KA náði silfrinu

Blak
KA náði silfrinu
Barist við netið

KA tryggði sér í gærkvöldi silfurverðlaun í deildarkeppni BLÍ með því að leggja að leggja deildar- og bikarmeistara Þróttar Reykjavík 3-2. 

 

Leikurinn fór rólega af stað og fyrsta hrinan var ekki sérlega vel leikin en Þróttur vann hana 25-21. KA menn tóku sig verulega á í næstu tveimur hrinum og  unnu þær báðar 25-22.  Þá tóku Þróttarar við sér aftur og unnu örugglega 25-15. Í síðustu hrinunni voru KA menn hins vegar mun sterkari og unnu hana örugglega 15-9, eftir að hafa verið yfir 8-5 við leikvallarskipti, og unnu þannig leikinn 3-2. 

Allir leikmenn KA voru að spila fínan leik. Piotr Kempisty var sterkur að vanda og skoraði 15 stig í leiknum. Bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir voru sterkir á miðjunni og Filip Szewczyk mataði þá með fyrirtaks uppspilum og var Filip líklega einna bestur KA manna í leiknum. Þá var Hilmar Sigurjónsson sterkur og skilaði sínu og Valgeir Valgeirsson stóð sig einnig mjög vel þegar honum var skipt inn í leiknum.  Hjá Þrótti kom Sævar Guðmundsson inn í uppspilið í stað Guðjóns Vals og stóð átti Sævar fyrirtaks leik. Miðjumaðurinn Áki Thoroddsen átti einnig mjög góða leik fyrir Þrótt. Annars var lið Þróttar lítt breytt frá því í bikarleiknum fyrir viku síðan.

Sem sagt góður karakter hjá KA að landa sigri í leiknum, leggja hið geysisterka lið Þróttar og tryggja sér silfrið og ekki síst tryggja sér heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni gegn Stjörnunni.

Dagsetningar fyrir leikina gegn Stjörnunni eru eftirfarandi:

  • Fimmtudagurinn 26. Mars - Leikur 1 - í KA heimilinu á Akureyri,
  • Laugardagurinn 28. Mars - Leikur 2 – í Ásgarði í Garðabæ,
  • Mánudagurinn 30. Mars  - Leikur 3 ef þarf - í KA heimilinu á Akureyri.

     


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is