Kvennaliðið okkar tapaði gegn Aftureldingu í dag

Aftureldingarkonur mættu ákveðnar til leiks og gerðu KA lífið leitt í fyrstu hrinunni. Þökk sé sterkum uppgjöfum og sóknarleik sigldu þær fljótt fram úr og lauk hrinunni með sannfærandi sigri Aftureldingar, 25-8.

Önnur hrinan hófst svipað og sú fyrsta. Afturelding pressaði vel í uppgjöfum á meðan KA voru í vandræðum og gerðu fjölda mistaka. Afturelding skoraði 7 stig í röð og komst í þægilegt forskot sem þær létu aldrei af hendi. Hrinunni lauk 25-17 fyrir Aftureldingu.

KA byrjuðu þriðju hrinuna á allt öðrum nótum en þær höfðu spilað fyrstu tvær og komust fljótt þremur stigum yfir, 1-4. Hrinan var nokkuð jöfn þar til Afturelding skoraði 5 stig í röð í stöðunni 12-10 og voru þar með komnar með sjö stiga forskot. Það létu þær ekki af hendi og unnu hrinuna 25-16 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæstar í liði Aftureldingar voru Velina Apostolova og Haley Rena Hampton með 14 stig hvor og hjá KA skoraði Arnrún Eik Guðmundsdóttir 7 stig.