KA áfram ósigrað eftir uppgjör toppliðanna

Blak
KA áfram ósigrað eftir uppgjör toppliðanna
Stelpurnar áttu flottan leik (mynd: Þórir Tryggva)

Það var heldur betur stórleikur í Mizunodeild kvenna í dag þegar KA sótti Aftureldingu heim. Bæði lið höfðu unnið alla sína leiki í vetur og ljóst að liðin myndu berjast grimmt um stigin þrjú sem í boði voru. Karlalið KA sótti svo Álftnesinga heim þar sem liðin í 3. og 5. sæti deildarinnar mættust.

Leikurinn fór skemmtilega af stað og skiptust liðin á að leiða. Munurinn hélst í 1-3 stigum fyrri hluta fyrstu hrinu en í stöðunni 14-14 gerði KA liðið fimm stig í röð og virtist ætla að klára dæmið. En Mosfellingar svöruðu og náðu að jafna í 22-22 en nær komust þær ekki því KA gerði næstu þrjú stig og vann því fyrstu hrinuna 22-25.

Afturelding ætlaði greinilega að svara fyrir sig því þær byrjuðu betur í annarri hrinu en í stöðunni 7-4 fór okkar lið allverulega í gang og stelpurnar gjörsamlega keyrðu yfir heimaliðið. Á endanum vannst 16-25 sigur og staðan því orðin ansi góð hjá stelpunum sem voru að spila virkilega vel.

KA gerði fyrstu fjögur stigin í þriðju hrinu og leiddu í kjölfarið þó Mosfellingar hafi aldrei verið langt undan. Staðan var 18-20 þegar komið var að lokakaflanum og ljóst að Afturelding var með bakið uppvið vegg. Þeim tókst að snúa hlutunum sér ívil og tryggja sér 25-23 sigur.

Leikurinn fór því í fjórðu hrinu og þar var greinilegt að stelpurnar ætluðu sér engan veginn að missa stig í leiknum því aftur tóku þær frumkvæðið og í þetta skiptið gáfu þær Mosfellingum engan möguleika á að koma sér aftur inn í leikinn. Á endanum vannst 19-25 sigur og því 1-3 sigur KA staðreynd.

Gríðarlega sterkur þriggja stiga sigur í hús og KA er því fyrsta liðið í vetur sem tekst að leggja Aftureldingu að velli. KA er því á toppi deildarinnar með 23 stig eftir 8 leiki en liðin mætast aftur á morgun klukkan 13:00 og geta stelpurnar með sigri stungið af í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn.

Karlamegin var líka um mikilvægan leik að ræða en KA hefur ekki farið nægilega vel af stað í deildinni í vetur og þurfti því sárlega á sigri að halda gegn Álftanesi. Byrjunin á leiknum var ekki alveg sú sem lögð var upp með og heimamenn komust mest sex stigum yfir og leiddu fyrstu hrinu. Strákarnir náðu að koma sér nær heimamönnum undir lok hrinunnar en það dugði ekki og tapaðist því hrinan 25-22.

KA liðið svaraði fyrir sig í upphafi annarrar hrinu og tók frumkvæðið. Forysta KA liðsins jókst hægt og bítandi og allt útlit var fyrir að KA myndi jafna metin í stöðunni 16-23 og vantaði KA því aðeins tvö stig til að klára hrinuna. En þá klikkaði allt hjá liðinu og Álftanes gerði 8 stig í röð og komst því í 24-23. Strákarnir náðu að knýja fram upphækkun en það var ekki nóg og Álftanes vann 26-24 sigur og staðan orðin ansi erfið.

Mikil spenna var í þriðju hrinu og skiptust liðin á að leiða. Munurinn var lengst af aðeins 1-2 stig og erfitt að sjá hvort liðið myndi ná að taka þessa mikilvægu hrinu. Á endanum voru það heimamenn sem áttu lokakaflann og þeir unnu 25-21 sigur og samanlagt 3-0.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda voru allar hrinurnar jafnar og spennandi. Sérstaklega situr tapið í annarri hrinu í mönnum enda var liðið í lykilstöðu á að klára það dæmi. Strákarnir eru nú komnir í jólafrí og ljóst að liðið þarf að fara vel yfir málin fyrir síðari hluta tímabilsins enda hafa einungis þrír leikir af átta unnist í vetur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is