Karlalið KA fer vel af stað í Brosbikarnum

Blak
Karlalið KA fer vel af stað í Brosbikarnum
Nokkrir af leikmönnum KA sem stóðu í eldlínunni um helgina.

Leiktímabilið í blakinu hófst um helgina þegar fyrra úrtökumótið Brosbikarnum fór fram í Ólafsvík.  Leikið var í tveimur riðlum og var KA í riðli með Fylki og HK. Leikin var tvöföld umferð en leikirnir voru styttri  en vant er en leikið var upp á 2 hrinur unnar í staðinn fyrir 3 hrinur unnar eins og í Íslandsmótinu.  Gengi KA var upp og ofan í mótinu en liðnu tókst engu að síður að vinna sinn riðil tryggja sér sæti í fjögurra liða úrslitum Brosbikarsins.

KA spilaði við Fylkir í fyrsta leik mótsins á föstudagskvöld.  KA liðið  var seint af stað og Fylkir vann fyrstu hrinuna. KA vann aðra hrinuna nokkuð örugglega og því kom til úrslitahrinu. Sú var æsispennandi en KA vann hana 20-18 eftir mikinn barning.

Á laugardag vann KA liðið svo HK í tvígang 2-0. Þar spilaði liðið lengst af ágætlega en HK menn stríddu KA mönnum þó á köflum. Piotr Kempizty fór mikinn í þessum leikjum og í einni hrinunni gaf hann t.d. upp frá stöðunni 9-9 upp í 19-9 og skoraði fjölmörg stig með þrumuuppgjöfum. Endaði þar með því að hann skaut niður einn leikmann HK en sá jafnaði sig þó fljótt og gat haldið áfram leik.

Í síðari leik KA við Fylki gekk hins vegar ekkert upp og Fylkir vann leikinn 2-0. Þar fór Martin uppspilari Fylkis fyrir sínum mönnum með klóku spili og laumaði grimt á KA menn. KA menn féllu niður á mjög lágt plan í sinni spilamennsku og náðu ekki að rífa sig upp úr þeirri ládeiðu.

HK vann annan leik sinn gegn Fylki og því stóð KA uppi sem sigurvegari síns riðils.

Lið KA var ekki fullskipaði að þessu sinni en í liðið vantaði aðaluppspilara liðsins Filip Sevz.... og einnig vantaði fyrirliða liðsins til margra ára Davíð Búa Halldórsson. Davíð ætlar að byrja rólega í vetur en hann átti við meiðsli að stríða í fyrravetur. Hann mun væntanlega koma smá saman inn í  liðið þegar líður á tímabilið ef vel gengur.

Tveir ungir nýjir leikmenn spiluðu sína fyrstu meistaraflokkleiki með KA. Það voru þeir Arnar Páll Sigurðsson og Kristján Bjarni Kristjánsson. Kristján spilaði sem frelsingi og stóð sig með miklum ágætum. Arnar kom inn í afturlínuna í uppgjafir og vörn og stóð sig einnig ágætlega. Báðir þessir strákar eru aldir upp í KA og og eru kornungir aðeins 16 ára og mjög efnilegir blakmenn.

Nánari úrslit úr einstökum hrinum og úrslit úr hinum riðlinum má finna á http://www.bli.is/

Hér að neðan má sá nýja reglugerð BLÍ um bikarkeppnina.

Það helsta sem hefur breyst frá fyrra ári er að nú spilar sigurvegarar fyrra mótsins ekki í síðarar mótinu. Þeir tryggja sig strax inn í fjögurra liða úrslit. Í síðara mótinu munu svo tvö önnur lið tryggja sér þátttökurétt í fjögurra liða úrslitum Brosbikarsins.

 

Reglugerð BLÍ um bikarkeppni

Undanúrslit og úrslit bikarkeppni BLÍ fara fram á einni helgi. Þátttökulið eru þau sem hafa áunnið sér þann rétt í undankeppni skv. 2. gr. BLÍ sér um framkvæmd keppninnar og ákveður leikstað. Tímasetning og staðsetning skal liggja fyrir þegar auglýst er eftir þátttökuliðum í keppnina.

 

1.      Gr.

 

Undankeppni Bikarkeppni BLÍ eru 2 mót. BLÍ ákveður staðsetningu mótanna. Á fyrra mótinu er liðum skipt í 2 riðla (riðil a og riðil b). Efsta lið í deildakeppni BLÍ á undangengnum vetri skal vera sett í riðil a og liðið í öðru sæti deildarkeppninnar verður í riðli b. Dregið verður um í hvaða riðli önnur þátttökulið lenda. Sigurvegari í riðli a verður lið a í undanúrslitaleik 1. Sigurvegari í riðli b verður verður lið a í undanúrslitaleik 2. Sigurliðin tvö taka ekki þátt í seinni undankeppninni. Í undankeppni tvö taka öll lið þátt í einum riðli og vinna tvö efstu liðin sér þátttökurétt í undanúrslitum. Dregið er um hvaða mótherja þessi lið fá í undanúrslitum (þ.e. hvaða lið verður lið b í undanúrslitum í leik 1 o.s.frv.).

 

2.      Gr.

 

Í undankeppni skal leikið upp á 2 unnar hrinur þar sem hrina skal vera upp í 25 stig og oddahrina skal vera upp í 15 þó þannig að vinna þarf með tveimur stigum. Í undanúrslitum og úrslitum skal leikið með hefðbundu fyrirkomulagi.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is