Bæði lið KA leika til úrslita í bikarnum

Blak

Það var heldur betur góður dagur í blakinu í gær er bæði karla- og kvennalið KA tryggðu sér sæti í bikarúrslitunum. Stelpurnar unnu flottan 3-1 sigur á Þrótti Nes. og strákarnir lögðu Þrótt Nes. 3-0 að velli í sínum leik. Úrslitaleikirnir fara fram í dag, konurnar leika kl. 13:30 og karlarnir kl. 15:30.

Stelpurnar hófu leikinn afar vel og komust snemma í 5-1. Austfirðingum gekk illa að stöðva spil okkar liðs og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 13-5. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin fyrsta hrina myndi enda og KA vann mjög öruggan 25-11 sigur og staðan orðin 1-0.

KA liðið hafði varla gert mistök í hrinunni en það breyttist í næstu hrinu þar sem Þróttur kom inn af krafti og pressaði okkar lið í erfiðar stöður. Mikil spenna var í hrinunni og tók okkar lið leikhlé í stöðunni 23-24 og reyndi að ná hrinunni en Þróttur kláraði á endanum 24-26 og jafnaði metin í 1-1.

Flottur varnarleikur var einkennandi fyrir þriðju hrinu, Austfirðingar leiddu til að byrja með en í stöðunni 7-9 kom flottur kafli sem breytti hrinunni. KA komst í 16-11 og það bil tókst Þrótti aldrei að brúa. Á endanum vannst 25-17 sigur eftir flottar sóknarrispur, staðan orðin 2-1 og útlitið nokkuð gott.

Stelpurnar tóku hinsvegar forystuna strax í upphafi fjórðu hrinu og bættu við forskotið jafnt og þétt. Þróttarar lentu í miklum vandræðum og sigur KA í raun aldrei í hættu. Niðurstaðan var því 25-17 sigur og samanlagt 3-1 í hrinum. Stelpurnar því komnar í úrslitaleikinn þar sem þær mæta sterku liði HK.

Karlalið KA mætti einnig Þrótti Nes. í sínum undanúrslitaleik og strákarnir byrjuðu af svakalegum krafti. Fyrsta hrina var í raun einstefna og vannst hún að lokum 25-11. Það vill þó oft gerast að þegar hrina vinnst jafn sannfærandi og þarna að sú næsta verður jafnari.

Það varð heldur betur raunin og Austfirðingar gáfu okkar liði hörkuhrinu. Þróttur leiddi 8-9 en þá komu fjögur stig í röð hjá KA liðinu sem leiddi svo í kjölfarið með 1-4 stigum. Að lokum vannst 25-22 sigur, staðan orðin 2-0 en ljóst að lið Þróttar var komið í mun betra stand en í fyrstu hrinu.

Frábær byrjun á þriðju hrinu slökkti hinsvegar í vonum Þróttar um að koma til baka og var mun minni spenna í hrinunni en kannski einhverjir voru að vonast eftir. KA vann 25-16 sigur og þar með samanlagt 3-0 og sætið í úrslitaleikinn bókað. Þar mætir okkar lið Álftanesi sem vann hörkusigur á HK í oddahrinu.

Úrslitaleikirnir fara fram í Digranesi í Kópavogi og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja okkar lið til sigurs. Fyrir þá sem ekki komast þá verða leikirnir í beinni útsendingu á RÚV, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is