KA tryggði sér úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki - myndir

Blak

Það var allt undir í kvöld þegar KA tók á móti HK í fjórða leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í blaki. Bikarinn var í húsinu enda hefði HK tryggt sér meistaratitilinn með sigri í leiknum þar sem þeir voru 2-1 yfir í einvíginu.

Fyrsta hrinan var æsispennandi og jafnt á flestum tölum en KA menn lönduðu baráttusigri 25:23. KA tók síðan öll völd í annarri hrinu og unnu hana nokkuð örugglega 25:19. HK liðið kom til baka í þriðju hrinu og hafði þægilega forystu lengst af. KA náði að hleypa spennu í hrinuna með því að minnka muninn í eitt stig 19:20 en HK landaði henni með góðum endaspretti 20:25.

KA hóf fjórðu hrinuna af miklum krafti, náðu 5:1 forystu og létu hana aldrei af hendi og unnu hana sömuleiðis með fimm stigum, 25:20 og leikinn þar með 3:1.

Allir fjórir leikirnir í einvíginu hafa unnist á heimavelli með þrem hrinum gegn einni.

Það er því jafnt í einvíginu 2:2 sem verður útkljáð með hreinum úrslitaleik á fimmtudagskvöldið á heimavelli HK-inga í Fagralundi í Kópavogi.

Þórir Tryggvason var á staðnum með myndavélina og smellti af slatta af myndum.

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum í kvöld.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is