Kvennalið KA vann Stjörnuna

Blak

KA og Stjarnan tókust á í kvennaflokki í blakinu strax á eftir karlaleik sömu liða. Og aftur var boðið upp á 5 hrinu leik og aftur tókst KA að vinna 3-2 (25-20, 23-25, 25-15, 22-25, 15-10).

KA byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinuna örugglega 25-20. Önnur hrina var jöfn og spennandi en mikið bar á uppgjafamistökum hjá KA sem missti alls 11 uppgjafir og var greinilegt að liðið hafði misst niður einbeitingu. Þrátt fyrir þetta hélt KA í við lið Stjörnunna en í stöðunni 23-23 missti KA uppgjöf og í kjölfarið komu önnur mistök hjá liðinu og Stjarnan tók hrinuna 25-23.  Leikmenn KA tóku sig verulega á í þriðju hrinunni og unnu hana af miklu öryggi 25-15 og var allt annað að sá leik liðsins.  Stjarnan skipti þá nokkrum reyndari leikmönnum sínum á völlinn og leikur þeirra lagaðist til muna og Stjarnan vann fjórðu hrinuna 25-22. Í fimmtu hrinu var KA mun sterkari aðilinn.  Una Heimisdóttir byrjaði hrinuna með sjö góðum uppgjöfum í röð og var staðan fljótlega orðin 8-1.  Stjarnan komst þá aðeins inn í leikinn en það dugði skammt og KA vann hrinuna örugglega 15-10 og þar með vann liðið sinn annan útileik á tveimur dögum. 

Auður Anna Jónsdóttir stóð sig vel í sókninni hjá KA fékk alls 20 stig. Una Heimisdóttir stóð sig einnig vel fékk alls 11 stig.  Guðrún Margét Jónsdóttir Harpa Björnsdóttir stóðu fyrir sínu, voru öruggar í sókn og vörn og áttu góðar uppgjafir.  Hin kornunga Alda Arnarsdóttir stóð sig einnig feikilega vel og fékk 10 stig fyrir sókn í leiknum. Ísey Hávarsdóttir fékk 2 stig úr blokk og spilaði af öryggi í leiknum.

Með sigrinum er KA liðið komið með 4 stig og er þar með nokkuð óvænt á toppi Mikasa deildarinnar. Of snemmt er þó að spá um gengi liðsins í vetur þar sem það á eftir að mæta nokkrum sterkustu liðum deildarinnar en byrjunin lofar góðu.

Að lokum má geta þess að reglum um stigagjöf var breytt í haust í fyrstu deildum BLÍ og eru nú gefinn 2 stig fyrir unnin leik en ekkert stig fyrir tapaðan en áður fengu lið stig fyrir hverja unna hrinu.

 

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is