HK hafði 3-1 sigur gegn KA í leikjum helgarinnar

Blak
HK hafði 3-1 sigur gegn KA í leikjum helgarinnar
Frá leik KA og HK um helgina

Um helgina fóru fram tveir leikir á milli KA og HK í Mikasadeildinni. HK hafði sigur í báðum leikjum 3-1 og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn. 

Í fyrri leiknum var fyrsta hrinan jöfn og skemmtileg en KA höfðu betur 25-21. Í næstu hrinu fóru margar uppgjafir til spillis hjá báðum liðum en þau skiptust á að fá stig. Í annarri hrinunni leiddu KA menn 18-15 þegar Gunnar Pálmi Hannesson meiddist í liði KA manna. Þá kom Piotr Kempisty inn á en hann hefur ekki verið með í síðustu leikjum vegna meiðsla. Þetta setti KA-menn úr jafnvægi og náði HK að sigra hrinuna 25-23. HK menn voru yfir alla þriðju hrinuna og náðu fimm stigum í byrjun áður en KA menn tóku við sér en náðu ekki að vinna upp forskotið og fór hrinan 25-20. HK leiddi einnig fjórðu hrinuna sem endaði líka 25-20. Filip Szewczyk, uppspilari og þjálfari KA manna fékk að sjá gula spjaldið fyrir dómaraþref. 

Hjá KA var Ævarr Freyr Birgisson stigahæstur með 11 stig og Piotr Kempisty og Valþór Ingi Karlsson báðir með 10 stig. Í HK liðinu voru Hilmar Sigurjónsson og Theódór Ó. Þorvaldsson stigahæstir með 11 stig og næstur þeim var Ágúst Máni Hafþórsson með 6 stig. 

Í seinni leiknum á laugardag var fyrsta hrinan mjög jöfn og vel spiluð af báðum liðum sem skiptust á að fá stig. HK yfirleitt einu stigi yfir þar til staðan var 22-22 þá tóku KA menn yfirhöndina og hrinan fór 26-24. Í næstu hrinu voru KA menn yfir og staðan orðin 16-13 þegar HK jafnaði og liðin börðust um eitt og eitt stig allt til loka en hrinan fór 26-24 fyrir HK. Þriðja hrinan byrjaði ágætlega og liðin jöfn. Í stöðunni 14-14 fékk Filip í KA að sjá gula spjaldið fyrir að deila við dómarann sem borgar sig sjaldnast eða aldrei. Leikmenn KA misstu einbeitinguna algjörlega og liðið sjálft fékk gult spjald fyrir leiktöf. Hrinan fór 25-17 fyrir HK. Eftir að hrinunni lauk fékk Filip rautt spjald frá dómara sem gaf HK mönnum eitt stig í næstu hrinu. Í fjórðu hrinunni var HK yfir allan tímann, allt til enda og fór hún 25-22. 

Hjá KA mönnum var Ævarr Freyr Birgisson stigahæstur með 21 stig og Piotr Kempisty með 17 stig. Stigahæstir í HK voru Theódór Ó. Þorvaldsson með 17 stig og Hilmar Sigurjónsson með 14 stig. Hjá KA mönnum var það Ævarr Freyr Birgisson með 21 stig og Piotr Kempisty með 17 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is