Íþróttamenn deilda tilkynntir

Almennt

Það er vefsíðu KA sannur heiður að fá að tilkynna um íþróttamenn deilda KA fyrir árið 2017. Þessir þrír íþróttamenn munu svo berjast um að vera útnefndur íþróttamaður KA en það verður tilkynnt á afmæli KA þann 13. janúar næstkomandi.

Blakdeild tilnefnir Ævarr Frey Birgisson

Blakdeild KA tilnefnir Ævarr Frey Birgisson sem Íþróttamann KA. Ævarr spilaði stórt hlutverk í blakliði KA á síðastliðnu ári og hefur ávallt verið til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan. Ævarr er fyrirliði meistaraflokks karla sem hefur byrjað þetta tímabil mjög vel og er í efsta sæti úrvalsdeildarinnar með eins stigs forskot á HK þrátt fyrir að hafa leikið einum færri leiki. Ævarr er góður alhliða leikmaður og er liðinu afar mikilvægur bæði í vörn og sókn. Hann var valinn í draumalið fyrri hluta tímabilsins sem besti kantur og lýkur árinu með bestu móttöku deildarinnar.

Ævarr hefur verið fastamaður í A landsliði Íslands undanfarin ár og í ár var engin undantekning þar á. Hann var valinn í hóp fyrir öll fjögur verkefni ársins og var í byrjunarliði allflesta leiki sem liðið lék. Hæst ber að nefna að liðið vann bronsverðlaun á Evrópumóti Smáþjóða og lék í fyrsta skipti í annarri umferð undankeppni Heimsmeistaramótsins þar sem þeir mættu nokkrum af sterkustu þjóðum heims og lék Ævarr þar stórt hlutverk.

 

Handknattleiksdeild tilnefnir Mörthu Hermannsdóttur til íþróttamanns KA. Martha Hermannsdóttir er 34 ára gömul handknattleikskona og algjör burðarás í liði KA/Þórs. Martha leikur sem leikstjórnandi eða skytta hjá KA/Þór sem leikur í 1. deild kvenna í handbolta. Á síðustu leiktíð lenti KA/Þór í 2.sæti í 1.deild kvenna og töpuðu fyrir Selfoss í umspili um laust sæti í úrvalsdeild. Martha varð lang markahæsti leikmaður KA/Þór á síðasta keppnistímabili með 179 mörk og varð önnur markahæst í deildinni. Hún var auk þess valin leikmaður ársins í 1.deild á síðasta tímabili og kom það engum á óvart enda yfirburðaleikmaður síðasta keppnistímabil. Sem stendur er KA/Þór efst í fyrstu deildinni og hafa unnið alla sína leiki. Martha er gríðarlega góð fyrirmynd innan sem utan vallar. Hún sýnir mikla leiðtogahæfni og er alltaf jákvæð og brosandi inn á vellinum. Hún er yngri leikmönnum liðsins gríðarlega mikilvæg enda með mikla reynslu sem þær læra af. Martha hefur áður verið tilnefnd af handknattleiksdeild, fyrst árið 2014 og varð hún hlutskörpust það árið í kjörinu. Martha er frábær kandídat sem íþróttamaður KA árið 2017.

 

Knattspyrnudeild tilnefnir Önnu Rakel Pétursdóttur

Anna Rakel Pétursdóttir er fædd 24. ágúst 1998. Hún hefur æft fótbolta með KA frá því hún var 4 ára. Í yngri flokkum félagsins var hún afgerandi leikmaður í liði sem stóð sig vel á landsvísu. Anna Rakel hefur verið yngri iðkendum góð fyrirmynd en hún hefur síðustu fjögur ár verið í þjálfarateymi yngri flokka KA í knattspyrnu. Hennar helstu styrkleikar eru að hún hefur mikið keppnisskap, góða tækni og frábærar spyrnur. Anna Rakel hefur alla tíð lagt hart að sér til að ná sem lengst og það skilaði sér í því að einungis 15 ára spilaði hún sinn fyrsta leik í Pepsideildinni. Anna Rakel var ein af lykilmönnum í Íslandsmeistaraliði Þór/KA á árinu. Anna Rakel spilaði alla leiki liðsins sem vinstri vængbakvörður í leikkerfinu 3-4-3. Frammistaða hennar í þeirri stöðu gerði það að verkum að hún var í liði ársins bæði á Fotbolti.net og 433.is. Anna Rakel spilaði á árinu fimm landsleiki með U19 ára liði Íslands en alls á hún að baki 24 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Anna Rakel er byrjuð að banka á dyrnar hjá A-landsliðinu og var hún í fyrsta sinn valin í 20 manna landsliðshóp nú í haust í fyrsta leik Íslands í undakeppni HM. Anna Rakel hefur verið samningsbundin leikmaður KA frá því í ársbyrjun 2015. Anna Rakel er mikill KA-maður, góður liðsmaður og öflugur íþróttamaður sem átti frábært ár og er því vel að því komin að vera kandidat fyrir hönd knattspyrnudeildar í vali á Íþróttamanni KA 2017.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is