Jóna og Mateusz best á lokahófi blakdeildar

Blak

Blakdeild KA gerði upp frábært tímabil sitt með glæsilegu lokahófi í gær en bæði karla- og kvennalið KA lönduðu sjálfum Íslandsmeistaratitlinum í vikunni en stelpurnar urðu einnig Bikarmeistarar, Deildarmeistarar og Meistarar Meistaranna í vetur.

Jóna Margrét Arnarsdóttir og Mateusz Jeleniewski voru valin bestu leikmenn liðanna og eru þau bæði ansi vel að þeim heiðri komin. Jóna sem spilar sem uppspilari var algjörlega frábær í vetur og Mateusz batt saman karlaliðin með innkomu sinni í stöðu frelsingja.

Gísli Marteinn Baldvinsson og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir fengu verðlaun fyrir mestu framfarir í vetur en Gísli hóf að leika sem miðja í vetur þar sem hann sprakk út og átti flestar blokkir í úrvalsdeildinni. Heiða sem gekk í raðir KA fyrir tímabilið var stórkostleg á kantinum og var meðal stigahæstu leikmanna deildarinnar.

Bestu liðsfélagarnir voru valin þau Magnus Rosazza og Gígja Guðnadóttir en bæði eru þau afar vel að þeim heiðri komin enda miklir liðsmenn og gefa sig öll fyrir liðsheildina. Bæði eiga þau sameiginlegt að vera afar jákvæð og drífandi og afar mikilvæg í að skapa alvöru liðsheild.

Að lokum fengu þær Jóna Margrét og Gígja glæsilega KA keppnistreyju merkta með nafni að gjöf en báðar munu þær reyna fyrir sér erlendis á næstu leiktíð. Það verður afar spennandi að fylgjast með þessum frábæru leikmönnum á nýjum vettvangi en á sama tíma ljóst að skarð þeirra verður erfitt að fylla.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is