nóg og KA vann fyrstu hrinuna 25-21.

Í upphafi annarrar hrinu virtist sem KA ætlaði að stinga af og en áfram gerðu gestirnir vel í að halda í við KA liðið og náðu í kjölfarið að snúa leiknum. Jafnt var á öllum tölum frá 10-10 og upp í 16-16 en þá kom frábær kafli hjá KA liðinu sem komst í 22-16 og hrinan í raun búin. Lokatölur 25-21 fyrir KA og staðan orðin ansi góð í 2-0.

Það er töluvert meiri breidd í KA liðinu og það sást bersýnilega í þriðju hrinu enda dró af lykilmönnum Völsunga á meðan KA liðið gat dreift álaginu betur. Fljótlega voru stelpurnar komnar með gott forskot sem jókst bara er leið á hrinuna, mestur varð munurinn þrettán stig í stöðunni 21-8 og lokatölur urðu svo 25-14.

Sannfærandi 3-0 sigur staðreynd en KA liðið þurfti þó að hafa töluvert fyrir fyrstu tveimur hrinunum og ljóst að töluvert býr í liði Húsvíkinga. KA liðið er hinsvegar áfram á toppi deildarinnar og það með fullt hús stiga nú eftir fjóra leiki. Það vantaði Birnu Baldursdóttur í liðið í kvöld en hún leikur stórt hlutverk í liðinu og er einn besti blokkari landsins. Það var því ansi jákvætt að sjá liðið vinna jafn góðan sigur eins og raun ber vitni.

Helena Kristín Gunnarsdóttir átti frábæran leik fyrir KA og var stigahæst með 17 stig, Hulda Elma Eysteinsdóttir kom næst með 16 stig og Paula del Olmo gerði 8 stig, aðrar minna. KA skoraði alls 13 stig beint úr uppgjöfum sem verður að teljast ansi gott!

Næsti leikur liðsins er alvöru slagur en hann er heimaleikur gegn Þrótti Nes. þann 24. nóvember næstkomandi. Þróttur er einnig búinn að vinna fyrstu fjóra leiki sína en hafa misst eitt stig vegna oddahrinu. Það má því búast við virkilega erfiðum og krefjandi leik hjá liðinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is