Fyrsti tapleikur kvennaliðs KA

Blak

KA stúlkur töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu fyrir Fylki í gærkvöldi 3-0 (25-18)(25-22)(25-18).  KA stúlkur náðu sér aldrei á strik í leiknum og virkuðu þreyttar eftir ferðalagið að norðan.  Marek Bernat þjálfari KA fékk gult og síðan rautt spjaldi í leiknum fyrir að mótmæla dómi.  Hann tekur út eins leiks bann vegna þessa í leik KA og HK í dag.

KA stúlkur voru einhvern vegin alltaf skrefinu á eftir Fylki í þessum leik, virkuðu þreyttar og það gekk fátt upp í vörn og sókn.  Fylkiskonur spiluðu af öryggi - gerðu fá mistök og skiluðu boltanum yfir og létu KA stúlkur um að gera mistökin.  Áberandi var hversu oft KA lét Fylki lauma á sig í leiknum sem er nokkuð sem liði verður að laga fyrir næstu leiki. Mikið var um ýmis mistök hjá KA og sóknin var fremur bitlaus í leiknum og greinilegt að liðið saknaði Huldu Elmu á kanntinn sem var fjarverandi. Aðeins Birna Baldursdóttir (með 11 stig) og Auður Jónsdóttir (með 10 stig) voru að skora einhver stig að ráði í leiknum og það gengur ekki á móti hinu reynda liði Fylkis. Marek Bernat fékk gult spjald fyrir að mótmæla dómi í leiknum. Dómarinn dæmdi snertingu á bolta sem samkvæmt leikmönnum KA var rangur dómur. Dómarinn gat ekki sagt til um hver hefði snert boltann en hélt sig við dóminn.  Þessu mótmælti Marek og fékk fyrst gult spjald og síðan rautt þegar hann hélt áfram að spyrja hverju þetta sætti. Fyrir vikið fær Marek eins leiks bann sem hann tekur út í leik kvennaliðs KA og HK í dag.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is