Tap gegn Fylki -Leikur gegn HK á fimmtudag kl 19:30

Blak
Stelpurnar í KA töpuðu 0-3 gegn Fylki í kvöld og því eru vonir um bronsverðlaun á Íslandsmótinu nánast foknar út í veður og vind.  Mikil forföll voru í liðinu og vantaði m.a. Elmu, Birnu, Evu, Ástu, Dýrleifi og Ísey. Þær sem eftir voru áttu á brattann að sækja og töpuðu öllum hrinunum.

 

KA-Fylkir   0-3     (12-25, 21-25, 22-25)

Fyrsta hrinan var erfið fyrir stelpurnar sem náðu sér aldrei í gang. Önnur hrinan byrjaði á sömu nótum en smám saman fóru stelpurnar að berjast og náðu með smá heppni að jafna í 16-16. Fylkir skoraði þá fjögur stig í röð og hélst sá munur út hrinuna. Í lokahrinunni byrjaði KA með glans og komst í 6-0. Fylkir jafnaði í 9-9 og hafði svo frumkvæðið allt til loka. Stelpurnar gáfust samt aldrei upp og voru að spila glimrandi vel á köflum með systurnar Guðrúnu og Auði í fararbroddi. Smá heppni hefði fært þeim hrinuna og þá er aldrei að vita hvað hefði gerst.

Það var gaman að fylgjast með stelpunum í þessum leik. Þær voru mikið í gólfinu og með alls kyns reddingar sem glöddu áhorfendur.  Móttakan og hávörnin voru í erfiðleikum allan leikinn og sóknarleikurinn til að byrja með. Hann stórbatnaði þegar á leið og margar laumur og skellir skiluðu sér í gólfið. Ánægjulegast var að sjá leikgleðina í stelpunum þrátt fyrir mótlæti. Sunna spilaði allan leikinn á miðjunni og var að taka út sína eldskírn.

Á fimmtudag er síðasti heimaleikurinn í vetur. Þá  kemur HK í heimsókn og má búast þar við hörkuleik. Stelpurnar verða helst að vinna einhverjar hrinur í leiknum til að blása lífi í bronsvonir sínar en hjá HK má ekkert út af bregða ætli liðið að ná Íslandsmeistaratitlinum.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is